Úr hlekkjum lýðræðisins
Við segjumst búa í lýðræðisþjóðfélagi. Bestu stjórnskipun sem maðurinn hefur látið sér detta í hug. Borgararnir ráða sínum eigin málum. Þetta er vissulega satt, en engu að síður finnst manni dags daglega ekkert virkt lýðræði í gangi. Atkvæðið hefur ekkert að segja, það er mállaust nema í gegnum fulltrúa sem sagði eitthvað allt annað fyrir kosningar en eftir. Og kannski ekkert einu sinni um hluti sem eru efst á baugi í heimi þar sem hlutir gerast á ljóshraða - bókstaflega.
Virðum fyrir okkur nokkra galla núverandi fyrirkomulags:
- Atkvæðið gildir einu sinni um öll mál á fjögurra ára fresti
- Atkvæðið ræður ekki hver fulltrúi þess er, heldur einungis úr hvaða flokki hann kemur, innan sama landssvæðis og atkvæðið hefur heimilisfesti
- Atkvæðið getur ekki skipt um skoðun, en fulltrúa þess er það heimilt hvenær sem er
- Atkvæðið getur ekki skipt sér eftir málaflokkum, það þarf að hafa sömu skoðun og flokkurinn sem það kýs í einu og öllu
- Atkvæðið getur ekki tekið sig saman með öðrum atkvæðum og myndað meirihluta um ákveðið mál. Því er nauðugur einn kostur að stofna stjórnmálaflokk um það og gera sér í leiðinni upp skoðanir á öllum heimsins málum til að teljast gildur kostur.
- Atkvæðið getur ekki sagt upp fulltrúa sínum.
- Atkvæðið er ekki nema hálft atkvæði, sé það svo óheppið að eiga heimilisfesti á einum stað fremur en öðrum.
Maður hefur svo sem heyrt allskonar rök fyrir þessari frelsissviptingu atkvæðisins. Til dæmis þau að stjórnmálaflokkar þurfi ákveðinn tíma til að koma loforðum sínum í verk, landsbyggðin verði að hafa fleiri atkvæði á bak við sig því borgin sé svo mannmörg og að persónukjör leiði til þess að konur komist síður til valda og áberandi fólk í þjóðfélaginu (til dæmis leikarar er sagt með hryllingi) hefðu betri möguleika. Það er með öðrum orðum alltaf verið að hafa vit fyrir atkvæðinu. Áður fyrr var uppgefin ástæða einnig sú að ákveðnir hlutir voru tæknilega ómögulegir, en það verða lélegri rök með hverjum deginum sem líður.
Stjórnmálaflokkarnir aftur á móti skipta um skoðanir eins og ekkert sé sjálfsagðara um gríðarstór mál, gjarnan án þess að spyrja kóng né prest né önnur atkvæði. Nægir hér að nefna afstöðu Sjálfstæðisflokksins til ESB og Framsóknarflokksins til þess að þjóðin semji sína eigin stjórnarskrá. Fagleg og opin umræða er engin, heldur virðast geðþáttur leiðtoga ráða mestu og flokkurinn snýst jafnvel í 180 gráður bara við formannsskipti, eins og berlega kom í ljós í stjórnarskrármálinu þegar Árni Páll var kosinn formaður Samfylkingarinnar. Það er vissulega í góðu lagi að skipta um skoðun þegar nýjar upplýsingar koma í ljós, eða láta sannfærast af góðum rökum, en eitthvað er verulega bogið við það að risastór samtök geti snúist á punktinum með gríðarlegum afleiðingum, án aðhalds, en kjósendur verði bara að bíða í fjögur ár eftir að fá að henda atkvæði sínu í einhverja aðra hít.
Einhver tærasta birtingarmynd þess hversu langt stjórnmálin eru komin frá því að framfylgja vilja þjóðarinnar er svo hið nýja hugtak Bjarna Benediktssonar sem hann kallar "pólitískan ómöguleika", sem felst í því að kjörnir fulltrúar geta ómögulega unnið eftir vilja þjóðarinnar, heldur einungis sínum eigin. Það er nánast ekki hægt að hugsa sér andlýðræðislegra viðhorf, nema helst það undarlega útspil Birgis Ármannssonar, flokksbróður Bjarna, að telja atkvæði þeirra sem ekki mættu á kjörstað örugg atkvæði eigin málstaðar.
Einhvern veginn finnst manni þetta kerfi vera úr sér gengið og þurfi töluverðar endurskoðunar við með það hugarfar að leiðarljósi að það er atkvæðið sem er heilagt, ekki kerfið eða stjórnmálaflokkarnir. Hvers vegna er það til dæmis talið til eftirbreytni að stjórnmálamaður skipti um skoðun, en kerfislega ómögulegt að atkvæðið geri slíkt hið sama? Hvers vegna getur þjóð ekki rekið ríkisstjórnina sína? Hvernig stendur á því að stjórnmálamenn geti vanvirt þjóðaratkvæðagreiðslu? Af hverju get ég ekki kosið þá persónu sem ég treysti best til að fara með atkvæði mitt og dregið það svo til baka þegar viðkomandi bregst trausti mínu? Hvers vegna get ég ekki nýtt minn 1/270.000asta úr þjóðarviljanum til að koma ákveðnum málum áfram, nú eða hindrað framgang þeirra? Hvers vegna er lýðræðið okkar orðið að óyfirstíganlegri hindrun frekar en verkfæri til að þjóðin ráði sér sjálf?
Jú, þetta minnir á umræðuna um beint lýðræði. En ekki endilega til móts við fulltrúalýðræði, því þetta getur vel unnið saman. Þetta er hins vegar víðs fjarri þeirri pólitísku niðurrifshugsun sem felst til dæmis í orðum Styrmis Gunnarssonar, helsta talsmanni Sjálfstæðisflokksins um beint lýðræði, sem hvetur til þess að núverandi ríkisstjórn taki fram fyrir hendurnar á næstu ríkisstjórn (sama hver vilji hennar eða þjóðarinnar er), til að þröngva fram sinni skoðun á ákveðnu máli eins langt fram í tímann og mögulegt er. Hugsunin er sú að gera stjórnmálaklæki sem þessa ómögulega með því að þjóðin hagi sínum málum eftir eigin vilja og aftengja sérhagsmuni og valdamikið fólk sem skemmir eins mikið og það getur í frekjukasti frekar en að una lýðræðislegum niðurstöðum.
Við verðum með öðrum orðum að brjóta af okkur hina slæmu hlekki sem við höfum leyft lýðræðinu að binda sig niður með. Það er auðvitað undir okkur sem þjóð komið hvernig við byggjum upp lýðræðislegt samfélag. Það á ekki að vera stjórnmálamanna að ákveða einhliða hvernig þeirra vinnufyrirkomulag á að vera. Þetta er okkar samfélag, okkar leikreglur og okkar vilji og því ættum við að gera skýlausa kröfu um að fá að ráða okkur sjálf.
Athugasemdir