Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Ríkiskapitalismi auðstéttarinnar

Ríkiskapitalismi auðstéttarinnar

Það slær mann hversu ofsafengin viðbrögð leiðandi stjórnmálaflokka verða þegar þess er krafist að farið verði að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 82% kjósenda vildu að náttúruauðlindir sem eru ekki í einkaeigu yrðu lýstar sem þjóðareign. Viðbrögð stjórnmálamanna og tiltekinna fjölmiðla segja manni að þar býr eitthvað að baki. Eitthvað sem þolir ekki dagsljósið. Og svo var tjöldunum svipt frá og niðurstaða ítarlegrar alþjóðlegrar könnunnar birtar. Viðbrögð voru venjubundin, ráðist var að fréttamönnunum og uppljóstraranum og þar fengum við endanlega staðfestingu á gjörspilltu hátterni hvað varðar auðlindarentuna.

Þeir sem hafa gengið hvað lengst frá í því að berjast gegn vilja þjóðarinnar hvað varðar ákvæði um auðlindir þjóðarinnar hafa ákaft haldið að okkur að hin íslenska þjóð vilji vera frjáls þjóð. Sósíalisminn væri fullreyndur og Ísland ætti að berjast fyrir frjálsum mörkuðum. Á þessum grunni komum við á aflamarkaðskerfi sem hefur á s.l. tveimur áratugum skilað tilætluðum árangri hvað varðar sjálfbæra nýtingu fiskistofna og stóraukna arðsemi sjávarútvegsins.

Þessi árangur hefur náðst fyrir með því að takmarka sókn og úthluta veiðiheimildum. Þrátt fyrir yfirlýsingar við setningu kvótakerfisins að veiðiheimildir yrðu ávallt í höndum þjóðarinnar var vikið frá þeirri stefnu og séð til þess að veiðiheimildir lentu í höndum örfárra með þeim augljósu afleiðingum að auðlindarentan hefur runnið til þessa hóps kvótaeigenda. Við þetta hefur myndast ný stétt ofurríkra sem þiggur auð sinn í skjóli pólitísks valds. Hvert byggðarlagið á fætur öðru hefur misst veiðiheimildir og atvinnutækifærin hafa verið flutt í burtu. Eftir situr atvinnulaust fólk í verðlausum húsum.

„Hvað eigið þið eiginlega við með frjálsum mörkuðum?“

Stjórnmálamenn hafa komið málum þannig fyrir að hinn almenni borgari hefur ekki aðgang að þessum mörkuðum. Hann hefur enga möguleika á því að hafa áhrif á verðlag aflans. Þrátt fyrir að sjómenn og starfsfólk í fiskvinnslunni séu tryggðir frjálsir kjarasamningar, skiptir það í raun engu þar sem allar ákvarðanir um opinbert verðlag aflans eru teknar í bakherberjum af fámennum hópi sem hefur komið málum þannig fyrir að stór hluti arðsins af auðlindum okkar rennur milliliðalaust inn á lokaða reikninga í skattaskjólum.

Á sama tíma og íslensk fyrirtæki hafa verið með yfirlýsingar um að breytingar á kvótakerfinu myndu valda fjöldagjaldþroti, kaupa þau veiðiheimildir erlendis á ríflega tvöföldu verði miðað við það sem þau skila til íslensks samfélags og verja auk þess gríðarlegum fjármunum til þess að múta embættismönnum. Nú blasir það við svart á hvítu hversu háar upphæðir það eru sem ekki er skilað til íslensks samfélags. Afleiðingarnar blasa við, skert þjónusta og samfélag okkar hefur dregist umtalsvert aftur úr hinum norrænu samfélögunum.

„Hvers konar frelsi hefur stjórnvaldið búið okkur?“

Það er linnulaust er logið að okkur með gengdarlausum áróðri í fjölmiðlum að málið snúist um eitthvað val á milli frjáls markaðshagkerfis eða sótsvarts kommúnisma. En við okkur blasir ótakmarkað frelsi örfárra til þess að nýta auðlindir þjóðarinnar. Þetta frelsi er tryggt með vörðum einkarétti sem er geirnegldur með ríkisofbeldi. Í skjóli þess hafa örfáir komið málum þannig fyrir að aðrir njóta ekki sömu réttinda.

Sú tillaga að auðlindaákvæði sem formannanefnd stjórnmálaflokka á Alþingis hefur lagt fram í samráðsgátt gengur út á að tryggja einkahagsmuni á kostnað almennings Þær eru víðsfjarri tillögum stjórnlaganefndar Alþingis sem og Stjórnlagaráðs, sem 82% hafa samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ákvæði um sameiginlega og ævarandi eign þjóðarinnar eru farin. Sama á við um ákvæðu „gegn fullu gjaldi og „slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli“.

Stöndum á þeim rétti að samkvæmt íslenskum lögum eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar.

Gleymum því aldrei að samkvæmt íslenskum veruleika rennur fjárhagslegi arðurinn af nytjastofnum á Íslandsmiðum í vasa örfárra útvalinna einstaklinga. Í krafti arðsins færa svo þessir einstaklingar út kvíar sínar til landa á borð við Namibíu.

Gleymum því ekki að við látum þetta viðgangast með sinnuleysi okkar dag eftir dag. Ár eftir ár.

(Myndin er af kaffistofu við Kárahnjúkavirkjun)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni