Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Leyfum ekki hræðslunni að vinna

Þjóðin upplifir öll í sameiningu mikla sorg yfir ótímabæru og óhugnalegu fráfalli Birnu Brjánsdóttur. Fyrir fólki sem þekkti Birnu ekki persónulega er málið samt persónulegt. Birna hefði getað verið hver sem er, kona í blóma lífsins, venjuleg stelpa sem rölti út af Húrra eftir djamm, fékk sér nætursnarl og hélt svo heim á leið. Birna er vinkona okkar, frænka, vinnufélagi, systir. En angist nánustu fjölskyldu og vina er auðvitað mest og sendi ég hlýhug og styrk til þeirra.

Af eðlilegum ástæðum leitum við svara við því hvað hefði verið hægt að gera til að koma í veg fyrir atburðinn, og hvað hefði getað flýtt fyrir leitinni og úrlausn málsins. Sumir tala um eftirlitsmyndavélar, bæði gæði þeirra og magn og það er augljóst að eitthvað er hægt að bæta í þeim efnum (þó mér þyki mikilvægt að um notkun á myndefni frá auknu magni eftirlitsmyndavéla gildi strangar reglur). Aðrir tala um að Reykjavík sé „ekki lengur lítil, saklaus borg“ með lánuðum orðum frá rapphópnum XXX Rottweiler.

Lausnirnar sem fólk nefnir gjarnan eru að fara varlega, að fylgja hvert öðru heim eftir skemmtanahald, að vera á varðbergi, að vera skynsöm, að konur eigi aldrei að vera einar úti að næturlagi, að forðast myrkrið. En hér vil ég koma með annan, og kannski óvinsælan vinkil.

Sama hvað við reynum að fara tryggu leiðina þá erum við aldrei viss um að vera örugg. Hversu miklu á að fórna til að reyna að vera viss um að við verðum ekki fyrir ofbeldi? Ég er ekki að tala gegn skynsamlegri varúð eins og að velja fjölfarna götu fram yfir fáfarna að næturlagi, og þar sem meira er um lýsingu. En skynsemi getur auðveldlega farið yfir í takmarkandi tortryggni. Er það réttlætanlegt að sleppa upplifunum eins og að fara í bakpokaferðalag - því það er vissulega hættulegra heldur en að vera bara heima? Er það gott ráð að tala aldrei við ókunnuga því þeir geta reynst hættulegir, þó þeir séu í svo mörgum tilvikum uppspretta nýrra hugmynda, vinskapar og aukinnar víðsýni?

Um helgina fór fram fjölþjóðlegi viðburðurinn „Women’s March“ þar sem konur hittust og marseruðu til að senda ríkisstjórnum um allan heim og sérstaklega þeirri sem nýverið tók við í Washington skýr skilaboð um að kvenréttindi og réttindi annarra minnihlutahópa séu líka mannréttindi. Þau ber að virða og verja. Stjórnvöld bera ábyrgð á því að sýna gott fordæmi og tryggja öllum samfélagsþegnum öryggi og lífsgæði.

Það er ekki á ábyrgð mögulegra fórnarlamba að þau séu ekki beitt ofbeldi. Ofbeldi er alltaf á ábyrgð þess sem beitir því, nauðgun er alltaf á ábyrgð nauðgarans, morð er alltaf á ábyrgð morðingjans.

Ástæður ofbeldis eru aðstæðurnar sem leiða til þess að ofbeldismaður beiti því og það er það sem við verðum að berjast gegn fyrst og fremst. Ofbeldi gegn konum má til dæmis oft rekja til kynjaðs ójafnréttis, þar sem konur njóta ekki sömu virðingar og fá ekki að eiga sama tilkall til frelsis og menn, þar sem þær eru hlutgerðar og merki um persónuleika þeirra og frjálsan vilja afmáð.

Það er mikilvægt að hræðslan fái ekki að vinna og taka yfir líf okkar og frelsi. Þá fyrst er baráttan gegn ofbeldi endanlega töpuð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni