Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Hinn séríslenski kraftur. Lausnin á efnahagsvandanum?

Hinn séríslenski kraftur. Lausnin á efnahagsvandanum?

Þegar maður hlustar á umræðuna eins og hún gengur þessa dagana rifjaðist upp kröftug umræða sem fór fram á snaggaralegum sambandsstjórnarfundi Rafiðnaðarsambandsins í apríl 2008.

Á árinu 2006 og 2007 fór að bera á dökkum skýjabökkum á himni efnahagslegrar stefnu ríkisstjórna Geir H. Haarde. Ráðherrar nágrannalanda okkar höfðu samband við ríkisstjórnina og Seðlabankann með ábendingum um að Ísland yrði að breyta um stefnu í efnahagsmálum. Nokkur erlend greiningarfyrirtæki bentu árið 2007 á að íslenskt efnahagskerfi stefndi í verulegan vanda og þau ásamt aðilum vinnumarkaðsins höfðu samband við íslensk stjórnvöld og lýstu áhyggjum yfir stöðunni.

Geir H. Haarde forsætisráðherra svaraði þessu með því að skipa í nóvember 2007 nefnd um hvernig mætti nota þjóðareinkenni íslenskrar þjóðar til að byggja upp jákvætt alþjóðlegt orðspor, einkum í þágu viðskiptaútrásarinnar. Forsætisráðuneytið gaf síðan út í mars 2008 skýrslu með tillögum um hvernig mætti nefndarinnar Skýrsluhöfundar bentu á hinn séríslenska kraft sem byggi í þjóðinni og hefði lagt grunn að kröftugu viðskiptalífi.

Það væri hinn náttúrulegi kraftur sem greindi íslensku þjóðina frá öðrum þjóðum og hefði skilað henni í hóp samkeppnishæfustu landa heimsins.  Náttúrulegur kraftur væri aflið sem þjóðin nýtti til að tryggja hagsæld og byggja frjálst og friðsamt samfélag til framtíðar. Íslendingar væru duglegir, áræðnir og úrræðagóðir. Þeir væri frjálsleg náttúrubörn og sterkur sjálfstæðisvilji einkenndi íslensku þjóðina.

Þessi náttúrulegi frumkraftur þjóðarinnar ætti rætur í landnámsmönnunum, sem sóttu til Íslands í leit að frelsi, og hann hélst við í baráttu landsmanna við óblíð náttúrubörnin. Hinn náttúrulegi kraftur nyti sín þó ekki nema þjóðin væri frjáls undan erlendum yfirráðum, því það var ekki fyrr en hún leystist endanlega úr fjötrum Gamla sáttmála sem hún  varð ein ríkasta þjóð veraldar.

Ísland væri land sem bjóði mestu lífsgæði sem þekktust. Hin fersku einkenni íslenskrar menningar með hinum einstaka hljóm nýsköpunar í tónlist og sjónlistum, sem kallist á við hrynjanda rímna og Íslendingasafna. Ísland standi fremst þjóða á þessu sviði. Mikilvægasti menningararfurinn væri hin lifandi íslenska tunga.

Niðurstaða ímyndarsköpunnar varð sú að óbeisluð náttúruöflin eigi sér hliðstæðu í agaleysi og oft á tíðum djarfri og óútreiknanlegri hegðun Íslendingar. En þessa eiginleika beri ekki að hræðast, því þeir hafa gegnt veigamiklu hlutverki í lífsbaráttu þjóðarinnar. Þeim ber að fanga og þá ber að nýta. Bjartur í Sumarhúsum búi í hverjum manni á Íslandi. Ísland se land sem bjóði mestu lífsgæði sem þekkist.

Minna mátti það nú ekki vera. Þjóðarrembingur og einangrunarstefna var einkenni málflutnings þáverandi stjórnarliða í tilraunum þeirra til þess að beina athygli almennings frá því hvert stefndi.

Ímyndarskýrsla Geirs H. Haarde endurspeglaði þá ímynd sem þáverandi leiðtogar landsins vildu að íslenskir kjósendur og erlendar þjóðir hefðu um Ísland. Ritskoðuð útgáfa um glansmynd. En það er ekki langur vegur milli oflofs og háðs. Grunnhygginnar sjálfumgleði reistri á efnishyggju.

Sambandsstjórnarfundur RSÍ var haldinn mánuði eftir útgáfu skýrslunnar. Þar voru flutt erindi um stöðuna á vinnumarkaðinum og hvert stefndi. Þar kom fram harkaleg gagnrýni á hina skammsýnu efnahagsstjórn sem viðhöfð hefði verið. Stjórnmálamenn hefðu ekkert gert með aðvaranir um hvert stefndi, en í stað þess hefðu þeir athugasemdalaust gleypt boðskap fjármálamannanna.

Efnahagsstjórn hefði verið reist á athafna- og afskiptaleysi í skjóli mikillar þenslu og aukinnar skuldsetningar. Það væri ekki bjart framundan, eftir góða veislu yrðu menn að takast á við timburmennina. Neikvæð þróun væri á mörkuðum og í stað mikils hagvaxtar mætti búast við samdrætti á öllum sviðum. Einkaneysla myndi dragast saman sem myndi leiða til aukins atvinnuleysis og aukna verðbólgu.

Hagdeild ASÍ spáði því að atvinnuleysi myndi aukast á árinu. Fleiri þúsund íslensk heimilli og fyrirtæki römbuðu á barmi gjaldþrots vegna hárra vaxta. Verðbólgan væri tvöfalt hærri en viðunandi væri og stefndi í að verða fjórfalt hærri. Ríkisstjórnin notaði byggingar- og verktakaiðnaðinn sem kælitæki fyrir efnahagslífið og spilaði þannig af fullkomnu tillitsleysi með efnahag 20 þúsund heimila.

Atvinnuleysi á almennum markaði stefndi í að fara yfir 10% á næstu misserum og byggingariðnaður nánast stöðvist. Stjórnvöld kæmust ekki hjá því að taka höndum saman við atvinnulífið í að vinna að langtímalausnum á efnahagsvandanum. Nútíma íslenskt atvinnulíf gæti ekki starfað við þær aðstæður sem því væru búnar af stjórnvöldum.

En forsvarsmenn stjórnarflokkanna virtust vera staðfastir í þeirri trú að ríkisstjórnin hefði ekkert hlutverk í hagstjórninni. Ráðherrar virtust telja að bjart væri framundan, en þó ský drægi fyrir sólu augnablik en eftir góða veislu yrðu menn að horfast í augu við stutta timburmenn.  

Við þekkjum öll hvað gerðist 6 mánuðum síðar. 

"It´s probably was not responsible of us to have allowed the banks to grow this big. Maybe we should have done something sooner." Geir H. Haarde said regretfully in "Hard talk" BBC 12. feb. 2009.     

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni