Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Árás á fullveldi Íslands

Árás á fullveldi Íslands

 Viðbrögð ráðherra vegna niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu eru vægt sagt einkennileg. Ríkisstjórnin átti ekki von á því að dómur MDE í Landsréttarmálinu myndi falla á þann veg sem hann gerði. Það er harla einkennileg afstaða því að af 15 dómurum sem voru skipaðir í Landsrétt höfðu einungis 11 þeirra verið valdir hæfastir af valnefnd. Dómsmálráðherra sótti fjóra nýja dómara án viðunandi rökstuðnings og henti út fjórum sem voru taldir hæfari, þvert á ráðleggingar sérfræðinga. Héraðsdómur taldi lög hafa verið brotin og Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu.

MDE hefur úrskurðað og spyr af hverju íslensk stjórnvöld telji það samrýmast 6. grein Mannréttindasáttmálans þegar Hæstiréttur segir lög hafa verið brotin við skipun Landsréttardómara, en dómarar sitji þar löglega, að mati sama Hæstaréttar? MDE komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði gerst brotlegt við 6. grein mannréttindasáttmálans.

Þá mæta íslenskir ráðherrar í fjölmiðla og fullyrða að enginn hefði búist við að málið færi með þessum hætti og engum dottið í hug að búa sig á nokkurn hátt undir þessa niðurstöðu MDE. Eina svarið var „Árás á fullveldi Íslands“ og MDE viti ekkert um hvað þeir eru að tala.

Því miður er þetta hinn íslenski máti. Fullyrt að allir hafi staðið sína vakt allt framkvæmt með réttum hætti. Og ráðherrar viðurkenna aldrei neitt, nei þeir sitja fast við sinn keip, sama hversu rakalausar fullyrðingar þeirra. Og það á sama tíma og dómsvaldið er óstarfhæft og traust þjóðarinnar á dómskerfinu í mikilli hættu.

MDE bendir með óhrekjandi rökum á að nú verði að stinga niður fæti gagnvart þeirri þróun að stjórnvaldið sé í vaxandi mæli að ráðskast með dómsvaldið. Ísland sé komið vafasaman í hóp eins og t.d. með Póllandi, Ungverjalandi og Rúmeníu. Þar sem krafa um hæfni dómaraefna hefur verið  lækkuð en pólitísk áhrif hins vegar látin ráða við skipun dómara.

Dómur MDE einkennist af því það sé mikilvægast að borgarar aðildarríkja Evrópuráðsins geti leitað til dómstólanna telji þeir að stjórnvaldið hafi beitt þá órétti. Það er nákvæmlega þetta sem málið snýst um. Traust á íslensku stjórnvaldi er í lágmarki og þeim fer fækkandi sem taka mark á því sem fram fer á Alþingi.

Við ætlumst til þess ef MDE telji að íslenska ríkið hafi brotið gegn ákvæðum sáttmálans þá dæmi MDE í málinu. Við viljum að Ísland sem aðildarríki Evrópuráðsins og lýðræðisríki beri virðingu fyrir mannréttindum. Íslenskt stjórnvald fari að úrskurðum MDE og virði þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.

Við viljum að íslenskt stjórnvald fari að settum leikreglum um faglegt og hlutlaust hæfnismat fari fram við val á dómurum í samræmi við dómstólalög. Hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði för við skipan í embætti til að tryggja sjálfstæði dómstóla. Þetta ferli er því miður ekki nýmæli á Íslandi. Ráðherrar hafa áður átt við niðurstöðu hæfnisnefnda án þess að gætt sé að meginreglum stjórnsýsluréttar, en nú er ekki lengra gengið. Við höfum fengið rauða spjaldið hjá Mannréttindadómstól Evrópu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni