Sumarið sem aldrei kom birtist í september

Sept­em­ber hef­ur ver­ið sól­rík­ur og sum­ir vilja meina að sumar­ið hafi loks lát­ið sjá sig. Borg­ar­bú­ar hafa not­ið veð­ur­blíð­unn­ar í sól­inni sem hef­ur skin­ið skært, sól­skins­stund­ir eru yf­ir með­al­lagi sem hef­ur bet­ur gegn kuld­an­um. „Þetta eru kannski kær­kom­in ró­leg­heit,“ seg­ir Birg­ir Örn Hösk­ulds­son, veð­ur­fræð­ing­ur á Veð­ur­stofu Ís­lands.

Sumarið sem aldrei kom birtist í september
Haustblíða Vinkonur njóta hægviðrisins í Laugardalnum í vikunni. Þó september sé að líða undir lok eru laufin enn fallega græn. Mynd: Golli

Nýliðið sumar fer kannski ekki í sögubækurnar fyrir fjölda sólskinsstunda og flestir hugsa því eflaust þegjandi þörfina, nema kannski íbúar á Austurlandi sem fengu smá hitabylgju um hásumarið. September hefur hins vegar verið ansi ljúfur, útivistargörpum til mikillar gleði víða um borg sem urðu á vegi ljósmyndara Heimildarinnar. 

„Það fer eftir því hvað þú meinar með veðurblíðu?“ spyr Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, þegar blaðamaður forvitnast um veðurfar í september. Mánuðurinn er vissulega búinn að vera hægviðrasamur en hiti hefur verið undir meðallagi. „Fyrir utan allra fyrstu dagana er september búinn að vera almennt frekar hægviðrasamur, ekki mikill vindur og sérstaklega upp á síðkastið hafa verið margir rólegir dagar, þurrir og hægir, sem eru frábærir fyrir útivist. En ef við myndum líta á hitann þá er hitinn undir meðallagi á mest öllu landinu, þetta er fremur kaldur mánuður í rauninni. En ef vindur er almennt hægur þá finnur fólk miklu minna fyrir því að það er kalt.“ 

Kalt en sólríkt

Kjörskilyrði til að njóta veðursins hafa því verið til staðar síðari hluta september, þrátt fyrir að kalt hafi verið í veðri. „Fyrstu 25 dagarnir í september eru um 1,5 gráðum kaldari en að meðaltali síðustu 30 ár. Þegar það er svona hægur vindur og lítil úrkoma, eins og verið hefur síðustu vikuna, þá eru sex, sjö gráður bara fínasti hiti. En ef það er hvassviðri og rigning með þá auðvitað finnst manni þetta skítkalt. Upplifunin er aðallega hversu rólegt veðrið hefur verið, ekki hitastigið,“ segir Birgir Örn. 

ÚtivistÞað hefur viðrað vel til hvers konar útivistar í mánuðinum.
Sumar í september?Það er ekki að sjá að október sé á næsta leiti.

Sólskinsstundir í Reykjavík eru vel yfir meðallagi, fyrstu 25 daga mánaðarins hafa 137,5 sólskinsstundir mælst í borginni, sem er 39 yfir meðallagi. Þurrt hefur verið síðari hluta mánaðarins. „Þegar það er þurrt og hægviðrasamt þá skiptir ekki öllu máli hvort það er tveimur eða þremur gráðum hlýrra eða kaldara. Þá er bara fínt veður,“ segir Birgir Örn.       

Strembið sumar fyrir veðurfræðinga

En borgarbúar, og landsmenn almennt, þurfa kannski ekki mikið til að gleðjast eftir vonbrigðasumarið. Viðvaranir vegna veðurs einkenndu sumarið frekar en sólarstundir. Alls voru 77 viðvaranir gefnar út í sumar, þar af átta appelsínugular, og hafa aldrei verið fleiri að sumarlagi frá því að Veðurstofan tók upp nýtt viðvaranakerfi. Flestar viðvaranir voru gefnar út í júní, 26 gular og átta appelsínugular. Þær tengdust nær allar norðanóveðri sem geisaði í byrjun mánaðarins. Júlí var nokkuð rólegri, þá voru 13 viðvaranir gefnar út. Óvenjublautt var á vestanverðu landinu, en sex rigningaviðvaranir voru gefnar út í júlí. Þá voru 30 viðvaranir gefnar út í ágúst, en þá var bæði úrkomusamt og hvasst í flestum landshlutum. Flestar viðvaranir voru gefnar út á Suðausturlandi og Breiðafirði, tíu talsins, en fæstar á höfuðborgarsvæðinu, einungis tvær. Birgir Örn bendir á að veðurviðvaranir yfir vetrartímann hafa aldrei verið færri. „Það eru óvenjulítil árstíðaskipti í vinnuálagi, það er jafnmikið að gera allt árið, sumarið var órólegt en veturinn rólegur.“

„Þetta eru kannski kærkomin rólegheit“

Birgir Örn segir sumarið hafa verið strembið fyrir veðurfræðinga. „Oftast eru sumrin rólegasti árstíminn en þetta er búið að vera strembið sumar, óþarflega mikið í gangi, alltaf eitthvert veður sem hefur áhrif á samfélagið.“ 

KisiKötturinn Mosi unir sér vel í hæglátu haustinu.

Spár gera áfram ráð fyrir rólegu veðri á landinu næstu daga. „Það er einhver úrkoma af og til en vindur verður ekki mikill. Það er spáin fram yfir helgi. Þetta er rólegt veður. Svalt og þurrt, enginn kraftur í þessu.“ Það ætti því að viðra vel fyrir frekari útivist og Birgir Örn bendir á að það er miklu betra að fara í göngu í nokkrum gráðum þegar veður er þurrt og stillt heldur en í tíu gráðum, rigningu og strekkingi. „Ágúst var leiðinlegur þannig að þetta eru kannski kærkomin rólegheit,“ segir Birgir Örn.

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu