Listi yfir 100 fátækustu íslendingana
Í blöðunum sem flæða inn um póstlúguna eru áberandi upplýsingar um hvernig ríka fólkinu líður og myndir af því sem sýna hversu flott sundföt það á og hvernig það situr upp á húddinu á Ferrarinum eða Range Rovernum. Textinn með myndunum fjallar um samanburð á því hvort viðkomandi hafi færst upp eða niður í röðinni.
Ég verð að segja eins og er mér finnst einhvern veginn engin ástæða til þess að segja okkur þessar fréttir og mér er slétt sama hvernig bíl þetta fólk á og hvernig baðfötum það klæðist. Ég meina það, eins og unglingarnir segja, við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu liði, það hefur það bara aldeilis ágætt og vill örugglega fá að vera í friði.
Það væri mikið meira fréttaefni að fá að sjá hvernig listinn yfir hina 100 fátækustu liti út. Það væri mikill fróðleikur fólgin í því að fá sundurgreiningu á því af hverju lenti viðkomandi á þessum lista. Hvernig gengur honum að vinna sig út af listanum, er hann að hækka eða lækka frá síðasta lista? Á hann Lada sport eða kannski bara strætókort, eða bara gamalt Möve hjól. Skyldi hann fara á kaffihús og svo í sund á eftir?
Er þetta ung fjölskylda með börn, sem keypti íbúð og reiknaði með að barnabætur og vaxtabætur myndu ekki lækka eða jafnvel hverfa? Er þetta einstaklingur sem lenti í því að verða fyrir vinnuslysi og lenti í fátækragildrunni sem stjórnmálamenn hafa búið til. Er þetta einstaklingur sem lenti í því óláni að verða aldraður eða bara öryrki? Hvernig hefur bæjarfélagið tekið á vandamálum hans? Eru Bjarni og Sigmundur Davíð að láta starfsfólk sitt að skoða ástæður þess að viðkomandi lenti á þessum lista? Er ríkisstjórnin með áætlun um hvað hún ætli að gera í málinu?
Og maður spyr hvers vegna er sama fólk á listanum og í fyrra. Þá lofaði nefnilega ríkistjórnina að redda þessu og samþykkja kröfur um sérstaka hækkun lægstu launa og afnema skerðingarnar í bótakerfinu. Og byggja líka 3.000 íbúðir fyrir öryrkja og aldrað fólk. Þetta væri mun verðugra verkefni fyrir blaðamennina að skoða og þá væri ég tilbúinn að lesa blöðin spjaldanna á milli. En núna fletti ég þeim bara á 5 mínútum og set þau svo í ruslagáminn og kveiki á tölvunni og skoða netheimana.
Athugasemdir