Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Fyrsta steinsteypta húsið á Íslandi

Fyrsta steinsteypta húsið á Íslandi

Árið 1895 byrjuðu hjólin að snúast. Á bæ, efst í Norðurárdal lét bóndi að nafni Jóhann Eyjólfsson byggja fyrir sig fyrsta steinsteypta húsið í sögu Íslands. Maðurinn sem hann réð í verkið hét Sigurður Hansson en hann var steinsmiður. Í fyrstu huggðist bóndi þó byggja steinhús úr höggnum steini, líkt og hafði verið gert í Reykjavík um þó nokkurt skeið. Veturinn áður hafði Jóhann safnað að sér efni sem hann ætlaði að nota til þess að reisa húsið en komst Sigurður steinsmiður að því að efnið sem Jóhann hafði safnað væri ókleyft blágrýti. Blágrýtið var engu að síður notað og var það notað í kjallara hússins. Steinarnir voru lagðir í sementsmúrlímið og sú hlið sem snéri inn í kjallarann var höggvin. Ekki leið á löngu áður en Jóhann bóndi og Sigurður steinsmiður stóðu frammi fyrir stóru vandamáli. Það kom í ljós að engir steinar voru nýtanlegir til þess að hlaða yfir dyr og glugga. Datt þeim félögum í hug að steypa sér steina sem þeir gætu notað í þetta verkefni. Steinana ætluðu þeir að steypa saman úr mulningi sem þeir myndu binda saman með sementsmúrlími. Þá voru gerðar tilraunir með missterkum blöndum og steyptu þeir alls þrjá steina. Hlutföll steypunnar voru 1:2:2 sement, sandur og mulningur, sem reyndist best af þessum prófunum þeirra.

Þeir dóu ekki ráðalausir og töldu að best og einfaldast væri að gera mót fyrir veggjunum og steypa svo steinana í þau. Borðin voru fest með því móti að þau voru skorðuð af með fleygum en ekki negld og lágu mótin laus þegar fleygarnir voru teknir frá. Uppistöðum var þannig háttað að eins metra millibil var meðfram veggjum, að ofan voru þau svo tengd með timbri. Ofan á blágrýtiskjallarann var þá steypumóti stillt upp, aðeins eitt borð á hæð. Mótin voru fyllt með þessari blöndu sem þeir höfðu fundið að best væri af þeim sem þeir höfðu prófað. Eftir að þessi blanda fékk að harðna var næst stillt upp næsta lagi og aftur, aðeins eitt borð á hæð. Mörgum gæti eflaust fundist þessi aðferð nokkuð spaugileg í dag en reynslan var ekki meiri í þá daga. Jóhann bóndi og Sigurður steinsmiður hafa verið nokkuð ráðagóðir og létu ekki hendur falla þegar babb kom í bátinn og leystu þetta prýðinlega með mikilli þrautseigju og þolinmæði þegar þeir reistu bæinn Sveinatungu.

Þetta hús var þó ekki eina steinhúsið sem reist var þetta árið því Davíð Sigurðsson, húsamiður á Akureyri, reisti við sjúkrahúsið á Akureyri fjós og haughús. Ekki er vitað um blöndunarhlutfall hjá Davíð en þar setti hann sement og sand saman í mót og raðaði smásteinum í blönduna. Mikið var talað um sveitungahúsið í Norðurárdal og þótti fólkinu í landinu þetta vera mikil tíðindi. Engu að síður varð engin almennileg útbreiðsla á þessum byggingarmáta fyrr en um aldamótin.

Fyrsta steinsteypa húsið í Reykjavík var reist á árunum 1897 til 1898. Það hús var nefnt Barónsfjós og var við Hverfisgötu sem nú er Barónsstígur 4. Barónsfjós var reist af franska baróninum Charles Gouldrée Boilleau en Charles hafði ákveðið að hefja rekstur á kúabúi í Reykjavík. Reksturinn á fjósinu gekk þó ekki eins og Charles hafði vonað og eignaðist Nói-Síríus fjósið svo seinna og var með starfsemi sína í því um nokkurt skeið. Húsið stendur við Barónsstíg og dregur gatan nafn sitt af húsi þessu.

Snemma hófst mannvirkjagerð með steinsteypu á Ísafirði. Þar var skósmiður að nafni Magnús Jónsson sem byggði tvílyft steinsteypuhús. Varð uppi fótur og fit og spurðist mikið af húsi þessu, svo mikið að gatan sem húsið stóð á var nefnd Steinsteypuhúsgata en síðar nefnd Sólargata. En þá er komið að Reykvíkingum. Þrjú hús og einn kjallari voru reist í það minnsta í Reykjavík á árinu 1903. Halldór Þórðarsson sem var bókbindari í Reykjavík reisti sér hús á einni hæð sem var staðsett við Ingólfsstræti og kaupmaðurinn Helgi Magnússon reisti sér tvílyft verslunar- og íbúðarhús sem var við Bankastræti. Þessi hús áttu það sameiginlegt að bæði voru þau reist með flekamótum og fest saman með járnteinum. Teinarnir gengu inn í veggina og hafa átt að þjóna sama tilgangi og bendistál sem við þekkjum í dag. Guðjón Sigurðsson fór þó hærra en fyrrnefndi menn og reisti sér þrílyft hús. Uppbygging útveggja var þó nokkuð frábrugðin því sem áður hafði verið gert þar sem veggirnir voru tvíbreiðir og með loftunarbili á milli. Hugmyndin með því var sú að loftbilið ætti að einangra húsið og koma í veg fyrir að vatn kæmist í gegnum veggina þegar verst viðraði. Netajárn voru notuð í járnabindingu en járnabinding hafði það hlutverk að sporna gegn sprungumyndun. Þekkt var að járnabinding hafi verið notuð erlendis.

Það var ekki fyrr en eftir 1912 sem gjörbreyting varð á byggingarmáta í Reykjavík því þá komu til sögunnar steinsteypuhúsin. Tímabilið sem var um það leyti að hefjast var oft nefnd „steinöldin“ vegna þess hversu mikið steinsteypan var notuð og varð töluverð bylting í byggingariðnaði hérlendis. Árið 1912 voru þrjú steinsteypt hús reist í Reykjavík líkt og árið 1903. Eitt þessara húsa lét Jón Magnússon byggja en til gamans má geta að Jón varð síðar forsætisráðherra. Húsið sem hann lét reisa var staðsett við Hverfisgötu 21. Það var svo Hið íslenska prentarafélag sem festi kaup á þessu húsnæði árið 1941. Árið 1926 gisti svo Kristján X Danakonungur og Alexandrína drottning í húsinu þegar þau heimsóttu Íslands. Húsið er óbreytt samkvæmt virðingum frá 1918 og 1941.

Við Templarasund 5 byggði Sigurjón Sigurðsson stórt hús úr steinsteypu. Sigurjón var trésmiður og var þetta hús þrílyft og einnig með kjallara. Jón K. Ísleifsson teiknaði húsið. Húsið nefndist síðar Þórshamar og er ekki ólíklegt að þetta hafi verið veglegasta og stærsta steinsteypuhúsið á þessum tíma. Við Skólabrú 2 reis í öllu sínu veldi hús læknisins Ólafs Þorsteinssonar. Kvennaskólinn í Reykjavík við Fríkirkjuveg var til þessa stærsta steinsteypta húsið en það var byggt árið 1909. Það má með sanni segja að steinsteyptar byggingar voru farnar að spretta upp ansi hratt og þótti ekkert sjálfsagðara en að steypa hús. Skemmtilegt dæmi um þetta kemur frá árinu 1913 en þá þurfti bæjarstjórn að ræða sérstaklega um hvort mætti byggja hús úr timbri í miðbæ Reykjavíkur, svo algeng var steinsteypan orðin. Á fundi þessum reis maður að nafni Tryggvi Gunnarsson upp og lét út úr sér þau orð að bæjarstjórn mætti ekki láta það henda sig að leyfa byggingar í Reykjavík úr öðru efni en steinsteypu. Það var samþykkt og töldu bæjarfulltrúar að breyta þyrfti byggingarsamþykkt í samræmi við það.

Sturlubræður voru þekktir athafnamenn í Reykjavík. Þeir höfðu byggt sér hús sem brann í október 1912. Þeir dóu ekki ráðalausir og ekki nema ári seinna byggðu þeir steinsteypt hús. Húsið var staðsett á sama stað en það var á Steinstaðablettinum við Hverfisgötu. Þetta hús var nokkuð sérstakt að því leytinu til að þakið, allir stigar og öll loft voru steinsteypt. Þetta hafði ekki verið gert áður. Breytti þetta áliti almennings til steinsteypu verulega og fór fólk smátt og smátt að hafa meiri trú á þessu byggingarefni en það voru nefninlega ekki allir sem treystu á steinsteypuna. En það er eins með hana á þessum tíma líkt og með margar nýjungar, fólk þurfti að sjá og öðlast þekkingu á hlutum áður en þeir voru teknir í sátt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Loka auglýsingu