Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Frídagur verslunarmanna - almennur frídagur

Frídagur verslunarmanna - almennur frídagur

Sumarið 1874 var í fyrsta sinn haldin þjóðhátíð á Íslandi. Það var í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar og heimsóknar Kristjáns konungs níunda sem þá færði Íslendingum „stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“. Hátíðahöldin voru á ýmsum dögum víða um land en aðalhátíðin var í Reykjavík 2. ágúst og á Þingvöllum 7. ágúst. Þjóðhátíðin 1874 heppnaðist einkar vel. Menn þyrptust þúsundum saman á Þingvelli, og var sú hátíð ein og sér einhver fjölmennasta samkoma sem nokkru sinni hafði verið haldin á Íslandi.

 Fyrstu merki innan verkalýðshreyfingarinnar um orlof verkafólks hér á landi má telja að sé að finna í samþykkt á félagsfundi í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur þ. 9. sept. 1894. Þar er samþykkt að efna til skemmtisamkomu þar sem „kaupmenn og verslunarstjórar allra hinna stærri verslana í Reykjavík gæfu þjónum sínum frídag í næstu viku, til þess að þeir gætu skemmt sér á einn eða annan hátt.“

Fyrsti frídagur verslunarmanna var síðan haldinn fimmtudaginn 13. sept. 1894 og var nefndur skemmtidagur verslunarmanna í Reykjavík. Dagskráin hófst með því að safnast var saman á Lækjartorgi kl. 10:45 og gengið þaðan með fánum, söng og í broddi fylkingar fóru hljóðfæraleikarar þar sem haldið var austur á bóginn út holtin og staðnæmst á Ártúni um kl. 12 á hádegi. Þar fór skemmtunin fram með söng, íþróttum, dansi og ræðuhöldum. W.Christensen, kaupmaður sem lýsti tilgangi hátíðahaldanna, sagði: „að þetta væri byrjun almennrar skemmtisamkomu verzlunarstéttarinnar og vonaði að það mætti haldast við ár frá ári.“

Ári síðar eða þ. 14. ágúst 1895 er fyrsti frídagur verslunarmanna haldinn hátíðlega. Árið 1897 hvatti Stúdentafélagið í Reykjavík öll félög í bænum til að gangast saman fyrir hátíðahaldi 2. ágúst um sumarið. Hátíðin var haldin á Rauðarártúni en bærinn Rauðará stóð nokkurn veginn þar sem nú er Frímúrarahúsið við Borgartún. Verslunarmannafélagið tók þátt í hátíðinni eins og flest önnur félög.

Flest ár eftir þetta og fram til 1909 var þjóðhátíð Reykvíkinga haldin 2. ágúst með svipuðum hætti á Landakotstúni. Árið 1902 drógu verslunarmenn sig út úr þjóðhátíðarnefndinni. Ástæðan var einkum sú að bindindismenn höfðu komist þar í meirihluta og ákveðið að engar vínveitingar skyldu leyfðar á hátíðinni. Í staðinn fóru verslunarmenn í skemmtiferð 17. ágúst með gufubátnum Reykjavík inn að Þyrli í Hvalfirði þar sem dvalist var mestan hluta dags við dans og leiki.

Fyrst eftir þetta héldu verslunarmenn sumarskemmtanir í nágrenni Reykjavíkur. Árið 1908 komu þeir til dæmis saman 19. ágúst í Kópavogi, en 1918 í Vatnaskógi við Hvalfjörð 2. ágúst. Þá höfðu þeir aftur tekið upp ferðalög og gamla hátíðisdaginn sem var að mestu úr sögunni hjá öðrum.

Veturinn 1933-1934 var ákveðið að frídagur verslunarmanna skyldi vera fyrsti mánudagur í ágúst og hefur svo verið síðan. Árið 1935 tók Verslunarmannafélag Reykjavíkur að halda útisamkomu sína á Þingvöllum og stóð sú tilhögun fram að síðari heimsstyrjöld. Eftir síðari heimsstyrjöld varð frídagur verslunarmanna smám saman almennur frídagur, notaður til ferðalaga og skemmtanahalds, og á sjöunda áratugnum var tekið að efna til skipulagðra útihátíða víða um land.

Verslunarmenn sömdu um að þeim bæri laun á frídegi sínum í ágúst, í samning 1. október 1965, en urðu að fara með það fyrir kjaradóm, Hann dæmdi í málinu 6. febrúar 1964 um að samningsákvæðið gilti frá undirritunardegi samningsins, verslunarmenn sömdu síðar um að stórhátíðarálag skyldi gilda um frídag þeirra. Það er síðan að með lögum nr. 94/1982 að kveðið er á um að frá og með árinu 1983 skuli fyrsti mánudagur í ágúst skuli vera almennur frídagur og eftir það bar vinnuveitendum að greiða starfsmönnum laun fyrir þann dag samkvæmt sömu reglu og í gildandi kjarasamningum um aðra almenna frídaga.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni