Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Einn rafmagnsstaur dugar

Einn rafmagnsstaur dugar

Það verða að teljast harla einkennileg rök þegar ráðherrar og formenn leiðandi vinnunefnda Alþingis halda því að okkur að forsenda fyrir áframhaldandi hagvexti á Íslandi sé að stofnað verði til nýrrar stóriðju og fleiri virkjanir reistar. Núverandi ríkisstjórn áætlar að veita tugum milljarða úr ríkissjóð til þess að styrkja uppbyggingu stóriðju.

 

Þegar kemur hins vegar að ferðþjónustu er allt skorið við nögl þrátt fyrir að náttúruperlur landsins liggja undir skemmdum sakir þess að ekki er hugað að innviðum og þjónustu við ferðamenn, svo maður tali nú ekki um öryggisjónarmið.

 

Óskertur aðgangur að auðlindum í sameign skapar hvata til ofnýtingar og sóunar. Í því sambandi má vísa til óhjákvæmilegra aðgerða í sambandi við fiskveiðar hér við land árið 1970. Þá var stunduð ofveiði sem leiddi til ósjálfbærni í fiskistofnum og þeir hrundu. Rétt er að halda því til haga að þetta hefur orðið til þess að nýting fiskafurða hefur stórbatnað og verðmæti þorsks hefur t.d. fjórfaldast.

 

Í dag ríkir nákvæmlega samskonar ástand í nýtingu náttúrunnar og orkuauðlinda og var í fiskauðlindunum árið 1970. Í dag komumst við einfaldlega ekki hjá því að taka upp betri auðlindanýtingu ferðaþjónustu og orkuframleiðenda. Það verður að skapa heilbrigða hvata við nýtingu á náttúruauðlindunum.

 

Tekjur Íslendinga vegna fjölgunar ferðamanna hafa aukist gríðarlega. Á næsta ári er áætlað að gjaldeyristekjur vegna hennar verði vel yfir 400 milljarða króna á ári. Til samanburðar þá eru gjaldeyristekjurnar af sjávarútveginum rúmir 240 milljarðar og heildartekjur allrar stóriðju í landinu er um 230 milljarðar. Ferðaþjónustan er orðin miklu stærri hér á landi en öll álver, kísilver og járnblendi samanlögð.

 

Hafandi þetta í huga eru ítrekuð ummæli fjármálaráðherra og formanns atvinnuveganefndar óskiljanleg, þegar þeir slá fram fullyrðingum á borð við að umhverfissinnar vilji bara að allar ár landsins renni til sjávar án þess að skila nokkru í þjóðarbúið. Í þessu sambandi er rétt að halda því til að haga að það er munur á því að að nýta náttúruna og njóta hennar. Ráðherrar okkar virðast einungis sjá nýtingu náttúrunnar sem auðlind til þess að öðlast einhver efnisleg gæði.

 

Langflestir landsmenn auk um 80% þeirra ferðamanna sem hingað koma, ferðast um Ísland til þess að njóta náttúrunnar en ekki til að öðlast önnur gæði. Víðernin á hálendinu eru heildir sem eru heillandi.

 

Páll heitinn Skúlason fyrrv. háskólarektor sagði m.a. í náttúrupælingum sínum að við hefðum því miður ekki staðið okkur nógu vel í náttúruvernd. „Við höfum stundum farið offari í því að umskapa og breyta náttúrunni og við ættum að fara mun varlegar í umgengni við náttúruna, t.d. virkjanaframkvæmdir. Okkar mikilvægasta auðlegð eru víðernin og það þarf svo lítið til að spilla þeim. Það þarf ekki nema einn rafmagnsstaur til þess að óbyggðir hætti að vera óbyggðir.

 

Það er mikill misskilningur að náttúruperlur séu einungis fagurfræðilega viðurkennt fyrirbæri. Hálendið sé bara urð og grjót og það geldur fyrir það að þar sé „ekkert” Náttúran er stórkostleg hvar og hvernig sem á hana er litið. Menn hugsa öðruvísi á hálendinu, allavega þeir sem leyfa sér að skynja hálendið. Það breytir hugsuninni og þegar þú kemur aftur til byggða þá ertu kannski dálítið önnur manneskja, með óbyggðirnar í þér.“

 

Það er til 15 virkjanaáform á hálendinu og sótt fast á um að virkjað verði amk á 4-5 stöðum. Það er þegar búið að setja 8 virkjanir og mannvirki tengd þeim við innkeyrsluna inn á Hálendið að sunnanverðu. Það er nóg. Eins og Páll bendir réttilega á það þarf ekki nema nokkur möstur og eina litla virkjun þá eru víðernin horfin og búið að framkvæma óafturkræfar skemmdir á öllu miðhálendinu okkar. Víðerni sem eru að skila þegar í dag margfalt meiri arði í þjóðarbúið en möguleiki er að ná með nýjum virkjunum

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni