Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Stjórnvöld breyta frumvarpi um uppkaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga

Tek­ið hef­ur ver­ið til­lit til sumra þeirra at­huga­semda sem íbú­ar Grinda­vík­ur gerðu við frum­varp um upp­kaup á hús­næði þeirra, en alls ekki allra. Stjórn­völd telja að það eig­ið fé sem Grind­vík­ing­um býðst að fá sé vel nægj­an­legt „til þess að ein­stak­ling­ar geti al­mennt keypt íbúð til eig­in nota sem er í meg­in­drátt­um af sam­bæri­leg­um gæð­um og sú íbúð sem þeir eiga nú í Grinda­vík.“

Stjórnvöld breyta frumvarpi um uppkaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga
Flutt burt Grindvíkingar hafa farið inn í bæinn í hollum síðustu daga og sótt það sem eftir stendur af eigum sínum. Nær öllum er ljóst að ekki verður búið í bænum í fyrirsjáanlegri framtíð, og mögulega aldrei aftur. Mynd: Helgi Seljan

Þær 316 umsagnir sem bárust um frumvarp um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík á þeim fjórum dögum sem opið var fyrir athugasemdir um það í samráðsgátt stjórnvalda, hafa skilað því að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu, sem dreift var á Alþingi í kvöld. Í umsögnunum, sem voru að uppistöðu frá íbúum í Grindavík, kom fram að þeir styðji al­mennt til­gang frum­varp en að þeir væru veru­lega ósátt­ir við marg­ar þeirra leiða sem stjórn­völd vildu fara. „Mismunun“ sögðu margir. „Þetta er galið“ sögðu aðrir. „Þetta er ekki boðlegt,“ sögðu svo sumir.

Athugasemdirnar snéru meðal annars að því að mismunað væri á milli þeirra sem áttu mikið tjónuð hús og hinna sem áttu heilar eignir, síðarnefnda hópnum í vil. Krafa um að fólk þyrfti að eiga lögheimili í eign til að fá hana uppkeypta var líka harðlega gagnrýnd og sömuleiðis sú staða að ekki yrði hægt að færa hagstæð lán, til dæmis óverðtryggð lán á hagstæðum föstum vöxtum, yfir á næstu kaup viðkomandi. Sá tími sem íbúar áttu forgangsrétt á endurkaupum á húsnæði sínu í Grindavík eftir uppkaup, tvö ár, var líka harðlega gagnrýndur og þótti mörgum hann vera óskiljanlegur. 

Ýmsu mætt en búseturéttarhafar á sama stað

Samkvæmt frumvarpinu sem dreift var í kvöld verður áfram miðað við 95 prósent af brunabótamati og áfram er áætlaður heildarkostnaður 61 milljarður króna, sem skiptist milli banka sem lána 23 milljarða króna og ríkissjóðs sem, beint og óbeint, leggur fram 38 milljarða króna. 

Frumvarpið tekur hins vegar nú einnig til íbúðarhúsnæðis í eigu dánarbúa ef húsnæðið hefur verið nýtt til heimilishalds og nægilegt er að einn eigenda hafi átt lögheimili í íbúðarhúsnæðinu 10. nóvember 2023 til að húsnæðið falli undir frumvarpið. Þá eru til staðar heimildir til að víkja frá skilyrðinu um lögheimili í íbúðarhúsnæðinu þegar um tímabundnar aðstæður er að ræða, en fjölmargir gerðu athugasemd við þetta atriði í samráðsferlinu.

Mögulegt verður að selja íbúðarhúsnæði sem þegar hefur verið metið óviðgerðarhæft af Náttúruhamfaratryggingu Íslands til félagsins og bætur hafa verið greiddar vegna, en sá hópur sem átti slík hús stóð frammi fyrir því að bjóðast lægra hlutfall af brunabótamati en ríkið ætlar almennt að bjóða. Þetta tilboð mun þó ekki eiga við um hús sem hafa gjöreyðilagst að hluta eða í heild svo sem af eldi sem kviknar af völdum eldsumbrota en óbreytt er að mögulegt verður að afsala húsum í því ástandi til félagsins án endurgjalds.

Ákveðið hefur verið að bæta við ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að taka skuli afstöðu til þess, innan tveggja ára frá gildistöku laganna, hvort aðstæður séu til að lengja það tveggja ára tímabil sem fyrri eigendur eiga forgangsrétt að íbúðarhúsnæði. 

Til viðbótar við ofangreint komu fram athugasemdir um það frá nokkrum aðilum að ekki væri tekið tillit til aðstæðna þeirra einstaklinga sem ættu búseturétt hjá leigufélögum og að jafnframt að rétt væri að fella húsnæði í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga undir úrræðið. Frumvarpið hefur ekki tekið breytingum sem mæta þeim athugasemdum en í því segir að  taka megi „undir að staða búseturéttarhafa er að mörgu leyti áþekk stöðu þeirra einstaklinga sem eiga íbúðarhúsnæði.“

Verða að semja beint við bankann

Varðandi möguleikann á veðflutningi þá kemur fram í frumvarpinu að heimilt verði að semja við lánveitendur um úrlausn á áhvílandi skuldum vegna kaupa sem falla undir gildissvið frumvarpsins. Þar segir að horft hafi verið „til þess að ná samkomulagi við helstu lánveitendur í Grindavíkurbæ um heildarlausn vegna fyrirkomulags kaupa og fjármögnunar íbúðarhúsnæðis á svæðinu. Með slíku samkomulagi er stuðlað að einfaldri lausn sem lágmarkar heildarkostnað við verkefnið eins og kostur er í réttu hlutfalli við undirliggjandi áhættu.“

Með hliðsjón af þessu hafi verið unnið að útfærslu samkomulags við lánveitendur sem feli í sér endurfjármögnun lána sem hvíli á eignum sem falla undir frumvarpið. „Þar af leiðandi er ekki miðað við að ríkið eða félag á þess vegum muni greiða upp áhvílandi skuldir af þeim eignum sem verða keyptar heldur verða þær endurfjármagnaðar á það félag sem verður stofnað í kringum verkefnið. Í samkomulaginu felst jafnframt að lánveitendur fella niður persónulegar ábyrgðir einstaklinga af lánum sem verða yfirtekin af félaginu.“ 

Lánveitendur í Grindavík geti eftir sem áður ákveðið að viðhalda þeim kjörum sem viðsemjendur þeirra höfðu á fyrri lánum. Um er ræða sjálfstæða ákvörðun sem hver og einn lánveitandi getur tekið vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru uppi.“

Landsbankinn er stærsti lánveitandinn á svæðinu með um tólf milljarða króna í íbúðalánum. Í greinargerð frumvarpsins segir að íbúðalán lífeyrissjóðanna í Grindavík nema um það bil þremur milljörðum króba og afgangurinn, um sjö milljarðar króna, skiptist á aðra banka og ÍL-sjóð. Landsbankinn hefur þegar metið þörf á virðisrýrnun vegna náttúruhamfaranna, alls um 1,8 milljarða króna. 

Vel nægjanlegt til að kaupa sambærilegt

Í greinargerð frumvarpsins er lagt mat á það hvernig þær fjárhæðir sem íbúar Grindavíkur geta vænst að fá vegna uppkaupa á íbúðarhúsnæði þeirra muni nýtast þeim til að koma aftur undir sig fótunum á húsnæðismarkaði. Stjórnvöld meta að almennt séu þær upphæðir „vel nægjanlegar sem eiginfjárframlag vegna kaupa á íbúð annars staðar á landinu.“

Það er rökstutt með því að meðalfermetraverð sérbýlis í Grindavík hafi  verið svipað og annars staðar á landsbyggðinni árið 2023. „Meðalstærð íbúða í Grindavík í eigu einstaklinga er 158 fermetrar og meðalverð 140–170 fermetra íbúða á landsvísu var 86 millj. kr. í október-desember 2023. Þannig dugar um 45 millj. kr. eiginfjárframlag, eða sem samsvarar þeirri meðalgreiðslu sem býðst fyrir fullbúnar íbúðir í beinni eigu einstaklinga að frádregnum eftirstöðvum skulda samkvæmt frumvarpinu, fyrir meðalíbúð af svipaðri stærð og íbúðir í Grindavík eru jafnan miðað við tæplega 50 prósent veðsetningu á nýju íbúðaláni. Til samanburðar er meðalveðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána til neytenda nú um 57%.“ 

Gengist er við því að áhrif frumvarpsins verði misjöfn á einstaklinga eftir eiginfjárstöðu þeirra í íbúðum í Grindavík fyrir jarðhræringarnar.„ Það eigið fé sem fólk hafði eignast í íbúðum sínum ræðst m.a. af upprunalegu kaupverði eignarinnar, upprunalegu veðsetningarhlutfalli og niðurgreiðslu lána. Möguleikar einstaklinga á öllum þessum sviðum eru nátengdir almennri fjárhagsstöðu þeirra; markmið frumvarpsins er ekki að jafnsetja einstaklinga að þessu leyti.“

Í frumvarpinu er því haldið fram, með hliðsjón af ofangreindum upplýsingum, „að tilgreind greiðsluviðmið í frumvarpinu séu vel nægjanleg til þess að einstaklingar geti almennt keypt íbúð til eigin nota sem er í megindráttum af sambærilegum gæðum og sú íbúð sem þeir eiga nú í Grindavík að teknu tilliti til markaðsaðstæðna og hámarksveðsetningarhlutfalla lánveitenda.“

Þær tölur sem týndar eru til um meðalverð í rökstuðningi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem vann frumvarpið, eru þó ekki algildar sem rök fyrir því að Grindvíkingar verði í jafngóðum færum á að eignast húsnæðis á nýjum stað og þeir voru í Grindavík. Nefna má að meðal fasteignamat á íbúðareign í Reykjavík í ár er til að mynda 26 prósent hærra en í Grindavík og þar er hlutfall sérbýlis auk þess mun lægra en það var í Grindavík. Þeir sem ætla sér að setjast að í höfuðborginni þurfa því mörg hver að finna umtalsvert viðbótar eigið fé til að geta verið samkeppnishæf um húsnæði þar.

Kjósa
7
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár