Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Píratar og stjórnarskráin

Píratar og stjórnarskráin

Á sama hátt og undanfarin 70 ár er nú starfandi pólitískt skipuð stjórnarskrárnefnd. Það sem er öðru vísi við þetta skiptið er að stjórnarskrárgjafinn, þjóðin sjálf, hefur ákveðið að hafa aðra stjórnarskrá en þá sem er í gildi og stjórnarskrárnefndin fjallar um. Engu að síður situr þessi nefnd og fjallar um einstaka ákvæði í núverandi stjórnarskrá og viðbætur við hana, eins og ekkert hafi í skorist.

Píratar hafa skorið sig úr í umræðunni um nýja stjórnarskrá og m.a. gert það að stefnu sinni að framfylgja vilja þjóðarinnar sem stjórnarskrárkosningarnar snérust um. Aðrir flokkar hafa slegið úr og í. Engu að síður sitja Píratar í þessari nefnd og ræða einstaka ákvæði, rétt eins og aðrir flokkar.

Málið er margþætt og ekki allir Píratar sammála um þessa aðferð eins og lesa má t.d. á Pírataspjallinu, sem vissulega fleiri en bara Píratar taka þátt í. Þeir hörðustu eru á því að Píratar eigi umsvifalaust að draga fulltrúa sinn úr nefndinni og ekki taka þátt í þessari afskræmingu á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar á meðan aðrir vilja sjá hvað kemur út úr nefndinni og skoða með það í huga hvort tillögurnar séu til bóta, algerlega óháð loforðinu um nýja stjórnarskrá, enda verði sýnilega ekki stærri skref tekin á þessu kjörtímabili. Enn aðrir vilja halda fulltrúa Pírata í nefndinni bara til að hafa eyru þar sem ákvarðanir eru teknar, þótt í lokuðum herbergjum sé, því betra sé að hafa meiri upplýsingar um málið og ferilinn en minni... en hafa enga trú á að niðurstöðurnar verði fugl né fiskur. 

Margir eru líka hræddir um að hér sé verið að reyna að gera Pírata samseka um pólitískt plott með stjórnarskrárbreytingar, sem enginn sannur Pírati getur í raun hugsað sér að vera hluti af, en er engu að síður raunveruleg hætta því stjórnmál hér á landi ekki laus við slíkt makk frekar en stjórnmál í öðrum ríkjum heimsins. Það væri Pírötum hins vegar sérstaklega hættulegt, enda um últralýðræðislegan flokk að ræða, sem mundi missa mikinn trúverðugleika ef hann færi skyndilega að haga sér eins og hinir.

Allir ofantaldir hafa auðvitað mikið til síns máls. Grunnstefna Pírata er undir, enda segir þar að Píratar "móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru." Þannig er verið að reyna að koma í veg fyrir fordóma í umræðu og auka á gildi upplýstrar afstöðu í allri ákvörðunartöku. En í þessu tilfelli gerist allt á bak við rammlega læstar dyr, sem er í veinandi andstöðu við grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð annars vegar og beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt hins vegar, en það er vitanlega ómögulegt fyrir Pírata að ráða við þetta að svo stöddu, enda hafa þeir ekki lyklavöldin. Það breytist þó hugsanlega eftir næstu kosningar fari þær eins og skoðanakannanir þessa árs benda ótvírætt til.

Píratar verða nú að vanda sig. Það er skýr krafa þeirra að stjórnarskrá Stjórnlagaráðs verði til grundvallar nýrri stjórnarskrá, eins og kjósendur hafa skorið úr um með afgerandi hætti, en það má heldur ekki standa í vegi fyrir aðrar betrumbætur á stjórnkerfi landsins. Það er hins vegar alls óvíst að tillögur stjórnarskrárnefndar verði til bóta - og jafnvel töluverðar líkur á að þær geri illt verra, eins og til dæmis að setja háa þröskulda á beint lýðræði og að breyta orðalaginu "fullt gjald" í "sanngjarnt gjald" um þá rentu sem sjávarútvegurinn þarf að greiða fyrir afnot af eigum þjóðarinnar, og fastsetja þannig pólitíska hentistefnu um útdeilingu auðlinda í stjórnarskrá. 

Í öllu falli munu Píratar hafa sitthvað um málið að segja þegar stjórnarskrárnefndinni þóknast að opna rifu á sínar þunglamalegu eikardyr með tilheyrandi marri og harmkvælum. Það er mikilvægt að ekki komi bara fullmótaðar tillögur úr nefndinni sem öllum er uppálagt að skrifa undir, eða vera stimplaðir andlýðræðislegir ella. Umræðan verður að eiga sér stað og stjórnmálaflokkarnir ættu að grípa þetta tækifæri fegins hendi og raunverulega einu sinni gert það sem þeir hafa ekki getað samkjaftað um síðan Píratar tóku flug í skoðanakönnunum: Breyta stjórnmálunum og raunverulega hlusta á fólk. En einfaldasta leiðin til þess væri reyndar bara miklu einfaldari - og það er að taka mark á þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána og innleiða hana samkvæmt vilja þjóðarinnar.

Strax.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.