Að byggja þjóðarleikvang fyrir ekkert
Kæri fjármálaráðherra
Þú viðrar þá skoðun þína á visir.is í dag að nú sé kominn tími til að bygga stóran íþróttaleikvang í takti við velgengni landsliðsins, að "Næsta skref er þá væntanlega að þjóðarleikvangurinn sé í samræmi við áhuga Íslendinga á að mæta á völlinn". Blaðamaður viðrar svo þá hugmynd sína að hægt væri að byggja stóran leikvang fyrir enga peninga frá skattgreiðendum og segir að reikna megi með að "slíkur leikvangur með 20-25 þúsund sætum gæti kostað að minnsta kosti 15-20 milljarða króna" og að lífeyrissjóðir eða aðrir fagfjárfestar geti fjármagnað þetta með ávæning um hlut í gróðanum.
Ég verð að viðurkenna að þetta sló mig agnarlítið - í fljótu bragði gengu tölurnar ekki upp, svo ég ákvað að taka þetta saman til að ég þyrfti ekki að fara ringlaður að sofa í kvöld, en legg þó áherslu á að ég er ekki hagfræðimenntaður, en er ágætlega læs á tölur - til að mynda þá, að tap á rekstri Laugardalsvallar í fyrra (stórkostlegu knattspyrnuári) var 32 milljónir - og þá er ekki tekið með liðurinn framlög og styrkir upp á tæpar 50 milljónir. Hér að neðan er niðurstaðan, en ég vona að hagfræðimenntaður einstaklingur taki að sér að gera betri og faglegri greiningu í snarhasti:
Auknar tekjur:
Á þessu besta ári Íslenskrar knattspyrnu frá upphafi má gera ráð fyrir að völlurinn fyllist þrisvar - gegn Tékkum, Kasakstan og Lettum. Samkvæmt heimasíðu KSÍ komast 9.800 manns þarna fyrir núna í sætum. Segjum að þarna fyllist völlurinn algerlega upp í 25.000 og verðið sé að meðaltali kr. 4.000 (því ekki ætlar þú að hækka verðið Bjarni?). Þá borga áhorfendur aukalega kr. 4.000 x 15.200 sem eru um 60 milljónir x 3 leikir = 180 milljónir. (Ég mætti á bikarúrslitaleikinn í knattspyrnu karla í ár, það var varla hálffullt þannig að ég held að það sé útséð með aðra leiki. Vonandi fer fólk þó að fara meira á kvennaleikina - þeir eru æðislegir).
Segjum (til að tína allt með) að hagnaður af seldum varningi sé 500 krónur á hvern einasta sem er aukalega, þá væri það 500x15.200x3 = 22 milljónir. Samtals - til að rúnna aðeins, væri um aukalegar tekjur á ári um 200 milljónir króna. Taktu eftir Bjarni - ég er að tala um aukalegar tekjur, og gef ævintýralega forhönd, því samanlagðar tekjur af leikjum og mótum árið 2014 voru bara skitnar 15,3 milljónir samkvæmt ársskýrslu KSÍ (rekstrartekjur í heild þó 56 milljónir og tekjur af landsleikjum 40 milljónir)- þannig að hér er ég að reikna brjálæðislega jákvæðri niðurstöðu í hag. Þess vegna reikna ég heldur ekki með auknum tekjum vegna tónleika eða annarra uppákoma, því það hverfur á mjög sanngjarnan hátt inn í þessa ofvöxnu og ofreiknuðu tölu.
Aukin gjöld:
Jú, það þarf að manna þetta mannvirki. Segjum að gamni, að þrátt fyrir meira en tvöföldun leikvangsins verði aukið um stöðugildi aðeins um 50%. Það þýðir aukningu upp á ca. kr. 33 milljónir. Svo þarf væntanlega að halda þessu við, en segjum, því við erum svo næs, að nýbyggingin þurfi bara alls enskis meiri viðhalds en sú gamla.
Segjum líka að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar galdri peningana upp úr vasanum, vaxtalaust, og þetta hefur engin áhrif á byggingarvísitölu né felli hlutabréf og aðrar eignir, sem sömu aðilar þurfa væntanlega að selja til að eiga fyrir þessari frábæru fjárfestingu. Bara til að vera næs við stöðugleikann þinn.
Segjum meira að segja að þessir mannelskandi lífeyrissjóðir og fjárfestar krefjist núll prósent arðs af fjárfestingunni - þetta er jú gert fyrir ríkisstjórnina, KSÍ og þjóðina.
Niðurstaða:
Þá erum við með 177 milljón króna hagnað á ári af þessu öllu saman (OK - ég veit, þetta er fáránlega jákvætt reiknað) og allir glaðir. Nema fyrir þá staðreynd eina að (segjum að öll plön standist (hahaha)) og þetta kosti bara þá 20 milljarða sem eru nefndir (ég get bara ekki farið niður í 15 milljarða, það væri að ljúga upp í opið geðið á þér) - þá mundi fjárfestingin borga sig til baka á... tatata - 20.000.000.000 / 177.000.000 = 117 árum!
Taktu eftir - ÁN aukins viðhalds og ÁN arðsemiskröfu og ÁN vaxta og ÁN þess að verkefnið fari yfir budget, sem er fáheyrt hér á landi í verkefnum af þessari stærð.
Ég reikna, kæri Bjarni, sem sagt allt jákvæðri niðurstöðu í hag. Margfalt. En útkoman er sú að lífeyrissjóðirnir og fagfjárfestarnir þurfa að vera fábjánar til að stökkva á vagninn. En til að gefa alveg allan slaka í heiminum, þá eru fagfjárfestar hér á landi ekki með sérstaklega gott track reckord og finnst þetta örugglega prýðishugmynd... og hver tapar þá? Enginn. Eða sá sem tekur ábyrgð á þessu, þjóðarinnar vegna, sem er þjóðinn... sem endar að venju með að borga brúsann.
Mig langar því að stinga því að þér Bjarni að reikna dæmið til enda og forðast eins og heitann eldinn að fara með þetta í vinsældarkeppni sem gæti kostað þjóðina ævintýralega fjármuni, eins og til dæmis þegar þið einkavædduð bankana. Landsliðið varð ekki til með stórkarlalegum yfirlýsingum, það varð til með mikilli grunnvinnu og fókus á ræturnar út um allt land. Höldum því áfram og gerum enn betur í stað þess að byggja loftkastala með loftpeningum.
Kær kveðja
Aðdáandi Íslenska landsliðsins
[Athugasemd höfundar. Mér var bent á að fjármálaráðherra hefði ekki haldið tölunum fram sem hér eru að ofan, heldur eru það vangaveltur blaðamanns. Bloggið er leiðrétt með það í huga.]
Athugasemdir