Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Slæm staða Íslands

Slæm staða Íslands

Fyrir áramót voru samþykkt lög um stöðu lífeyrisþega. Í dag er hins vegar ljóst að lífeyrisþegum var ekki greiddur lífeyrir í samræmi við þessi nýju lög Alþingis og því borið við að einhver embættismaður hafi veitt því athygli að hin nýju lög séu ekki í samræmi við hans eigin túlkun.

Ríkisstjórnin hefur stokkið á þennan vagn og réttlætir þar með það að TR hafi ekki farið að gildandi lögum og það sé aldeilis í stakasta lagi að lífeyrisþegar hafi ekki fengið greiðslur í samræmi við gildandi lög. Í öllum lýðræðisríkjum gildir sú grundvallarregla að ríkisstofnanir ásamt öðrum samfélagsþegnum fari að settum lögum Alþingis þangað til að þeim hefur verið breytt með nýjum lögum.

Ísland sker í þessu efni sig úr flestum þeirra landa sem við viljum bera okkur saman. Skyndiákvarðanir og tilfallandi túlkanir stjórnarþingamanna ráða. Reyndar hafa sumir stjórnþingmanna, þ.á.m. formenn starfsnefnda viðurkennt að þeir hafa mjög litla þekkingu á tryggingarkerfinu og skilji reyndar lítið sem ekkert í þeim lögum sem þeir eru þá á fullum launum við að breyta fram og tilbaka eins og yfirlýsingar þeirra í fréttatímum bera með sér.

Um alllangt skeið hafa staðið yfir deilur milli lífeyrissþega og stjórnvaldsins um grunnlífeyri frá Tryggingarstofnun og vaxandi tilhneigingu stjórnvaldsins að auka skerðingar á framlagi ríkissjóðs til ellilífeyrisþega. Nýlega var birt samantekt sem starfshópur á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða (ll.is) hefur unnið þar sem íslenska lífeyriskerfið er borið saman við kerfi fjögurra annarra Evrópulanda, Englands, Hollands, Svíþjóðar og Danmerkur.

Í samantektinni kemur fram að á Íslandi eru útgjöld til ellilífeyris sem hlutfall af landsframleiðslu umtalsvert minni er í hinum löndunum fjórum. Íslenska lífeyriskerfið sker sig úr í öllum samanburði hversu mikil tekjutenging lífeyris er hér ríkjandi gagnvart opinbera kerfinu. Ísland er eina landið þar sem lífeyrir úr opinbera kerfinu fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk.

Ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa keyrt í gegn breytingar á almannatryggingum þar sem þau hafa fellt niður og/eða skert grunnlífeyri þúsunda eftirlaunaþega. Í eðli sínu samsvara breytingar stjórnvaldsins á almannatryggingum því að atvinnurekendur tækju sig til og breyttu einhliða kjarasamningum. Það hefur hins vegar aldrei gerst að í kjarasamningum laun tiltekins hóps hafi verið lækkuð eða jafnvel felld niður til þess að fjármagna hækkun hækka launa annarra félagsmanna eins og stjórnvaldið gerir endurtekið gagnvart eftirlaunaþegum.

Virði aðilar vinnumarkaðsins ekki lög um samskipti á vinnumarkaði er viðkomandi dreginn fyrir dómstólana. Íslenskir stjórnmálamenn hafa ítrekað verið staðnir að því að túlka lög og reglur eftir eigin hentugleikum hverju sinni. Þar má t.d. benda á orð fjármálaráðherra í fréttum 28. feb. síðastliðinn þegar hann segir að tíföld launhækkun þingmanna umfram það sem eigi að vera á launamarkaði snerti á engan hátt þá stefnu að launahækkanir eigi að rúmast innan ríkjandi verðbólgumarka!!??

Þegar framfærsluuppbótin var sett inn í almannatryggingar á sínum tíma til að tryggja stöðu þeirra tekjulægstu, var það alltaf gert ráð fyrir verulegri hækkun frítekjumarka. Skerðingin „króna á móti krónu“ varð því langtum meiri en ætlað var vegna vanefnda stjórnvalda að hækka frítekjumörkin í samræmi voð launaþróun. Það er sérstök ástæða að halda því til haga að í öllum útreikningum sem hið opinbera hefur birt undanfarin misseri að upphafspunkturinn er þar ávallt staðan þegar íslenskt hagkerfi lá sundurtætt fyrir fótum okkar árið 2009 og gerðar voru örvæntingarfullar tilraunir við að komast upp úr gryfjunni.

Stjórnvaldið á vitanlega að leggja til hliðar þau viðmið og nota samfellu þar sem tekið er tillit til þróunarinnar eins og hún var fyrir Hrunið. Það á að sjálfsögðu að miða við stöðu lífeyrisþega fyrir Hrun saman við stöðuna í dag. Núverandi vinnubrögð samsvara því að verið sé að bera saman epli og appelsínur.

Það stenst einfaldlega ekki jafnræðisregluna þegar stjórnvaldið berst fyrir því að fella algjörlega niður frítekjumörkin. Lífeyrisþegar hafa allan sinn starfsaldur greitt skatta til samfélagsins og þeir eiga sakir þess þar rétt til grunnbóta. Þetta blasir við í þeim samfélögum sem við viljum miða okkur við. Þar er þessi stjórnarskrárvarði réttu virtur, eins og glögglega kemur fram í úttekt starfshóps LL. Eldri borgarar hafa ítrekað bent háttvirtu Alþingi á að 45% skerðingarprósenta sé of há og vitnað þar m.a. í að skerðing vegna annarra tekna væri engin í Noregi og 30% vegna atvinnutekna í Danmörku.

Íslenskir lífeyrisþegar hafa ávallt sætt sig við að í kerfinu sér frítekjumark hvað varðar atvinnutekjur. Samkvæmt jafnræðisreglunni á að gæta samræmis í meðhöndlun allra tegunda af tekjum. Stefna núverandi stjórnvalds gengur þvert á álit verkefnisstjórnar um endurskoðun almannatrygginga, sem skilaði tillögum sínum í október 2009.

Í því áliti er ekki lagt til afnám frítekjumarka, heldur er þvert á móti lagt til að framtíðarstefnan eigi að vera sú að frítekjumörk verði hækkuð umtalsvert. Markmiðið á að vera að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu, hvetja til sparnaðar og aukinnar atvinnuþátttöku lífeyrisþega. Þeim markmiðum sé best náð með því að draga úr skerðingum.

Stefnumörkunin felist öðru fremur í því að beita frítekjumörkum til að ná þessum markmiðum. Það blasir við að frítekjumarksleiðin er til þess fallin að bæta virkni almannatryggingakerfisins og draga úr frávikum og skekkjum á lífeyrisgreiðslum. Frítekjumark á atvinnutekjur á augljóslega að vera hátt, það hvetur eldri borgara og öryrkja til meiri atvinnuþátttöku og skilar sér í auknum skatttekjum til ríkis og sveitarfélaga.

Íslenska lífeyriskerfið byggist á þremur megin stoðum. Í fyrsta lagi almannatryggingum, í öðru lagi eftirlaunum frá lífeyrissjóðum og í þriðja lagi greiðslum úr séreignarsparnaði. Sú tilhneiging hefur því miður skotið upp kollinum að grunnstoðin séu lífeyrissjóðirnir en síðan komi almannatryggingar sem viðbót. Þetta er alrangt og stenst enga skoðun, þegar betur er að gáð.

Lífeyrissjóðirnir voru settir á stofn og hugsaðir sem viðbót við greiðslur frá almannatryggingum. Sjóðirnir eru sem sagt önnur stoð lífeyriskerfisins, en fyrsta stoðin eru almannatryggingar. Í þessu sambandi er full ástæða að halda því til haga að almenna lífeyriskerfið er ekki orðið að fullu virkt, þar gildir annað en er í opinberu sjóðunum. Það er ekki fyrr en upp úr árinu 2020 sem launamenn á almenna markiðnum hafa öðlast full réttindi.

Það kerfi sem íslenskir stjórnmálamenn hafa búið launamönnum á almennum markaði með endurteknum inngripum í bótakerfið kerfið hefur skapað fátæktargildrur fyrir það fólk sem stendur verst. Ef það vogar sér að gera tilraun til þess að sýna sjálfsbjargarviðleitni er því hengt umsvifalaust hengt 100% jaðarskatti.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni