Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Geðlæknirinn sem hefur upplifað „hæstu hæðirnar og lægstu lægðirnar“

Þeg­ar lækn­ir nefndi fyrst við Astrid Freisen, nú geð­lækni á Kleppi, ár­ið 2006 að hún gæti ver­ið með geð­hvörf trúði hún því ekki. Það var ekki fyrr en fjór­um ár­um síð­ar, þeg­ar hún hafði í man­íu synt í ánni Rín, keyrt bíl á rúm­lega 200 kíló­metra hraða og eytt „mjög mikl­um“ pen­ing­um, sem hún var til­bú­in í að við­ur­kenna vand­ann og sækja sér með­ferð. Síð­an þá hef­ur hún gert sitt til þess að berj­ast gegn for­dóm­um gegn fólki með geð­hvörf, með­al ann­ars með nýrri bók þar sem hún seg­ir frá sinni reynslu.

Geðlæknirinn sem hefur upplifað „hæstu hæðirnar og lægstu lægðirnar“
Læknir „Það að vera geðlæknir er stór hluti af því hver ég er. Ég get ekki bara lokað það úti þegar ég segi frá minni reynslu,“ segir Astrid. Mynd: Golli

Á kandídatsárinu sínu árið 2004 fór hin þýska Astrid Freisen, sem starfar í dag sem geðlæknir á Kleppi, að upplifa verulega vanlíðan. Hún áttaði sig á því að vanlíðanin væri óeðlileg en hún sótti sér samt ekki meðferð hjá lækni eða sálfræðingi því hún hafði fastmótaða hugmynd í höfðinu um að hún ætti ekki að vera þunglynd. Hún hélt að þunglyndi væri leti og hún væri ekki löt.

Hún var meðvituð um að hugmyndin væri röng, enda hafði hún lært að hjálpa fólki upp úr þunglyndi með viðeigandi meðferð, en einhvern veginn hafði hún þessa hugmynd, að hún gæti alls ekki verið þunglynd.

„Þegar ég talaði við sjúklingana mína fyrir doktorsverkefnið mitt sagði ég þeim að þetta væri ekki þeim að kenna, þetta væri röskun, þeim myndi batna, en samt hugsaði ég þetta sjálf. Ég gat ekki leiðrétt þessar hugsanir til að byrja með,“ segir Astrid, sem meðhöndlaði sig sjálf í stað þess að leita sér geðheilbrigðisþjónustu.

„Ég kem úr fjölskyldu sem sagði: „Fólk sem er þunglynt er bara latt.“ Fyrir mér þýddi það að að ég gæti ekki verið þunglynd því að það myndi þýða að ég væri löt. Ég er ekki löt. Þetta kom í veg fyrir það að ég leitaði mér aðstoðar.“

Sveiflur í líðan voru orðnar Astrid eðlilegar

Árið 2006 minntist læknir fyrst á að hún gæti verið með geðhvörf, röskun sem hún átti síðar eftir að skrifa um í sjálfsævisögu – bókina Wir fliegen hoch, wir fallen tief, sem Astrid vonar að komi út á íslensku einn daginn. En árið 2006 var Astrid viss um að læknirinn hefði rangt fyrir sér.

„Ég er ekki með geðhvörf,“ hugsaði Astrid þá. „Kannski er ég þunglynd en ég er klárlega ekki með geðhvörf.“ 

Það voru líka fordómar sem komu í veg fyrir það að Astrid sækti sér strax meðferð við geðhvörfum, fordómar sem hún telur að séu enn sterkari en gegn fólki með þunglyndi. Næstu fjögur árin í lífi Astridar skiptust því á skin og skúrir.

„Frá 2006 til 2010 var ég alltaf þunglynd að vetri til en á sumrin var ég í hýpómaníu. Mér leið mjög vel, ég þurfti minni svefn, ég eyddi miklum pening, ég var mjög orkumikil. Svona var þetta á hverju ári og ég hugsaði bara: „Svona er ég“ og áttaði mig ekki á því að þetta væru einkenni geðhvarfa.“

Astrid var nefnilega fyrir löngu síðan farin að líta á þessar miklu sveiflur í líðan sem hluta af sér. Samt þekkti hún geðhvörf mjög vel, enda rannsakaði hún þau fyrir doktorsritgerð sína í geðlæknisfræði. 

„Ég held að mér hafi fundist geðhvörf svona áhugaverð vegna þess að þeir skjólstæðingar fara í hæstu hæðirnar og lægstu lægðirnar á stuttum tíma,“ segir Astrid.

„Ég vissi sjálf að mín líðan sveiflaðist kannski meira en hjá öðrum. Þegar við útskrifuðumst skrifaði ein af vinkonum mínum í útskriftarbókina: „Hún fer í hæstu hæðirnar og lægstu lægðirnar“, svo merkin voru alltaf til staðar jafnvel þó að ég hafi ekki talið að þau tengdust sjúkdómi. Þetta var bara eðlilegt fyrir mér. Ég vissi mikið um geðhvörf en samt skildi ég þau ekki í sjálfri mér. Ég hélt að hýpómaníurnar væru bara mín verðlaun fyrir að komast í gegnum dimma dali vetrarins.“ 

Synti í straumþungri á

Það var árið 2010 sem Astrid vaknaði loks til vitundar um að ástand hennar væri ekki eðlilegt. Þá hafði hún farið í alvarlega þunglyndislotu og fengið lyfið Venlafaxine til þess að komast upp úr henni.

„Ég var að bæta í skammtinn og það varð í það minnsta að hluta af ástæðunni fyrir því að ég fór inn í maníu,“ segir Astrid og útskýrir að það gerist gjarnan hjá fólki með ógreind geðhvörf.

Í maníunni voru hugsanir Astridar á fleygiferð, hún svaf ekki nema mest hálftíma á nóttunni og vaknaði samt full af orku. Auk þess talaði hún stöðugt: „Það var ómögulegt að stoppa mig.“

Svo fór hún að eyða feikn af fé og fór að sýna af sér áhættuhegðun eins og að keyra á yfir 200 kílómetra hraða á þýsku hraðbrautinni og synda í ánni Rín.

„Það er straumþung og stór á og ég hélt að ég gæti bara synt í henni. Það var heimskulegt.“ 

Leið mun betur eftir sex vikna innlögn

Fólkið í kringum Astrid sá að það væri ekki allt með felldu og loks áttaði hún sig. „Ég fór á spítala sjálf, það neyddi mig enginn til þess. Læknirinn sem leiðbeindi mér í ritgerðinni vann þar og ég treysti honum,“ segir Astrid.

Hún fékk að vera á spítalanum í sex vikur. „Þar náði ég mér virkilega vel. Eftir það varð lífið bara betra því mér var sagt að ég væri með geðhvörf I, ég þyrfti að taka lyf og þau lyf virkuðu fyrir mig. Öll árin áður voru svo erfið því ég hafði verið þunglynd yfir veturinn og manísk yfir sumartímann, þetta var ný tegund af stöðugleika. Þetta var mjög góð upplifun.“

SáttAstrid fann fyrir mikilli skömm í kjölfar greiningarinnar en henni hefur tekist að vinna sig út úr þeirri skömm.

Skömmin sat eftir

Þó að meðferðin hafi gengið vel og Astrid væri mun stöðugri en áður eftir dvölina á spítalanum þá sat eftir skömm. 

„Hvers vegna áttaði ég mig ekki á því sem var að gerast? Ég er geðlæknir, hvers vegna tók ég ekki eftir þessu? Hvað gerði ég fjölskyldunni minni? Hversu miklum peningum eyddi ég?“ spurði Astrid sig. Hún fór aftur til vinnu en skammaðist sín svo mikið að hún hætti að tala við kollega sína og borðaði hádegisverðinn á skrifstofunni sinni. Svona leið þetta í tæpt ár. 

Astrid segir að hennar upplifun hafi í raun verið mjög týpísk. „Fólk upplifir gjarnan skömm í kjölfar maníu. Það er fólk sem tekur sitt eigið líf, ekki vegna þunglyndis heldur vegna skammar. Vegna þess að það sem þú gerir í maníu er ekki líkt þér, þú skilur það ekki, fólkið í kringum þig skilur það ekki. Það er sjokk, líka fyrir fólkið í kringum þig – ættingja þína, maka, fjölskyldu.“

En Astrid tókst að vinna sig út úr skömminni. Fyrsta varðan var þegar hún náði að klára sérnámið sitt sex mánuðum eftir að hún lagðist inn á spítala.

„Þá sýndi ég sjálfri mér að ég gæti enn lært, gæti enn hugsað og leyst vandamál. Það var mér mjög mikilvægt vegna þess að ég var vön því að vera fyrirmyndarnemandi.“ 

Þorði ekki að nefna starfið

Annað stórt skref í átt frá skömminni var þegar Astrid fór að skrifa um sína reynslu á opnum vettvangi fyrir fólk með geðhvörf. 

„Þá sá ég og skildi að fólk hafði upplifað það sama og ég og gert það sama. Auðvitað vissi ég það því ég rannsakaði þetta í náminu mínu, en að heyra frá fólki sem hefur gengið í gegnum það sama er öðruvísi,“ segir Astrid.

En þegar hún skrifaði um sína reynslu á þessum opna vettvangi sleppti hún einu mikilvægu atriði: að hún væri geðlæknir. 

„Oft hefur fólk með geðhvörf ekki sögu um bestu upplifunina af geðlæknum, stundum lítur fólk í þessari stöðu á geðlækna sem óvini sína svo mér fannst ekki öruggt fyrir mig að segja frá því að ég væri geðlæknir,“ segir Astrid, sem hugsaði síðan með sér: „Það að vera geðlæknir er stór hluti af því hver ég er. Ég get ekki bara lokað það úti þegar ég segi frá minni reynslu.“

Kollegar höfðu áhyggjur af viðbrögðunum

Árið 2014, fjórum árum eftir að hún viðurkenndi vandann, talaði hún í fyrsta sinn á ráðstefnu um það að vera bæði geðlæknir og skjólstæðingur geðheilbrigðiskerfisins. Eftir á fór fólk í svipaðri stöðu, heilbrigðisstarfsfólk sem greinstt hafði með geðhvörf, að hafa samband við hana. Astrid og tveir kollegar hennar ákváðu í kjölfarið að koma á fót samtökunum Betroffene Profis, sem vekja athygli á stöðu heilbrigðisstarfsfólks sem glímir við geðhvörf, m.a. með því að veita fjölmiðlum viðtöl og tala á ráðstefnum um málefnið.

„Þegar ég sagði [kollegum mínum] að ég ætlaði að fara meira inn í opinbera umræðu og segja frá þessu í sjónvarpi og víðar sögðu sumir kollegar mínir: „Ekki gera það.“ Ég held að þeir hafi haft áhyggjur af því hvernig almenningur og aðrir læknar myndu bregðast við.“ 

„Ég deili reynslu með skjólstæðingum mínum sem fáir aðrir geðlæknar hafa“
Astrid Freisen
geðlæknir

Hún lenti þó ekki í miklum neikvæðum viðbrögðum, þau voru að langmestu leyti jákvæð. En sumir í sömu stöðu hafa lent í því að eiga erfitt með að fá ráðningu eftir að hafa sagt frá sínum geðhvörfum. „Eða jafnvel þurft að hætta á þeim sjúkrahúsum sem þeir hafa unnið á.“

Heldurðu að það hefði hjálpað til ef samtök sem þessi hefðu verið til staðar þegar þú veiktist? 

„Já, algjörlega,“ segir Astrid og nefnir að hún hafi sjálf sótt í reynslu sálfræðings til þess að skilja sína eigin betur, reynslu Kay Redfield Jamison – prófessors í klínískri sálfræði sem er sjálf með geðhvörf og opnaði sig um þau í sjálfsævisögunni Í róti hugans sem kom út á ensku árið 1995. 

„Það breytti leiknum fyrir mig að lesa þá bók,“ segir Astrid. „[Kay] er frábær fyrirmynd.“ 

Heilinn gleymir því versta

Astrid er sjálf að reyna sitt til þess að vera fyrirmynd og hafa samtökin sem hún stofnaði líka komið á fót sérstökum hópi fyrir ungt heilbrigðisstarfsfólk með geðhvörf. „Við erum að reyna að grípa þau snemma svo þau þurfi ekki að fara í gegnum alla skömmina, sjálfshatrið og efann. Það hefði verið frábært að hafa svona hóp,“ segir Astrid. 

Það var svo í gegnum þessa vinnu – að tala opinberlega um andleg veikindi og heilbrigðisstarfsfólk – sem Astrid fékk tilboð frá bókaútgefanda árið 2021 um að skrifa bók um sína reynslu. 

„Ég ætlaði að skrifa hana eftir að ég hætti að vinna,“ segir Astrid og hlær. Hún hafði alltaf verið skrifandi, skrifað dagbók og stuttar sögur. En hún hafði ekki áður lagst yfir reynsluna af geðhvörfunum í samfelldum texta. Enda hafði það ekki verið tímabært áður.

„Ég hefði ekki getað skrifað bókina 2012 eða 2014, ekki einu sinni 2016. Ég þurfti að vera sátt við greininguna mína og vera nægilega stöðug því það var erfitt að fara aftur í þessa reynslu. Ég hef bæði heyrt það frá skjólstæðingum mínum og upplifað það sjálf að heilinn okkar verndar okkur eiginlega. Hann á það til að gleyma því versta sem þú hefur gert. Þegar ég skrifaði bókina þá komu minningarnar aftur og það var erfitt.“

Astrid fór að velta því fyrir sér hvernig vinir hennar og fjölskylda myndu bregðast við. „Tengdamamma mín á bókabúð og það var alveg á hreinu að hún myndi lesa bókina. Ég hugsaði: „Ókei, ég vona að hún tali samt við mig eftir lesturinn!““

Ég býst við því að hún tali enn við þig? 

„Já,“ segir Astrid létt í bragði. 

KápanBók Astridar Freisen kom út á þýsku í byrjun síðasta árs. Hún vonar að það verði hægt að þýða hana á íslensku einn daginn.

Fluttu í ýkt myrkrið og bjarta sumarið

Sama ár og hún byrjaði að skrifa bókina flutti hún ásamt eiginmanni sínum, Florian, sem er menntaður sálfræðingur, til Íslands. 

„Við hjónin vorum búin að ákveða að fara í heimsreisu, við vorum búin að skipuleggja allt, við vorum búin að tala við yfirmenn okkar og leigusalann okkar. Svo kom Covid svo við gátum ekki farið,“ útskýrir Astrid.

„Hugmyndin var að á þessu ferðalagi myndum við endurhugsa það sem okkur langaði að gera. Þarna hafði ég unnið á sama spítala í 12 ár. Ég var að leita mér að einhverju nýju. Ég hafði verið að horfa til Svíþjóðar. Það var síðan bara fyrir tilviljun sem ég sá auglýsingu frá Landspítala þar sem verið var að leita að geðlækni fyrir utan landsteinana.“

Áhugi Astridar var vakinn. Hún sendi Florian skilaboð: „Þau eru að leita að geðlækni, hvað finnst þér?“

Honum leist vel á svo Astrid sótti um og fékk starfið eftir tvö viðtöl á Zoom, vegna þess að kórónuveirufaraldurinn var þarna í hæstu hæðum. Svo kom boð um starf.

„Ókei, förum til Íslands!“ ákváðu hjónin, þrátt fyrir að hafa aldrei komið hingað áður. 

Sagði yfirmönnum frá geðhvörfunum

Astrid greindi yfirmönnum sínum á Landspítala frá því að hún væri með geðhvörf í ráðningarferlinu. 

„Ég hugsaði: „Ef ég flyt til lands þar sem er bjart allan sólarhringinn, hvað gerist ef ég verð manísk eða þunglynd?““ segir Astrid um hugsunina á bak við það. Hún vildi því leggja öll spilin á borðið áður en til Íslands væri haldið, því að hún gat til að mynda ekki tekið að sér næturvaktir vegna geðhvarfanna. En það var ekki vandamál og hjónin fluttu hingað til lands og fóru bæði að vinna hjá Landspítala.

„Hún fer í hæstu hæðirnar og lægstu lægðirnar“
Orð vinkonu Astridar um Astrid mörgum árum fyrir greiningu

Þótt Astrid og  Florian líði mjög vel hér á Íslandi og þau hafi ekki hugsað sér að fara frá landinu í bráð þá hefur ýkt vetrarmyrkrið falið í sér áskorun.

„Vinir mínir sem hafa flutt hingað og verið hérna lengur sögðu að fyrsti veturinn væri ekki það slæmur en annar og þriðji veturinn væri það. Það er rétt. Síðasti vetur var mjög slæmur fyrir mig,“ segir Astrid.

„Sumarið er í lagi, ég fer bara í rúmið hvort sem er. Þegar klukkan er tíu og sólin er enn á lofti í herberginu okkar og Íslendingar eru bara að byrja að mála húsin sín þá þarf ég að fara í rúmið með svefngrímuna mína.“ 

Hún hefur þurft að breyta lífsstílnum sínum verulega síðan hún greindist með geðhvörf. „Ég lifi mjög venjulegu, leiðinlegu lífi,“ segir Astrid brosandi, leiðinlega lífið er ekkert slæmt í raun. Því fylgir stöðugleiki og vellíðan. 

Dýpri skilningur eftir veikindin

Slíku lífi stefna þau hjónin á að lifa áfram á Íslandi, í bili í það minnsta. Astrid er farin að skilja íslensku nokkuð vel þótt hún sé feimnari við að tala hana. 

„Sérstaklega því ég er svo mikill fullkomnunarsinni. Ég vil segja allt rétt og bera orðin rétt fram en það er ekki að fara að gerast,“ segir Astrid. 

Þó að hún hefði helst viljað sleppa við það að vera með geðhvörf vegna alls skaðans og sársaukans sem þau hafa valdið henni og hennar nánustu þá getur það skipt sköpum upp á tengingu við skjólstæðinga að hún eigi reynslu sem þessa á bakinu. 

„Ég deili reynslu með skjólstæðingum mínum sem fáir aðrir geðlæknar hafa,“ segir Astrid.

„Stundum held ég að þannig verði til dýpri skilningur og ég get búið til sterkari tengingu við sjúklinga sem eru mjög þunglyndir og finnst eins og allir hafi gefist upp á þeim. Ég veit hvernig það er að spyrja sig sífellt: „Hvernig get ég bundið enda á þjáninguna?“ Mér hefur liðið þannig og ég hef haft sjálfsvígshugsanir en þú getur komist yfir það. Það eru margir möguleikar til þess að halda áfram og með þessum hætti get ég skapað von.“ 

Í þessari grein var fjallað um sjálfsvígshugsanir. Þeim sem glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á: Upplýsingasíma heilsugæslunnar s. 1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s. 1717, netspjallið 1717.is og Píeta símann s. 552-2218.

Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s. 1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s. 552-2218.

Kjósa
24
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár