Erum við best í nýtingu jarðvarmans?
Það eru margir mjög undrandi á þeim fréttum að íslensk orkufyrirtæki séu ekki með einkaleyfi í raforkuframleiðslu úr jarðgufu eða tækni á því sviði. Við höfum hlustað á undanförnum árum á mýmargar ræður hjá stjórnmálamönnum, ekki síst frá fyrrv. forseta okkar, þar sem því hefur verið haldið fram að Ísland standa langt framar öðrum þjóðum í þessum efnum.
Staðreyndin er hins vegar sú að aðrar þjóðir voru búnar að byggja stórar jarðgufuvirkjanir mörgum áratugum áður en Íslendingar hófust handa. Þar má benda á nokkur fylki í Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi og Japan. Borar og bortækni og öll þróun þeirra koma úr olíuiðnaðinum og helstu gufuborarnir koma yfirleitt frá USA eða úr Norðursjónum. Rafalar og annar vélbúnaður í gufuaflstöðvunum koma nánast einungis frá japönskum fyrirtækjum.
Það er nokkur ár síðan að íslenskir jarðfræðingar, þar má t.d. benda á Stefán Arnórsson, bentu stjórnvöldum á að við yrðum að huga betur að því hvað við værum að gera hvað varðar nýtingu jarðvarmans og framleiðslu orku. Mörg lönd væru búinn að nýta jarðvarma mun lengur en við og væru sannarlega að gera hlutina öðruvísi en við og hefur tekist að halda þeim sínum orkuverum sjálfbærum.
Markmið með sjálfbærri þróun er sú að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar. Stjórnmálamenn tala gjarnan um að öll orka sem framleidd sé hér á landi komi frá endurnýjanlegum auðlindum. Ferlið er í grófum dráttum þannig að með borholu er gufu og heitu vatni, sem hefur myndast á heitu bergi í iðrum jarðar, hleypt upp á yfirborð og í stað þess rennur kalt vatn inn í geyminn og kælir bergið niður ef tekið er of mikið úr jarðhitageyminum.
Rannsóknir sýna fram á að ef tekið er of mikið í jarðhitageymunum gæti það tekið jafnvel nokkrar aldir að ná sama hita í bergið aftur. Þetta hefur verið þekkt um alllangt skeið t.d. í jarðvarmavirkjunum í USA og víðar. Þetta hefur einmitt verið að koma fram í Hellisheiðarvirkjun og jarðavarmavirkjunum á Reykjanesinu. Þar hefur þurft að bora mun fleiri nýjar holur en gert var ráð fyrir og fyrirhuguð virkjun á Hellisheiðinni felld niður og sú orka tekinn til bjarga Hellisheiðarvirkjuninni.
Áratugareynsla OR af gömlu borholunum í Reykjavík sýna fram á að svo framarlega að ekki sé dælt of mikið upp og yfirborðið í holunum lækki ekki þá kólna jarðgeymarnir ekki. Orkan sem nú gengur kaupum og sölum hér á landi er ekki eins endurnýjanleg og endalaus eins og ráðamenn virðast halda. Jarðfræðingar hafa bent á jarðhitaorkan gæti hæglega klárast á um fimmtíu árum ef nýtingaráformin á Reykjanesinu yrðu ekki endurskoðuð.
Einhverra hluta vegna hefur þessi umræða náð að takmörkuðu leiti til stjórnmálamanna og þeir faraum héruð landsins og lofa stóriðju í nánast hverjum firði. Orka landsins sé óþrjótandi og Íslendingar séu bestir í öllu. Það er satt að segja ekki hægt annað en velta fyrir sér orkupælingunum á Hellisheiðinni og Suðurnesjunum. Jarðfræðingar hafa bent á að allt bendi til þess að svæðið sé nú þegar ofnýtt.
Athugasemdir