25% aukaskattar á Íslandi
Leigði mér íbúð í Kaupmannahöfn eina viku í byrjum september. Þegar ég kom þangað var póstkassinn fullur af allskonar bæklingum, m.a. frá nokkrum helstu dagvöruverslunum. Að venju fór ég daglega út í búð að versla inn dagvöruna og sá að töluverður munur var á verðinu heima. Þetta varð til þess að ég skrifaði hjá mér nokkur verð tekin úr Nettó, Aldi og Irma á algengum dagvöruvarningi. Þegar heim kom hef ég borið saman verðin á kassakvittunum þegar ég hef verið að versla undanfarið í mínum helstu dagvöruverslunum þ.e. Krónunni og Bónus
Dkr kg. | Danm. Íkr. | Ísland kg. | |
---|---|---|---|
Nautafile | 109 | 1.878 kr. | 4.355 kr. |
Nautabógur | 80 | 1.379 kr. | 3.998 kr. |
Nautagúllash | 60 | 1.034 kr. | 1.897 kr. |
Lax | 153 | 2.637 kr. | 2.998 kr. |
Svínahakk | 25 | 431 kr. | 1.650 kr. |
Nautahakk | 30 | 517 kr. | 2.229 kr. |
Kjúklingabr. | 55 | 948 kr. | 2.399 kr. |
Heill kjúkling | 40 | 689 kr. | 900 kr. |
Andabringur | 100 | 1.723 kr. | 4.999 kr. |
Lambakótel. | 105 | 1.809 kr. | 3.670 kr. |
Lambalæri | 90 | 1.551 kr. | 1.600 kr. |
Rækjur | 128 | 2.206 kr. | 2.450 kr. |
Risarækjur | 133 | 2.292 kr. | 2.890 kr. |
Graflax | 232 | 3.998 kr. | 5.490 kr. |
Nýjar kartöfl. | 10 | 172 kr. | 439 kr. |
Vínber | 15 | 258 kr. | 890 kr. |
Gulrætur | 9 | 155 kr. | 670 kr. |
Epli | 17 | 293 kr. | 298 kr. |
Rucola salat | 88 | 1.517 kr. | 4.700 kr. |
Stykkjaverð |
|||
Kjötálegg 140 gr | 10 | 172 kr. | 399 kr. |
Gamle fabrik sulta | 10 | 172 kr. | 499 kr. |
Egg 12 stk | 20 | 345 kr. | 299 kr. |
Túnasalat 200 gr. | 9 | 155 kr. | 469 kr. |
Philadelphia ostur | 10 | 172 kr. | 449 kr. |
2 ltr kók | 10 | 172 kr. | 359 kr. |
Gevalia baunir | 37 | 638 kr. | 659 kr. |
Gevalia kaffi | 28 | 483 kr. | 845 kr. |
Jameson viský | 118 | 2.033 kr. | 8.790 kr. |
Drosty hof shiras merlot kassi | 115 | 1.982 kr. | 5.699 kr. |
Spánskur rauðvínkassi | 99 | 1.706 kr. | 5.400 kr. |
Kangaroo chardoney kassi | 119 | 2.051 kr. | 6.520 kr. |
Kangaroo cabernet sauvignon | 119 | 2.051 kr. | 6.520 kr. |
24 flöskur 33 cl bjór | 40 | 689 kr. | 4.200 kr. |
Appelsínudjús 1 líter | 8 | 138 kr. | 199 kr. |
Ferskur djús á flösku | 18 | 310 kr. | 256 kr. |
Samlokubrauð | 14 | 241 kr. | 358 kr. |
Samtals Íkr. | 38.998 kr. | 90.041 kr. |
Þessir útreikningar miðast við gengi dönsku krónunnar í september eða 17.233. Meðal dagvinnutímalaun rafvirkja Dönsk laun 225Dkr = 3.877 Íkr. Daninn er 10,06 klst að vinna fyrir pakkanum. Íslensk daglaun eru 2.300 kr. Ísl rafvirkinn er því 39,32 klst að vinna fyrir pakkanum.
Það tekur semsagt íslenska rafvirkjann u.þ.b. fjórfalt lengri tíma að vinna fyrir dagvörunni.
Danska verðið er 45% af hinu íslenska. Ef við sleppum áfenginu og bjórnum er danska verðið 56% af hinu íslenska. Þessi munur myndast vitanlega á stórum samkeppnismarkaði innan ESB á meðan einokunarfyrirtækin á fákeppnismarkaðnum Ísland eiga auðvelt með að keyra upp álagningu og verðlag.
Svo var verið að renna í gegn nýjum búvörusamning sem mun kosta íslensk heimili tugi milljarða sem að mestu renna til þessara fákeppnisfyrirtækja, en væru mun betur komnir í vösum bænda og launamanna. Og íslenskir stjórnmálamenn setja upp furðusvip þegar almenningur fordæmir þingheim sem samþykkir svona lagað með hjásetu og fjarveru.
Við höfum undanfarið hlustað á talsmenn ríkisstjórnarinnar í spjallþáttum og fréttum þar sem þeir grípa til hástemmdra lýsingarorða um hvernig þeir eru búnir kippa upp kaupmættinum hér á landi. Í því sambandi er ástæða að halda því til haga að þegar stjórnmálamenn og aðdáendur þeirra geipa um laun og semja samanburð fyrir ræður sínar þá taka þeir aldrei inn þá staðreynd að íslendingar eru að skila að meðaltali um 10 klst. lengri vinnuviku en nágrannar okkar gera á hinum Norðurlöndunum. Þeas þeir bera gjarnan 39 klst. danska vinnuviku saman við 40 klst.dag.v.+ 9 klst. yfirvinnu. Meðalheildarlaun ísl. rafvirkja verða í þannig gjafapappír einungis um 10% lægri en meðaldaglaun Dana
Þessu til viðbótar eigum við eftir að tala um vaxtamuninn. Nú ef við höldum áfram að horfa á ESB landið Danmörk þá eru vextir á langtímalánum að jafnaði um helmingi lægri en hér á landi. Þú greiðir upp eitt hús í Danmörk á 20 árum. En Íslandi greiðir þú upp húsnæðislánin þín á 40 árum og þá ertu búinn að borga fyrir tvö og hálft hús í samanburði við Danina. Semsagt eitt og hálft hús renna út um glugga vaxtamunarins sem skapast af örgjaldmiðlunum sem stjórnarflokkarnir og bakhjarlar þeirra verja með kjafti og klóm.
Þessu til viðbótar getum við svo rætt um lífeyriskerfið, örorkubótakerfið, heilbrigðiskerfið, leikskólakerfið, grunnskólakerfið, framhaldsskólakerfið og háskólana. Í ESB landinu Danmörk þekkjast nefnilega ekki hinir ofboðslegu jaðarskattar sem íslenskir stjórnmálamenn hafa með ísmeygilegum leyndarhætti hætti komið smá saman yfir íslenska launamenn,
Ofantalið samsvarar um 25% aukaskatti á íslenskar fjölskyldur umfram þær dönsku.
Athugasemdir