Hin sérhannaða íslenska fátæktargildra
Ráðherrar ásamt talsmönnum ríkisstjórnarinnar hafa haldið því að okkur að kjör eldri borgara og öryrkja séu nú bara aldeilis prýðileg. Þessu er haldið fram þrátt fyrir að fyrir liggi niðurstöður starfsnefnda Alþingis um að bótakerfið virki ekki. Hér á ég við svokallaða Árnanefnd og síðar Pétursnefnd (Blöndal). Þessar nefndir hafa skilaði ítarlegum og vel unnum tillögum sem liggja í skúffum fjármálaráðherra. Nefndirnar hafa verið skipaðar fólki úr öllum flokkum auk fulltrúa frá samtökum eldri borgara og öryrkja ásamt fulltrúum frá samtökum launamanna og fyrirtækja í atvinnulífinu.
Vinna þessara nefnda hefur miðast við að einfalda bótakerfið, gera það skilvirkara og bæta stöðu bótaþega með því að lagfæra hin margslungnu skerðingarmörk, sem fáir skilja og hafa flest nú orðið verulegar skerðingar í för með sér til þeirra sem síst skildi. En það hefur lítið verið gert með niðurstöður nefndanna.
Í síðustu kosningabaráttu voru þessi atriði áberandi hjá báðum stjórnaflokkunum. Þar vísa ég m.a. til bréfs sem núverandi fjármálaráðherra sendi kjósendum sem formaður Sjálfstæðisflokksins 22. apríl 2013. Í bréfinu koma fram atriði sem báðir stjórnaflokkarnir hafa sagt. „Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Stöðugleiki, velferð og öryggi skipta alla aldurhópa máli. Til að tryggja öryggi og velferð þarf samfélag okkar að búa efnahagslegan vöxt og stöðugleika, Sjálfstæðisflokknum má treysta þess að efla vöxt svo hér megi tryggja velferð.“
Öll viljum við lifa innihaldsríku lífi. Er það hægt hér á landi? Bætur frá Tryggingastofnun ríkisins með öllum hugsanlegum uppbótum geta náð um 250 þús. kr. á mánuði. Af þessari fjárhæð fara 30.000 krónur í skatt. Þá eru eftir um 220 þús. kr. Síðan fer eftir að greiða húsnæðiskostnað, hita og rafmagn, síma og sjónvarp, uppihald, læknakostnað og margskonar nauðsynlega þjónustu. Já og svo þann munað að eiga og reka bíl.
Ef viðkomandi vogar sér að afla sér einhverra smávægilegra tekna eða nýta ævisparnað sinn þá fer í gang hin vel smurða fátæktargildra stjórnmálamannanna, en þeir hafa markvist aukið tekjutengingar í bótakerfinu og lækkað frítekjumörkin með allskonar bútasaum eins og framangreindar nefndir hafa skilmerkilega bent á í skýrslum sínum.
Fátæktargildran virkar þannig að fyrstu 70 þús. kr. sem viðkomandi aflar, sama hvaða nafni þær tekjur nefnast, renna krónu fyrir krónu þráðbeint í ríkissjóð. Með öðrum orðum stjórnmálamenn hafa komið því þannig fyrir að það er lagður 100% jaðarskattur á þá sem voga sér að sina einhverja sjálfsbjargarviðleitni.
Það er þessi 100% jaðarskattur sem núverandi ríkistjórn lofaði að afnema í síðustu kosningabaráttu, eins kemur fram í bréfinu sem vísað er til. Já hér er sannarlega um ræða réttlætismál og reyndar gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir rekstur ríkissjóðs á komandi árum þegar fjöldi bótaþega tvöfaldast.
Það er að auki sérstök ástæða að benda stjórnmálamönnum á hver raunframtíðarbyrði af almannatryggingum verði á næsta áratug njóti hagkerfið ekki uppsöfnunarsjóðanna. Styrkleiki uppsöfnunarlífeyriskerfisins mun koma fram þegar einstaklingar munu eiga full réttindi í lífeyrissjóðum. Það er upp úr 2020 sem tekjuskattsstofninn vegna þessa mun vaxa mjög hratt og skapa þar af leiðandi hratt vaxandi tekjur hjá ríki og sveitarfélögum.
Þetta er atriði sem stjórnmálamenn virðast ekki gera sér grein fyrir. Vandi lífeyris- og örorkubótaþega og þar með ríkissjóðs er mestur næstu 10-12 ár, en til lengdar mun lífeyriskerfið styrkja bæði stöðu ríkisfjármála og samkeppnisstöðu atvinnulífsins.
Það er grundvallaratriði að verkaskipting milli almannatrygginga og lífeyrissjóða sé skýr. Það sé tryggt að launafólk hafi áþreifanlega betri hag af því á efri árum að hafa greitt iðgjöld til samtryggingarsjóða á starfsævinni.
Sveigjanleiki í starfslokum er mikilvægur og það þarf að auka hann og viðhalda raunhæfum möguleika launafólks til að velja sér séreignarsparnað sem tryggir raunverulegt val um fyrirkomulag starfsloka.
Í lokin má minna á ráðandi stjórnmálamenn á að að eru launamenn sem sitja eftir í hinu íslenska skattkerfi með sínum innbyggðu fátæktargildrum, á meðan auðmenn flytja sína peninga úr krónukerfinu til annarra landa og verða þannig ekki þátttakendur í rekstri þjóðfélagsins, einungis neytendur.
Persónuafsláttur hefur ekki hækkað í samræmi við verðbólgu, vaxtabætur minnkað, barnabætur lækkað, skerðingarmörk öryrkja og aldraðra aukist. Það eru ákvarðanir stjórnvalda sem hafa mest áhrif á kaupmátt og ekki síst hjá þeim lægstlaunuðu.
Nær öll vestræn ríki hafa aukið jöfnunaráhrif skatt- og velferðarkerfa sinna á meðan við höfum stefnt í öfuga átt hér. Er það sæmandi auðugri íslenskri þjóð, að bjóða sínum viðkvæmustu þegnum uppá þessi kjör?
Athugasemdir