Ég heiti Alexia Nix og er doktorsnemi í eðlisfræði við Háskóla Íslands en ólst upp á Grikklandi. Það eru tvö og hálft ár síðan ég flutti til Íslands.
Það liggja ýmsar ástæður að baki því að ég kom hingað en sú helsta er að makinn minn fékk líka stöðu við háskóla hér. Okkur langaði að vera saman. Við erum virkilega ánægð og líður vel.
Flutningurinn til Íslands hafði áhrif á viðhorf mitt til lífsins. Reykjavík er lítil borg en svo full af lífi og með ólíka menningarheima. Fólk ætti ekki að vera með fyrir fram gefnar hugmyndir um samfélagið, eins og að halda að það sé lokað. Það er það alls ekki.
Íslendingar eru ekki eins og hefðbundnir Norðurlandabúar. Þegar þú kemur hingað áttarðu þig á því að allar staðalímyndirnar um fólk á Norðurlöndunum eiga ekki við. Mér finnst Íslendingar svo opnir og forvitnir að skilja meira um mig og minn menningarheim. Þau samþykkja mann.
„Svo sé ég norðurljós og það er töfrum líkast
Eftir að ég flutti hingað hef ég lært að kunna að meta litlu hlutina í lífinu. Eyjan er staðsett langt í burtu frá meginlandi Evrópu og heimalandi mínu. En svo sé ég norðurljós og það er töfrum líkast. Og sé jökul og það eru töfrar. Hér kunnum við að meta litlu hlutina en í öðrum löndum er svo mikill hraði í samfélaginu að fólk gleymir þessum hlutum. Á Íslandi gerir fólk það svo augljóst þegar það er hamingjusamt. Til dæmis ef það er gott veður, þá tekur það frí frá vinnu bara til þess eins að njóta sólarinnar.
Það er mér ofarlega í huga að dagarnir eru að lengjast og veðrið að hlýna. Ég hlakka mikið til að fara að ganga á fjöll. Mig langar rosalega mikið að ganga Laugaveginn í sumar.
Athugasemdir