Þegar ég var sautján ára varð ég fyrir vitrun í Kaupfélaginu á Ísafirði. Þetta var vorið 1996, skömmu eftir hádegi og ég var að leita mér að einhverju í svanginn. Ég hefði getað farið heim og étið úr ísskáp foreldra minna en af einhverjum orsökum stóð ég samt þarna, með tvö hundruð krónur í vasanum sem dugðu ekki fyrir ódýrasta réttinum á Pizza 67 handan götunnar (9 tommu hvítlauksbrauð; 350 krónur). Þá rak ég augun í núðlurekkann (beef, chicken, shrimp, 69 krónur) og ég hugsaði: ef máltíð kostar ekki meira en 69 krónur þarf ég aldrei að verða svangur. Og ef ég þarf ekki að óttast að verða svangur, hvað þá hungurmorða, eru mér allir vegir færir. Þá get ég eytt lífinu í hvað sem mér sýnist.
Síðar átti ég eftir að skilja að fátækt er margbrotnari og erfiðari viðfangs en mér fannst þarna við núðlurekkann, og það komu líka dagar þar sem ég átti alls ekki 69 krónur þótt ekki yrði ég hungurmorða. En eftir sat samt þessi lærdómur, þessi fullvissa, þessi blekking, þessi fífldirfska, að ég þyrfti ekki að óttast lífið. Þetta yrði alltílagi.
„Ef máltíð kostar ekki meira en 69 krónur þarf ég aldrei að verða svangur.“
Í kjölfarið ákvað ég að fyrst ég gæti gert hvað sem mér sýndist myndi ég fást við það sem mér fannst fjarstæðukenndast, heilagast og fallegast – ætlað heilagra og fallegra fólki en mér – og fór að skrifa af allri þeirri alvöru og ákafa sem í mér bjó.
Á tíunda áratugnum var ekki kennd ritlist í Háskóla Íslands – eða annars staðar – það var engin braut, enginn leiðarvísir, engin námslán í boði, og það að segjast vera rithöfundur var einhvern veginn meira í ætt við að segjast vera frelsaður, ef ekki hreinlega frelsari, en að læra og stunda eitthvert fag.
Ég – sem hafði aldrei einu sinni hitt rithöfund, í mesta lagi séð einn eða tvo álengdar og þá alls ekki í nægilegu návígi til að vera viss um að þeir væru manneskjur af holdi og blóði – hafði ekki hugmynd um hvernig maður færi að. Nema að ég vissi auðvitað að maður yrði að lesa og skrifa, og svo lærðist mér smám saman af lestri og skrifum að maður yrði líka að upplifa eitthvað – það yrði enginn rithöfundur sem ekki hefði upplifað eitthvað. Ekki kannski vegna þess að maður ætlaði að skrifa um reynslu sína heldur vegna þess að reynslan víkkar sjóndeildarhring manns, stækkar í manni hjartað og skerpir sýnina, og þetta eru þau verkfæri sem halda manni heiðarlegum í heimi skáldskaparins, sem og raunar annars staðar.
Ég nálgaðist markmið mitt einsog maður sem ætlar að finna rafmagn veður út á tún í þrumuveðri í þeirri von að verða fyrir eldingu. Á árunum þarna á eftir bjó ég með heimilisleysingjum í Genf, drakk með rónum í Þrándheimi, tíndi appelsínur á Kúbu, málaði togara í Tórshavn, húkkaði mér far um Evrópu með fjölkærri kærustu, þreif finnskar ferjur með afgönskum flóttamönnum, svaf í sófum í partíum, svaf í runnum, í vegaköntum, í húsasundum, helst bara þar sem ég örmagnaðist, þáði allt sem að mér var rétt í partíum, þáði alla lífsreynslu, varð ástfanginn af öllu sem brosti við mér og leið eiginlega aldrei betur en í almennilega sálarkremjandi ástarsorg (nema ef vera skyldi í heiftúðugum illdeilum við einhvern andlausan íhaldskurf). Og alla jafna aldrei með meira en 69 krónur í vasanum (að teknu tilliti til verðbólgu).
Ég var sannfærður um að ég væri ódrepandi og leitaði þess vegna allra leiða til þess að koma róti á sjálfan mig. Margt af þessu var náttúrlega einsog upp úr handbók fyrir afturkreistingsleg wannabe bóhem – og ég held ég hafi verið sæmilega meðvitaður um það sjálfur, eða eins meðvitaður og rétt rúmlega tvítugur strákur getur verið. Í öllu falli var ég með það á heilanum að það væri ekkert bogið við að vera wannabe, það sem væri andlausast alls, sagði ég ítrekað við alla sem heyra vildu, væri að vilja alls ekki vera neitt.
Þegar ég svo óhjákvæmilega eltist lærði ég aftur að óttast hitt og þetta. Á köflum hef ég hreinlega óttast allt, jafnvel ómerkilegustu hluti einsog að svara í síma, fara í kalda pottinn, ávarpa ókunnuga, syngja lag – og óskað þess að ég væri enginn og ekkert. Og þá skil ég ekki hvað varð af óttalausa manninum – sem dúkkar þá stundum upp og segir mér til syndanna, við erum í eilífum samningaviðræðum, ég og þessi maður, ég og þetta kaos. Stundum læt ég meira að segja eftir honum og svara í símann eða syng lag, þótt ég sé hræddur.
„Maður þarf ekki að sækjast eftir lífsreynslu til að verða fyrir henni.“
Um síðir áttaði ég mig síðan á því, sem hefði átt að segja sig sjálft, að maður þarf ekki að sækjast eftir lífsreynslu til að verða fyrir henni. Maður verður fyrir henni hvort sem maður vill það eða ekki. Það er ekki bara að stórviðburðir ráðist inn í líf manns algerlega óboðnir, heldur er lífsreynsla einfaldlega allt, alls staðar. Það þýðir ekki að maður þurfi ekki að vera opinn fyrir henni, þurfi ekki að taka á móti henni og gera sér far um að skilja lögun hennar. Og það þýðir ekki heldur að ævintýralöngunin sé eintómur hégómi. Það þýðir bara að lífsreynsla er ekki það sem maður gerir heldur það sem maður tekur eftir. Ef maður er vökull og hefur augun hjá sér finnur maður meira að segja stundum mestu lífsreynsluna í hinu allra hversdagslegasta, því sem virðist við fyrstu sýn vera svo ógurlega lítilvægt, einsog t.d. því að kaupa sér skyndinúðlur í hádegismat. Og þá er stutt í að maður verði hreinlega fyrir vitrun.
Athugasemdir (1)