Félagslega húsnæðiskerfið lagt af
Í tengslum við þau átök sem nú standa yfir um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins er eiginlega nauðsynlegt að rifja upp hvernig staðið var að því að slátra verkamannabústaðakerfinu. Það er búið að svelta heilbrigðiskerfið undanfarin ár í þeim tilgangi einum að einkavæða það eins og umræðan í kringum Klinikina er dæmi um. Þetta er nákvæmlega sama aðferðafræði og ríkistjórnir Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar notuðu við að eyðileggja félagslega íbúðarkerfið. Það var viljandi svelt og síðan tóku hinir sömu sig til og sögðu kerfið væri svo skuldsett að það yrði að leggja það af.
Upphaf félagslega húsnæðiskerfisins má rekja til þess þegar Alþingi samþykkti árið 1929 lög Héðins Valdimarssonar (1898-1942) þingmanns, varaforseta ASÍ og formanns Dagsbrúnar um verkamannabústaði. Lögin voru forsenda þess að mögulegt varð að reisa verkamannabústaðina við Hringbraut. Næsta stóra skrefið var stigið í júlí 1965 með þegar verkalýðshreyfingin náði fram í kjarasamningum stórfelldum umbótum í húsnæðismálum láglaunafólks með umfangsmikilli uppbyggingu félagslegra íbúða í Breiðholti og jarðýtum beitt á braggahverfin sem voru búinn að vera íslensku samfélagi til háðungar áratugum saman.
Árið 1989 var húsbréfakerfið tekið upp sem fól meðal annars í sér nýtt niðurgreiðslukerfi lána í formi vaxtabóta. Árið eftir voru svokölluð félagsíbúðalög samþykkt á Alþingi og verkamannabústaðakerfinu breytt í kerfi félagslegra eignaríbúða. Þessi lög, ásamt lögum frá árinu 1988 um kaupleiguíbúðir, leiddu til verulegrar uppsveiflu í byggingu félagslegra íbúða í 7 til 8 ár. Lagabreytingarnar höfðu í för með sér að auk félagslegu eignaríbúðanna, féllu nú nýjar gerðir íbúða að ramma félagslega lánakerfisins: kaupleiguíbúðir, búseturéttaríbúðir og leiguíbúðir sveitarfélaga, svo eitthvað sé nefnt.
Óhætt er að fullyrða að Jóhanna Sigurðardóttir, sem varð félagsmálaráðherra 1987, átti stóran þátt í þessum mikilvægu breytingum. Félagslega húsnæðiskerfið óx mest á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Innan þess gat tekjulágt fólk bæði keypt eða leigt húsnæði á verði sem það réði við. Þeir sem keyptu gátu tekið félagsleg lán. Þau voru þannig að vextir á þeim voru lægri, lánstíminn lengri og veitt voru hærri lán sem hlutfall af kostnaði íbúðar. Þetta kerfi gerði það að verkum að lágtekjufólk átti mun auðveldara með að eignast þak yfir höfuðið. Árið 1998 voru félagslegar íbúðir á landinu alls 11.044 talsins.
Ríkisstjórnir Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar tóku við völdum árið 1995 og ráðherrarnir boðuðu í málefnasamningi verulegar breytingar sem fólust í því að minnka umfang félagslega húsnæðiskerfisins og þeir ákváðu að leggja það niður í þremur áföngum. Þetta var gert þrátt fyrir harða andstöðu verkalýðsfélaganna og flestra annarra félagasamtaka sem störfuðu á sviði húsnæðismála.
Páll Pétursson félagsmálaráðherra 1995-2003 lagði fram á Alþingi vorið 1998 frumvarp um húsnæðismál þar sem gert var ráð fyrir að Húsnæðisstofnun yrði lögð niður um næstu áramót og í stað þess yrði stofnaður Íbúðalánasjóður. Ríkisstjórnin gerbreytti félagslega húsnæðiskerfinu og niðurgreiðslur ríkisins fór eftir það í gegnum vaxtabótakerfið.
Páll réttlætti tillögur ríkisstjórnarinnar með því að félagslega húsnæðiskerfið væri í gífurlegum vanda og hann yrði ekki leystur nema með róttækum breytingum. Nýja kerfið yrði einfaldara og mun betra fyrir húskaupendur. Fyrri lánveitingum í félagslegum tilgangi var hætt og öll lánastarfsemi Byggingasjóðs verkamanna var aflögð. Það þýddi að þeir sem voru í félagslega kerfinu voru allt í einu komnir inn í almenna séreignarkerfið. Þeim var gert að taka lán á sömu kjörum og þeir sem höfðu meira á milli handanna og um leið að keppa við aðra um takmarkað magn leiguíbúða.
Þessi pólitíska ákvörðun gerði það að verkum að eftirspurn eftir íbúðum til kaups og leigu á almenna markaðnum jókst margfalt á einni nóttu. Þegar eftirspurnin varð síðan mun meiri en framboðið eftir hrunið, vegna samdráttar í byggingu íbúða árum saman og svo ferðamannasprengju, skapaðist það neyðarástand sem ríkt hefur undanfarin áratug og bitnar fyrst og síðast á fátækustu íbúum þessa lands.
Í þessu sambandi er ekki komist hjá því að minnast á ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á þingi vorið 1998 þegar nýtt húsnæðisfrumvarp ríkisstjórnar Davíðs Oddsonar var samþykkt á Alþingi. Í lok ræðunnar sagði hún „Herra forseti. Með atkvæðagreiðslunni sem hér fer fram er innsigluð ósvífnasta og grimmilegasta atlagan sem við höfum séð um áratuga skeið að kjörum fátæks fólks á Íslandi. Þetta er svartur dagur í sögu félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum fátæks fólks á Íslandi sem 40 verkalýðs- og félagasamtök hafa ítrekað mótmælt. Hér eru verða ákveðin kaflaskil þar sem nú virðist ekki þurfa að tala við verkalýðshreyfinguna um húsnæðismál eins alltaf hefur verið af hálfu þáverandi ríkisstjórna. Það er verið að ganga af kerfinu dauðu og ég vill sjá til þess að það verði ekki jarðsett í kyrrþey.“
Árið 2002 var söluhindrunum létt af félagslegum eignaríbúðum og þar með var kerfið í raun búið að vera. Þá hafði félagslegum íbúðum á Íslandi fækkað um rúmlega helmingi eða 5.065 talsins. Til viðbótar ráku Félagsbústaðir, Búseti, Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag Námsmanna og Öryrkjabandalag Íslands samtals nokkur þúsund íbúðir. Þessar íbúðir eru fjarri því nægjanlega margar og það er pólitísk ákvörðun að þeim hafi ekki fjölgað meira.
Tveimur árum síðar var svokallað viðbótarlánakerfi, sem var sérsniðið að þörfum tekjulágra, lagt niður þegar samþykkt var að 90% lán Íbúðarlánasjóðs stæðu öllum til boða án tillits til tekna umsækjenda. Vaxtabótakerfið ásamt félagslega húsnæðiskerfinu var reglulega rætt á fundum innan verkalýðshreyfingarinnar og ASÍ dró reglulega saman upplýsingar um stöðuna.
Páll Pétursson félagsmálaráðherra var fjarri því að vera kátur með skýrslur starfshópa um húsnæðisvanda láglaunafólks í Reykjavík, m.a. kom fram árið 2003 biðlistar hefðu lengst eftir að félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður. „Það er fjarstæða að halda að leiguíbúðaskorturinn sé vegna þess að Íbúðalánasjóðurinn var settur á fót og breytt um húsnæðiskerfi,“ sagði Páll um þessi mál og hélt áfram : „Skorturinn kemur fyrst og fremst af því að það eru miklir fólksflutningar utan af landi og þar sem fólk getur ekki losnað við eignir sínar þar leitar það á leigumarkað hér. Í öðru lagi eru hjónaskilnaðir orðnir þannig að fjölskylda sem komst af með eina íbúð þarf allt í einu á tveimur að halda“
Þessu var mótmælt af verkalýðsfélögunum og bent á að þessar fullyrðingar félagsmálaráðherra stæðust enga skoðun. Ráðherrann gerði sig ómarktækan með svona yfirlýsingum.
Í gögnum frá Hagstofu um búferlaflutninga milli landsbyggðar og Reykjavíkur kemur fram að á árunum 1995-1997 voru aðfluttir umfram brottflutta 1156 einstaklingar. Frá árinu 1998 þegar félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður og fram til ársins 2002 að báðum árum meðtöldum voru aðfluttir umfram brottflutta til Reykjavíkur 652 einstaklingar eða helmingi minna en árin 1995-1997 þegar félagslega húsnæðiskerfið var í gildi.
Tölur frá Hagstofu sýndu að lögskilnaðir frá 1998-2001, þegar félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður, hefðu verið að meðaltali þessi ár 513 á ári, en ef tekið væri meðaltal áranna 1991-2001 er meðaltal lögskilnaða á ári 515.
Í Rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram það álit sérfræðings hjá Seðlabankanum að þessi lagabreyting hafi verið með verstu hagstjórnarmistökum í þingsögu landsins. Þar kemur einnig fram að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu margítrekað verið varaðir við afleiðingunum af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. En ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar létu það ávallt sem vind um eyru þjóta.
Athugasemdir