Upphaf þessa máls má rekja til 24. ágúst 2020. Þann dag sendi varnarmálaráðuneytið frá sér tilkynningu. Tilkynningin var stuttorð en þar kom fram að þremur dögum fyrr hefði Lars Findsen, yfirmaður leyniþjónustu hersins, FE, verið sendur heim. Auk hans hefðu tveir háttsettir menn embættisins verið sendir heim og sömuleiðis Thomas Ahrenkiel, ráðuneytisstjóri varnarmálaráðuneytisins. Ekki fór á milli mála að eitthvað alvarlegt bjó að baki. Hér er rétt að nefna að þegar þetta gerðist hafði stofnunin TET (tilsynet með efterretningstjenesterne) sem hefur eftirlit með dönsku leyniþjónustunum skilað varnarmálaráðuneytinu langri og ítarlegri skýrslu. Sama dag, 24. ágúst 2020, kom fram í annarri tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu að í skýrslunni hefði verið greint frá alvarlegum misbresti í starfsemi FE. Vitað var að TET hafði um langt skeið unnið að sérstakri rannsókn á starfsemi og vinnubrögðum og TET sendi líka þennan sama dag frá sér stutta fréttatilkynningu. Þar sagði að FE hefði látið öðrum í té verulegt magn upplýsinga, eins og það var orðað, um danska ríkisborgara.
Starfsemi FE snýr að upplýsingaöflun erlendis, hernaðarlegu öryggi og netöryggi. Hin leyniþjónustan, leyniþjónusta lögreglunnar, almennt kölluð PET, gætir innra öryggis og sinnir upplýsingaöflun innanlands.
Fljótir að komast á sporið
Eftir fréttatilkynningaflóðið 24. ágúst 2020 sökktu danskir fréttamenn sér niður í málið til að finna út hvað væri á seyði. Og voru fljótir að komast á sporið.
Þremur dögum eftir að áðurnefndir fjórmenningar höfðu verið sendir heim, greindi Danska útvarpið, DR, frá náinni samvinnu leyniþjónustu hersins, FE, og National Security Agency, NSA, einni stærstu leyniþjónustu Bandaríkjanna. Samvinnan fólst í því að FE hafði heimilað NSA aðgang að flutningslínum tölvugagna (ljósleiðara) en aðgangurinn gerði NSA mögulegt að fylgjast með öllum rafrænum sendingum og samskiptum dönsku þjóðarinnar. FE hefur haft heimild danskra stjórnvalda til samvinnu við erlendar leyniþjónustur en þessi galopni aðgangur (orðalag danskra fjölmiðla) náði langt út fyrir þau mörk. Stjórnmálaskýrandi danska útvarpsins, DR, sagði að þetta mál yrði líklega mesti skandall í sögu danskrar leyniþjónustu, að minnsta kosti á síðari tímum. Seinna kom í ljós að hann hafði ekki skotið yfir markið með þessari yfirlýsingu.
Ritstjórum hótað
Snemma í desember 2021 voru ritstjórar dagblaðanna Berlingske, Jótlandspóstsins og Politiken, ásamt fréttastjóra danska útvarpsins boðaðir á fund yfirmanna leyniþjónustanna. Ritstjóri Weekendavisen og ritstjórar fleiri blaða fengu sams konar boð nokkrum dögum síðar. Á þessum fundum var ritstjórunum tilkynnt að fjölmiðlar gætu sætt hörðum refsingum fyrir að segja frá leynilegum upplýsingum sem varða þjóðaröryggi. Vitnað var í grein 109 í dönsku hegningarlöggjöfinni. Síðar voru átta blaðamenn boðaðir á fund hjá yfirmönnum leyniþjónustanna, fundarefnið það sama og hjá ritstjórunum.
„Á þessum fundum var ritstjórunum tilkynnt að fjölmiðlar gætu sætt hörðum refsingum fyrir að segja frá leynilegum upplýsingum sem varða þjóðaröryggi“
Ritstjórarnir voru ekki lengi að leggja saman tvo og tvo: eitthvað stórt væri í pípunum. Fjölmiðlarnir höfðu reyndar fengið veður af að einhverjir tengdir annarri leyniþjónustunni, eða báðum, hefðu verið handteknir, meira vissu þeir ekki.
Stóra bomban
Hinn 10. janúar 2022 þurftu margir Danir líklega að klípa sig í handlegginn og jafnvel líta á dagatalið til að fullvissa sig um að þá væri ekki að dreyma og að ekki væri kominn 1. apríl þegar þeir sáu forsíður fjölmiðlanna. Þar var nefnilega greint frá því að Lars Findsen, yfirmaður leyniþjónustu hersins, sæti í fangelsi, grunaður um að leka mikilvægum trúnaðarupplýsingum. Hann hafði ásamt þremur öðrum háttsettum embættismönnum úr leyniþjónustu hersins, FE, og leyniþjónustu lögreglunnar, PET, verið handtekinn með mikilli leynd mánuði fyrr, 8. desember.
Þremur þeirra sem handteknir voru var sleppt eftir yfirheyrslur en Lars Findsen úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í tilkynningu leyniþjónustunnar kom fram að hinir grunuðu væru taldir hafa lekið viðkvæmum trúnaðarupplýsingum. Refsing við slíku getur kostað 12 ára fangelsi. Lars Findsen var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 4. febrúar 2022, varðhaldið var síðar framlengt. Ekki var upplýst hvað það var sem hann var grunaður um. Hann losnaði úr gæsluvarðhaldinu 17. febrúar, þar sem hann hafði setið í 71 sólarhring, en tilkynnt að hann væri áfram grunaður og væri hér með vikið úr embætti yfirmanns leyniþjónustu hersins. Lars Findsen fór heim og þurfti ekki lengur að stara á veggina í fangelsisklefanum, gólffjalirnar heima tóku við, eins og einn dönsku fjölmiðlanna komst að orði.
Í september 2022 var gefin út ákæra á hendur Lars Findsen, fyrir að hafa greint frá ríkisleyndarmálum, sem ekki voru nánar tilgreind hver væru.
Claus Hjort Frederiksen
Hafi Danir átt erfitt með að trúa fréttunum af handtöku Lars Findsen, yfirmanns leyniþjónustu hersins, FE, 10. janúar 2022, komu fréttir fjölmiðlanna fjórum dögum síðar ekki síður á óvart. Þá greindi Claus Hjort Frederiksen, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, frá því að hann væri grunaður um landráð, nánar tiltekið brot á grein 109 í hegningarlögunum. Það er sama greinin og vitnað var til þegar ritstjórarnir voru teknir á teppið hjá yfirmönnum leyniþjónustanna og nefnt var fyrr í þessari grein.
Claus Hjort Frederiksen var tilkynnt að hann hefði opinberlega greint frá upplýsingum sem teljast varða þjóðaröryggi. Fréttaskýrendur töldu sig vita að brotið fælist í því að Claus Hjort Frederiksen hefði í sjónvarpsviðtölum staðfest, án þess þó að segja berum orðum að fréttir af hlerunum, sem fjölmiðlar hefðu greint frá, væru réttar. Rétt er að geta þess að fréttir af þessari „hleranasamvinnu“ komu fyrst fram árið 2013 og svo aftur ári síðar í gögnum sem uppljóstrarinn Edward Snowden lak til fjölmiðla.
Þungavigtarmaður
Claus Hjort Frederiksen hefur iðulega verið lýst sem „þungavigtarmanni“ í Venstreflokknum. Hann er 76 ára, hafði setið á þingi frá árinu 2001, gegnt ráðherraembættum í stjórnum Anders Fogh Rasmussen og Lars Løkke Rasmussen, seinast sem varnarmálaráðherra frá árinu 2016 fram að stjórnarskiptum árið 2019. Eftir kosningarnar það ár sat hann áfram á þingi en lýsti yfir að nýhafið kjörtímabil yrði hans síðasta. Hann sat sem sé á þingi þegar hann fékk tilkynninguna um að hann væri grunaður um landráð.
Ríkislögmaður vildi ákæra en ljón í veginum
12. maí 2022 tilkynnti Mattias Tesfaye dómsmálaráðherra að ríkislögmaður (rigsadvokaten) mælti með því að Claus Hjort Frederiksen yrði ákærður fyrir landráð. En þar var ljón í veginum: þingmenn og ráðherrar njóta þinghelgi, sem þýðir að ekki er hægt að ákæra nema meirihluti þingsins samþykki sviptingu þinghelgi.
Miklar umræður urðu um þetta í þinginu en eftir að ljóst varð að ekki væri þingmeirihluti fyrir að svipta Claus Hjort þinghelgi tilkynnti dómsmálaráðherra að ekki yrðu greidd atkvæði um málið. Málinu væri þar með lokið, að minnsta kosti í bili. Þinghelgi fellur niður þegar þingmennsku lýkur og þess vegna vaknaði sú spurning hvort ákærumálið yrði tekið upp þegar Claus Hjort sæti ekki lengur á þingi. Þótt kjörtímabil í Danmörku sé að jafnaði 4 ár var síðasta kjörtímabil aðeins rúm 3 ár og eins og Claus Hjort hafði tilkynnt hætti hann þá þingmennsku.
Ákærur gefnar út
Þótt margir hafi talið að mál Claus Hjort Frederiksen væri úr sögunni reyndist svo ekki vera. Hinn 21. febrúar síðastliðinn var gefin út ákæra á hendur honum. Tilkynnt var að réttarhöld í máli hans, og einnig í máli Lars Findsen, hæfust í nýliðnum október en því var svo frestað og tilkynnt að þau hæfust í þessum mánuði, nóvember 2023. Réttarhöld í máli þriðja mannsins (sem aldrei var nafngreindur), starfsmanns leyniþjónustu lögreglunnar, PET, áttu sömuleiðis að hefjast fljótlega. Sá var ákærður fyrir að leka viðkvæmum upplýsingum til blaðamanns, ekki þó í „hleranasamvinnumálinu“.
Hæstiréttur setti hælana í og sagði nei
Ákæruvaldið hafði krafist þess að réttarhöldin yfir Lars Findsen, Claus Hjort Frederiksen og PET starfsmanninum (sem ekki hefur verið nafngreindur) færu fram fyrir luktum dyrum. Ástæðurnar sagðar þær að um væri að ræða mál sem varðaði öryggi ríkisins. Jafnframt hafði áður verið farið fram á að Lars Findsen fengi ekki aðgang að ákæruskjalinu og öðrum gögnum varðandi málið. Lögum samkvæmt á hinn ákærði rétt á að fá ákæruskjalið afhent og Hæstiréttur setti ofan í við bæjarréttinn (lægsta dómstig) fyrir að neita Lars Findsen um aðgang að ákæruskjalinu. Varðandi kröfuna um að réttarhöldin færu fram fyrir luktum dyrum í bæjarrétti er skemmst frá því að segja að Hæstiréttur hafnaði þessum kröfum að mestu leyti, niðurstaðan vr birt 27. október sl.
Ákærurnar dregnar til baka
Þegar ljóst var að réttarhöldin yfir Lars Findsen, Claus Hjort Frederiksen og starfsmanni PET færu ekki fram fyrir luktum dyrum, nema í mjög afmörkuðum tilvikum, átti ákæruvaldið ekki margra kosta völ. 1. nóvember, fimm dögum eftir ákvörðun Hæstaréttar, tilkynnti ákæruvaldið að ákærurnar á hendur Lars Findsen, Claus Hjort Frederiksen og PET starfsmanninum væru dregnar til baka. Í tilkynningunni sagði að ákvörðunin væri vegna niðurstöðu Hæstaréttar um opin réttarhöld og þar gæti ýmislegt komið fram, varðandi starfsemi dönsku leyniþjónustanna sem ekki ætti að vera á vitorði almennings.
Niðurlæging ákæruvaldsins, þingið vill rannsóknarnefnd
Danskir stjórnmálaskýrendur segja málið allt algjört klúður og niðurlæging ákæruvaldsins og dómsmálaráðuneytisins algjör. Claus Hjort Frederiksen lét að því liggja í viðtali að ríkisstjórnin undir forystu Mette Frederiksen bæri mikla ábyrgð í þessu máli öllu, málið væri pólitískt. Hann nefndi sérstaklega ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, Barböru Bertelsen, sagði hana hafa sett af stað málið sem leiddi til ákærunnar gegn sér. Lars Findsen hefur sömuleiðis nafngreint ráðuneytisstjórann sem hann segir að hafi lengi haft horn í síðu hans og viljað losna við hann.
Löngu áður en ljóst varð að ákærurnar yrðu felldar niður hafði dómsmálaráðherrann fyrirskipað rannsókn á málinu öllu. Meirihluti þingmanna vill nú ganga lengra og hefur lýst sig fylgjandi sérstakri rannsóknarnefnd sem skili niðurstöðu sinni til þingsins, en ekki eingöngu til dómsmálaráðherrans eins og hann hafði gert ráð fyrir. Hvort af slíkri rannsókn verður er ókomið í ljós þegar þetta er skrifað.
Ljóst er að síðasta orðið hefur ekki verið sagt í einhverjum stærsta skandal í danskri réttarfarssögu. Skandal þar sem úlfaldi varð að mýflugu.
Í lokin er rétt að nefna að grein 109 í hegningarlögunum, sem nefnd hefur verið í þessari grein, var síðast beitt fyrir rúmum 40 árum. Brot gegn þessari grein getur varðað allt að 12 ára fangelsi.
Athugasemdir