Ímyndaðu þér að þú sért 33 ára fótboltakona. Þú varst að vinna stærsta titil ferilsins þíns með landsliðinu og í þokkabót skoraðir þú sigurmarkið. Á verðlaunapallinum ertu heiðruð með medalíu, knúsum, hrósum og hamingjuóskum frá háttsettu fólki innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Þegar þú kemur að 46 ára gömlum forseta knattspyrnusambands þíns heimalands tekur hann utan um þig og endar samskiptin svo með kossi á munninn. Þig langaði ekki að þessi koss ætti sér stað. Þú lætur vita á samfélagsmiðlum enda er fólk farið að spyrja spurninga. Þá kemstu líka að því að forsetinn greip um pung sinn í stúkunni þegar þið unnuð mótið. Forsetinn afsakar sig með því að segjast hafa hugsað til þín eins og dóttur sinnar þegar hann kyssti þig, en að hann ætli sko alls ekki ætla að segja af sér! Í staðinn heldur hann ræðu um að verið sé að fremja mannorðsmorð á honum því hann heldur að leikurinn endi eins og flestir leikir hingað til: Spænska feðraveldið 1, konur 0.
Nema hvað að feðraveldið virðist ekki ætla að vinna að þessu sinni. Úreltar afsakanir, léleg hegðun og karlrembur eiga ekki heima á knattspyrnuvöllum ársins 2023. Forsetinn hefur meira að segja fengið rauða spjaldið frá spænskum almenningi sem mótmælir hástöfum þessa dagana og krefst afsagnar hans.
Fólk út um allan heim sýnir nú Jenni Hermoso stuðning eftir að Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, kyssti hana á verðlaunaafhendingunni þegar spænska kvennalandsliðið vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil. Viðbrögð knattspyrnusambands Spánar við málinu hafa einnig verið gagnrýnd harðlega.
Hvað gerðist eiginlega?
Hermoso er ein fremsta knattspyrnukona heims enda mikill markaskorari. Hún spilar fyrir CF Pachuca í Mexíkó en hefur áður spilað með Barcelona, Atletico Madrid og Paris Saint-Germain. Hermoso á ekki langt að sækja knattspyrnuáhuga sinn þar sem afi hennar var markvörður Atletico Madrid á árum áður. Hún hefur unnið fjölda titla og spilað fyrir landsliðið í 11 ár.
Rubiales er sjálfur fyrrum leikmaður á Spáni og hefur gengt stöðu forseta spænska knattspyrnusambandsins í fimm ár. Hann er líka einn af varaforsetum UEFA. Stuttu eftir atvikið baðst Rubiales afsökunar í myndbandi sem birtist á samfélagsmiðlum. Þar sagði hann meðal annars: „Ég sé eftir einu atviki, því sem gerðist á milli mín og eins leikmanns liðsins. Við eigum gott samband, eins og ég á við aðra leikmenn. Ég gerði mistök og verð að gangast við þeim. Það var ekkert illt á bakvið það sem átti sér stað á þessu tilfinningaþrungna augnabliki. Það sem gerðist, gerðist og hugsanagangur minn er fremur hvatvís.“ Rubiales sagðist harma það að þetta atvik dragi athygli frá því stóra afreki sem liðið náði.
Viðbrögðin við afsökunarmyndbandinu létu ekki á sér standa. Mótmæli héldu áfram og forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, taldi afsökunarbeiðnina ekki nógu góða og sagði leiðina langa í átt að jafnrétti á Spáni. „Það sem við urðum vitni af er óásættanleg hegðun,“ sagði Sánchez við fjölmiðla.
Þær raddir sem kröfðust afsagnar Rubiales urðu háværari með hverjum deginum sem leið. Forseti UEFA, Aleksander Ceferin, kallaði hegðun samstarfsfélaga síns óviðeigandi en sagði það undir alþjóða knattspyrnusamtökunum FIFA að ákveða viðeigandi refsingu fyrir Spánverjann. Óþarfi væri að tvær stofnanir refsuðu Rubiales.
Spænska knattspyrnusambandið hélt svo neyðarfund þegar mótmælin urðu ákafari þar sem Rubiales bað drottningu Spánar afsökunar á að hafa gripið um pung sinn, en sagðist ekki ætla að segja af sér. „Finnst ykkur í alvöru að ég eigi þessar nornaveiðar skilið?“ spurði Rubiales áhorfendur hneykslaður. „Ég mun ekki segja upp,“ endurtók forsetinn við lófatak áhorfenda í salnum.
Hermoso svarar
Hermoso birti yfirlýsingu á miðlinum X, áður Twitter, um atvikið og viðbrögð Rubiales. Þar ítrekaði Hermoso að ekkert samþykki hefði verið gefið fyrir kossinum og því væri hún þolandi kynferðislegrar áreitni. „Ég var berskjölduð og fórnarlamb hvatvísrar hegðunar sem byggist á kynjamisrétti og kom eins og þruma úr heiðskíru lofti án þess að ég veitti samþykki,“ segir í tilkynningu Hermoso. Spænska knattspyrnusambandið brást við yfirlýsingu Hermoso með því að íhuga kæru á hendur henni fyrir ósannindi.
Viðbrögð sambandsins kölluðu á enn harðari þrýsting á afsögn Rubiales frá almenningi og knattspyrnufólki. Yfir 80 knattspyrnukonur, þar af allt landsliðið, og einn leikmaður karlalandsliðsins neita að spila fyrir Spán þangað til að Rubiales segir af sér. Þá hótaði knattspyrnusambandið því að lögsækja leikmennina fyrir að vilja ekki spila. Fjöldi spænskra leikmanna og þjálfara hefur tekið opinbera afstöðu með Hermoso í málinu, til dæmis með því að bera fána inn á leikvelli með orðunum: „Við stöndum með þér Jenni.“
Umdeildi landsliðsþjálfarinn Vilda
Þjálfari kvennalandsliðsins, Jorge Vilda, gagnrýndi hegðun Rubiales en hann á sjálfur undir högg að sækja vegna framkomu í garð knattspyrnukvenna. Á síðasta ári neituðu 15 knattspyrnukonur að spila fyrir landsliðið á meðan að Vilda væri þjálfari vegna slæmra áhrifa hans á líkamlega og andlega heilsu þeirra. Vilda var ekki sagt upp störfum, þvert á móti þjálfaði hann kvennaliðið áfram og fór með þeim á HM. Þrjár af þeim 15 sem neituðu að spila á síðasta ári voru í liðinu. Á mótinu sjálfu á Vilda að hafa gripið um brjóst eins starfsmanns kvennaliðsins.
Hingað til hafa Rubiales og Vilda staðið þétt við bakið á hvor öðrum en vinasambandið virðist vera að slitna ef marka má nýjustu sögusagnir. Spænska knattspyrnusambandið íhugar nú að segja Vilda upp störfum. Auk þess hefur næstum allt starfsfólk kvennalandsliðsins sagt upp vegna málsins en þau segjast hafa verið þvinguð til að klappa með Rubiales á neyðarfundinum og sitja í fremstu röð áhorfenda.
Viðbrögð FIFA voru að senda Rubiales í 90 daga bann á meðan málið er skoðað enn frekar. Hann má hvorki aðhafast í fótboltatengdri starfsemi né hafa samband við Jenni Hermoso á þeim tíma. Þetta reyndist móður Rubiales ofviða en hún ákvað að fara í hungurverkfall í mótmælaskyni og sat inni í kaþólskri kirkju í tvo daga áður en hún var færð á sjúkrahús og síðar heim.
Stjórnmálafólk á Spáni og aðrir háttsettir meðlimir spænska knattspyrnusambandsins hafa nú kallað eftir afsögn Rubiales sem gæti átt yfir höfði sér málaferli vegna brota á íþróttalögum. Frændi Rubiales gagnrýndi hann fyrir framkomu í garð kvenfólks og sagðist hafa orðið vitni af vafasamri hegðun hans.
Farið langt yfir strikið
Vanda Sigurgeirsdóttir er formaður Knattspyrnusambands Íslands og var á úrslitaleiknum. „Mér finnst leiðinlegt að þetta hafi skyggt á þetta frábæra mót og frábæra frammistöðu spænska landsliðsins. Hugur minn er hjá leikmönnum spænska liðsins og Jenni Hermoso af því að umræðan ætti að vera um þær og stórkostlegan uppgang kvennaknattspyrnu á Spáni og um allan heim. En í staðinn er fókusinn á þessa mjög svo óviðeigandi hegðun þar sem að er farið langt yfir strikið.“
Vanda segir það jákvætt hve hörð viðbrögðin við hegðun Rubiales hafa verið. „Það bara sést núna svart á hvítu að þetta er ekki í boði.“ Formaður KSÍ hrósar leikmönnum spænska liðsins fyrir samstöðuna sem þær hafa sýnt síðustu daga ásamt tugum annarra. „Mig langar líka að hrósa FIFA fyrir þessi viðbrögð að hann stígi til hliðar á meðan að rannsókn fer fram.“ Vanda segir ákvörðunina sýna að verið sé að taka málið alvarlega. „Þessi hegðun á bara ekki heima í fótboltanum og hvergi.“
„Þessi hegðun á bara ekki heima í fótboltanum og hvergi.“
Hún vonar að tekið verði stærra skref í átt að jafnrétti í kjölfar atburðarásarinnar en sjálf er Vanda formaður knattspyrnusambands innan UEFA. „Þar er verk að vinna í jafnréttismálum. Ég vona að þessi neikvæðu viðbrögð verði til þess að opna augu þeirra sem þar stjórna enn frekar að það er þörf á breytingum.“
Á árum áður spilaði Vanda fótbolta og hefur hún því fylgst með þróun mála í langan tíma. „Það er hægt að tala um að þetta skyggi fyrir og skemmi og allt það. En það er líka hægt að tala um þetta að þessi viðbrögð og skýru skilaboð um að svona gerir maður ekki og að þetta er ekki í boði, ef þetta var einhvern tímann í boði þá er það allavegana ekki árið 2023 og ég er bara ótrúlega ánægð með það.“
Athugasemdir