Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Er útifundaformið dautt í Reykjavík?

Er útifundaformið dautt í Reykjavík?

Birti þennan pistil okt. 2011, finnst hann eiga allt eins við núna.

Ég hef nokkrum sinnum velt því fyrir mér í pistlaskrifum hvort búið sé að eyðileggja útifundaformið hér í Reykjavík. Á undanförnum misserum hafa verið áberandi á útifundum í Reykjavík fámennur hópur ungs fólks, sem hefur það markmið eitt að stofna til óláta og vera með líkamlegt ofbeldi. Þessu fólki tekst vitanlega að ná til sín athygli fjölmiðla og þá er tilganginum náð.

T.d. má benda á 1. maí hátíðarfundi stéttarfélaganna, fund Hagsmunasamtaka heimilanna og svo hliðarfundi við fundi Harðar Torfa, ef það má kalla það svo þegar hópur nokkurra karla veður um bæinn jafnvel að heimkynnum fólks með hrópum og ruddafenginni framkomu. Fjöldi fólks sniðgengur nú orðið útifundina, ekki sakir þess að það sé andstætt þeim boðskap sem fjallað er um á útifundinum.

Við starfsmenn stéttarfélaganna höfum stundum tekið samtal við þá sem hæst láta og forvitnast hvað það sé sem þeir séu að mótmæla og fengið kostuleg svör reistum á órökstuddum klisjum og upphrópunum. Tilgangslaust hefur verið reyna að ræða við þetta fólk, það eina sem fram kemur er fúkyrðaflaumur og öskur.

Þjóðmálaumræðan einkennist endurteknum upphrópunum og skrumi. Þrátt fyrir að sýnt sé fram með fullgildum rökum að margar af þessum klisjum standist ekki skoðun er haldið áfram að hrópa og okkur miðar ekkert. Margir hafa gagnrýnt umræðuhefðina sem sumir þingmenn hafa tileinkað sér og haft fyrir þjóðinni.

Framkoman á Alþingi þetta kjörtímabil hefur aldrei náð á jafn lágt plan. Nokkrir þingmenn hafa ítrekað hertekið ræðustól alþingis með það eitt að markmiði að koma í veg fyrir málefnalega umræðu og hefur þeim tekist að rýra traust Alþings með svo afgerandi hætti að traust þjóðþingsins mælist nú í eins stafs tölu.

En það má með sömu rökum spyrja hvort sumir þeirra sem kallaðir hafa verið fram sem ræðumenn á útifundunum séu eitthvað málefnalegri en þeir sem starfa innan veggja alþingis. Þar hafa stundum verið einstaklingar sem eru vel þekktir í samfélaginu af öðru en uppbyggilegri og málefnalegri nálgun og leggja oft á tíðum meira upp úr innistæðulausum fullyrðingum og persónulegu skítkasti. Þessir einstaklingar ganga svo langt að kynna sig sem „þjóðina“.

(Eftir birtingu þessa pistils á sínum tíma fékk ég nokkrar kveðjur yfir netið og eins stöðvuðu nokkrum sinnum bílar fyrir framan heimili mitt með flaututónleikum og inngjöfum. En þeir voru fljótir í burtu þegar maður fór út til að ræða við þessa „litlu kalla“)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni