Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Siðaskiptin á Íslandi

Siðaskiptin á Íslandi

Fljótlega eftir að uppgröftur á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal hófst vorið 2002 varð ljóst að hlutverk klaustranna í íslensku miðaldasamfélagi var mun víðtækara en menn höfðu gert sér grein fyrir. Hugmyndum flestra um starfsemi íslensku klaustranna sem voru staðsett á 9 stöðum á fjölmennustu leiðum hér á land var kollvarpað í uppgreftrinum.

Því hefur lengi verið haldið fram í sögukennslu hér á landi að iðja munkanna og nunnanna hafi alfarið falist í bænahaldi og kennslu ásamt því að stór hluti starfseminnar hafi snúist um skriftir og bókagerð. Rannsóknirnar sýndu hins vegar fram á að klaustrin hér á landi voru samfélagslegar stofnanir þar sem hæst bar heilsugæsla, líkn sjúkra, aldraðra og fátækra. Auk þess fór þar fram menntun barna og menningarstarfsemi af ýmsu tagi og iðkun kaþólskrar trúar.

Reglubræður urðu að vinna fyrri hluta dags og leti var með öllu forboðin en þeir áttu að sinna kristilegu starfi, kennslu og lestri helgisagna seinni hluta dags. Eignaumsýsla gerði klaustrunum kleift að taka vel á móti öllum sem báðu griða í klaustrinu og veita þeim húsaskjól og mat. Engum mátti neita um hjálp og sinna átti andlegri velferð allra. Matur þurfti því að vera nægur og hús vel búin.

Gestrisni, auðmýkt, líkn og kurteisi var sá boðskapur sem bera skyldi út til almennings. og starfsemi íslensku klaustranna var gríðarlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag á miðöldum.

Siðaskiptamenn höfðu hugsjón sem gekk í megindráttum út á að siðbæta kirkjuna, það er færa guðfræði hennar og helgisiði til upprunalegra horfs, meðal annars með því að hverfa aftur til biblíulegri kenningar og helgisiða. Siðaskiptahreyfingin leiddi til uppreisna bænda og borgara víða í Evrópu gegn kirkjuvaldinu. Lúther fordæmdi þessar uppreisnir og vildi halda í stétt biskupa.

Siðbótarhreyfingin tengdist róttækum pólitískum hugmyndum um jafnrétti og andstöðu við yfirvaldið. Margir þýskir furstar tóku siðbótarhreyfingunni fagnandi og konungar Danmerkur og Svíþjóðar tóku strax upp mótmælendatrú í ríkjum sínum. Siðaskiptin í Evrópu urðu víða grunnur framfarahugmynda en siðaskiptin á Íslandi einkenndust hins vegar af þjóðernishyggju.

Lækningajurtir voru ræktaðir við klaustrin og meðöl unnin. Starfsemi klaustranna jafnast þannig við heilsugæslustöðvar nú til dags. Eftir siðaskiptin átti að stofna skóla í klaustrunum og nýta klaustureignirnar til að kosta rekstur þeirra. Sú ákvörðun var afturkölluð af hálfu íslensku valdastéttarinnar.

Eftir siðaskiptin varð þannig algjört hrun á þessari samfélagsþjónustu og ekkert kom í stað hennar. Allar heimildir sýna að fólk á flakki og á vergangi fjölgaði. Þjófnaðir stórjukust, aðallega var mat stolið. Íslensku yfirvöldin brugðust við með Stóradómi, refsingar voru hertar og dauðsrefsingar teknar upp, en þær höfðu ekki tíðkast í kaþólskum sið.

Myrkustu aldir íslandsögunnar runnu upp í kjölfar falls klaustranna, Tilraunir konungs til að halda áfram innra starfi klaustranna fór þannig út um þúfur. Kennslan lagðist af sem og hjúkrun og umönnun þeirra sem minnst máttu sín.      

Hér á landi var bændasamfélag án nokkurs þéttbýlis og milli- og menntamannastétta en í slíku félagslegu andrúmslofti breiddust guðfræðilegar nýjungar einkum út. Af þessum sökum var ekki grundvöllur fyrir siðaskiptahreyfingu hér, enda munu fáir hafa aðhyllst lútherska guðfræði á þessum tímum að undanskildum fáeinum ungum mönnum sem numið höfðu erlendis og voru þar af leiðandi meira að minna tengdir biskupsstólunum.

Siðaskiptin voru því framkvæmd að utan og síðan að ofan af íslensku valdastéttinni og voru þannig fremur pólitísk ákvörðun en trúarleg eða guðfræðileg hreyfing öfugt við þar sem gerðist víða erlendis. Það átti eftir að hafa hörmulegar afleiðingar næstu aldir fyrir þá sem minnst máttu sín í íslensku samfélagi.

Þráin eftir frelsi

Hið rígbundna skipulag íslenska bændasamfélagsins allt frá landnámi til loka nítjándu aldarinnar varð til þess að hér á landi varð eftir siðaskiptin nánast engin fólksfjölgun og stöðnun í samfélagslegri þróun. Þessi harða afstaða kom í veg fyrir að hér á landi mynduðust þéttbýliskjarnar með sama hætti og annarsstaðar í Evrópu.

Á þessum tímum einkenndist saga Íslands ekki af baráttu milli góðra Íslendinga og vondra erlendra manna, eins og gjarnan hefur verið haldið fram og m.a. áberandi í kennslubókum Jónasar frá Hriflu, sem kenndar voru í öllum skólum landsins fram eftir síðustu öld. Kúgun Dana á íslensku þjóðinni er þar mjög orðum aukin.

Almenningur á Íslandi var síður en svo verr leikin af yfirvöldum stjórnvaldsins í Kaupmannahöfn en alþýðufólk í Danmörku. Hér á landi var gríðarlega mikil stéttarskipting og það var yfirstétt Íslendinga sem kúgaði íslenska alþýðu. Á nítjándu öld eru danskir ráðamenn boðberar nýrra hugmynda og frjálslyndari viðhorfa til frelsis einstaklingsins. Þetta blasir við þegar litið er yfir þróun hins danska samfélags.

Danir voru í því hlutverki að þröngva lýðfrelsi upp á Íslendinga, oft við hávær mótmæli ráðandi afla hér á landi. Prentfrelsi, trúfrelsi og ýmis boð um meira frjálsræði almennings kom hingað óbeðin frá Dönum. Íslensk valdastétt barðist hatramlega gegn auknu sjálfræði alþýðufólks undir því yfirskini, að það myndi hafa í för með sér vaxandi lausung almennings hér á landi.

Danir voru ekki með her á landi og hengdu ekki þá sem voru fyrir þeim, eins og t.d. Englendingar gerðu í sínum nýlendum. Dönsk stjórnvöld stóðu hins vegar í bréfaskiptum við íslenska baráttumenn jafnvel áratugum saman. Leikreglurnar í íslensku samfélagi báru þess glögg merki að staða bóndans gegn hjúaliðinu er þar fyrst og síðast varin undir þeim formerkjum að kenna þyrfti alþýðunni reglusemi, iðni og hrekja í burtu leti.

Lausamennska og þurrabúð þar sem verkamaðurinn væri sjálfs síns herra myndi einungis leiða til þess að hann temdi sér svall, eyðslusemi og leti og lenti síðan á sveitinni með auknum álögum á bændur. Á þessum vettvangi var einnig barist gegn því að fátækt fólk gæti gift sig án afskipta bænda og valið sér starf og búsetu að eigin geðþótta.

Barátta verkafólks

Það er fyrst í lok nítjándu aldarinnar, eftir að íslenska iðnbyltingin nær sér á strik, eða um 60 árum á eftir því sem gerðist í nágrannalöndum okkar sem það skapast staða hjá verkafólki til þess að brjóta af sér viðjar vistarbandsins, ófrelsisákvæðisins, og ná fram auknu frelsi.

Í píningsdómi, sem settur er árið 1490, er kveðið á um vistaskyldu fyrir alla einstaklinga sem ekki eiga þriðja hundraða eign. Öll réttindi lausamanna voru afnumin árið 1783 og hótað gapastokki, hýðingu og tukthúsi ef út af var brugðið. Líkamsrefsingar gagnvart vinnuhjúum voru leyfðar með lögum. Ferðafrelsi var einnig skert með lögum.

Fólk sem komst á vonarvöl þurfti að segja sig til sveitar, eitt af meginviðfangsefnum sveitarstjórna var að sjá um framfærslu ómaga með því að leggja gjöld á þá sem betur máttu sín. Helsta keppikefli sveitarstjórnarmanna varð því að haga málum með þeim hætti að ómögum fjölgaði ekki.

Þeim til halds og gagns í þeirri baráttu var að finna í konunglegri tilskipun frá árinu 1824, þar sem öllum þeim var bannað að giftast og stofna bú fyrr en konur voru sannarlega komnar úr barneign og höfðu eytt mest öllu starfsþreki sínu í þjónustu bænda. Hert er á þessum ákvæðum árið 1834 og skyldi lögunum beitt án vægðar, en þeir hreppstjórar sem linir væru í sókninni, skyldu settir af og sæta sektum, ef um endurtekið brot væri að ræða.

Um miðja 19. öld eru komnar fram hugmyndir um að setja þurfi ný allsherjarlög og hjúamálin, og var það fyrirferðarmikið umræðuefni á Alþingi í heilan áratug 1855-65. Bannið gegn lausamennsku var numið úr gildi árið 1863 og allir sem náð höfðu 25 ára aldri gátu fengið leyfisbréf hjá lögreglustjóra, það kostaði reyndar eitt hundrað á landsvísu; konur greiddu helmingi minna gjald. Þessi upphæð samsvaraði um árslaunum verkafólks. Hins vegar hlutu þeir ókeypis leyfisbréf er höfðu verið í vinnumennsku í 20 ár.

Um lausamennskuna var síðan gerður sérstakur lagabálkur, sem hlaut afgreiðslu Alþingis árið 1863. Dönsk stjórnsýsla sendi til Íslands á 19. öld konunglegar tilskipanir og fyrirmæli í lagaformi um ýmislegt sem snerti um lagfæringar á aðbúnað verkafólks, en íslenskir bændur börðust gegn þessum umbótum af fullri hörku. Fyrsta skrefið var konungleg tilskipun um hjúalög árið 1866. Í þeim voru lögfest ýmis ákvæði til öryggis og verndar vinnuhjúum.

Þessi lög voru loks samþykkt 23. maí 1886 eftir 12 ára þjark og þras bænda á Alþingi, sem töldu að hér væri vegið harkalega að þeirra tilvist. Á þessum tíma eykst flutningur verkafólks í þéttbýlið sem er skapast við sjávarströndina og þar með grundvöllur fyrir stofnun verkalýðsfélaga.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni