Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Íslensk stjórnvöld „verða að hætta mannréttindabrotum“

Ís­lensk stjórn­völd þver­brjóta al­þjóða­lög og mann­rétt­indi með því að vista meiri­hluta gæslu­varð­halds­fanga í ein­angr­un. Þetta segja mann­rétt­inda­sam­tök­in Am­nesty In­ternati­onal í nýrri skýrslu. Ís­lenska dóms­mála­ráðu­neyt­ið full­yrti að ein­angr­un væri ein­ung­is sam­þykkt af dómur­um í ítr­ustu neyð og að upp­fyllt­um ströng­um skil­yrð­um. Á tveggja ára tíma­bili höfn­uðu dóm­ar­ar fjór­um beiðn­um lög­reglu en sam­þykktu rúm­lega þrjú hundruð.

Íslensk stjórnvöld „verða að hætta mannréttindabrotum“
Vaknað til einskis Forsíðumynd skýrslu Amnesty International um einangrun gæsluvarðhaldsfanga á Íslandi, sem ber titilinn „Waking up to nothing“ Mynd: Amnesty International

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil þverbrotið alþjóðasamning Sameinuðu Þjóðanna gegn pyndingum og ómannúðlegri meðferð eða refsingu, með því að misbeita einangrunarvist gegn fólki sem sætir gæsluvarðhaldi. Meirihluti allra þeirra sem úrskurðaðir eru í gæsluvarðhald sæta einangrun, þrátt fyrir að alþjóðalög segi að henni skuli einungis beitt í algjörum undantekningartilfellum. Það heyrir hins vegar til undantekninga að dómarar hafni beiðni lögreglu um að grunaðir menn sæti einangrun.

Mannréttindasamtökin Amnesty International gagnrýna í skýrslu sem birt var í dag, það sem þau kalla, skaðlega og óréttlætanlega notkun einangrunarvistar í þágu rannsóknarhagsmuna á Íslandi.

Varla er til sú tegund frelsissviptingar sem gengur lengra en nærri sólarhrings innilokun án sambands við umheiminn, jafnvel vikum saman. Slíkt virðist fremur regla en undantekning í gæsluvarðhaldi hérlendis. 

„Misbeiting einangrunarvistar er gríðarlega umfangsmikil á Íslandi“
Lögfræðingur Amnesty International

Alþjóðastofnanir hafa til fjölda ára gert samskonar athugasemdir, nú síðast fyrir ári, þar sem bent var á að íslensk lög geri enn ráð fyrir því að hægt sé að vista fólk í einangrun í allt að fjórar vikur, áður en ákært er í málum þeirra. Það er tvöfalt lengur en þær tvær vikur sem alþjóðasamningar telja hámarkstíma. Fjölmargar rannsóknir og reynsla fólks sem reynt hefur á eigin skinni, sýna fram á skaðleg áhrif langvarandi einangrunar. 

Undanfarinn áratug hefur oft verið bent á að hér á landi sé hlutfall þeirra sem sæta einangrun í gæsluvarðhaldi mun hærra en annars staðar. Í rannsókn meistaranema í lögfræði, sem fjallað var um í fjölmiðlum árið 2015, kom til að mynda fram að árið 2013, hefðu 83 einstaklingar verið vistaðir í einangrun í gæsluvarðhaldi hér á landi á meðan 55 gæsluvarðhaldsfangar sættu einangrun í Danmörku. 

3 af 325
fjöldi skipta sem dómari hafnaði kröfu lögreglu um einangrunarvistun grunaðs manns í gæsluvarðhaldi á árunum 2016-2018

Lögregla fer iðulega fram á að einstaklingar sem sæta rannsókn vegna alvarlegra afbrota séu úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Í öllum tilfellum er þar um að ræða fólk sem hefur ekki hlotið dóm heldur er til rannsóknar vegna mögulegra brota. Í stað þess að vista viðkomandi í varðhaldi, í fangelsi innan um aðra og með þeim réttindum sem því fylgir, er meirihluti gæsluvarðhaldsfanga á Íslandi látinn dúsa í 22 tíma á sólarhring í einangrunarklefa og án samskipta við aðra fanga eða umheiminn. 

Á tíu ára tímabili, 2012-2021, sættu 825 manns einangrun í gæsluvarðhaldi hér á landi, þar af voru 10 þeirra á aldrinum 15-17 ára. Tæplega eitt hundrað einstaklingar voru lengur en 15 daga í einangrun á þessu sama tímabili, sem Amnesty segir brot á alþjóðlegu banni gegn pyndingum og ómannúðlegri meðferð, þó íslensk lög leyfi það. 

321 af 325
fjöldi skipta sem dómari samþykkti kröfu lögreglu um einangrunarvistun grunaðs manns í gæsluvarðhaldi á árunum 2016-2018

„Misbeiting einangrunarvistar er gríðarlega umfangsmikil á Íslandi, meðal annars á börnum og einstaklingum með fötlun. Íslensk stjórnvöld verða að tryggja viðeigandi úrbætur á hegningarlögum og bæta menninguna í réttarkerfinu til að binda enda á mannréttindabrot. Til eru önnur úrræði sem ætti að beita frekar,“ er haft eftir Simon Crowther, lögfræðingi á alþjóðaskrifstofu Amnesty International, í fréttatilkynningu í tengslum við útgáfu skýrslunnar.

Þar er bent á að íslensk stjórnvöld hafi undirgengist alþjóðasamninga um mannréttindavernd, þar sem einangrunarvist sé skilgreind sem eitt form pyndingar. Af þeim sökum hafi alþjóðastofnanir lagt aukna áherslu á það undanfarna áratugi að draga sem mest úr eða leggja alveg af beitingu hennar. Ómannúðleg meðferð sem einangrun dögum og vikum saman er, feli einnig í sér beinan og óbein þrýsting á einstaklinga að játa eða veita upplýsingar.

Sóplistinn íslenskir dómstólar

Á Íslandi er þröskuldurinn sem lögregla þarf að yfirstíga til að fá samþykki dómstóla fyrir vistun grunaðra í einangrun óvenju lágur. Óljósar forsendur, eins og þær að lögregla vísi til  „rannsóknarhagsmuna“ sem ástæðu, virðast einar og sér duga íslenskum dómurum, samkvæmt því sem greint er frá í skýrslunni.

Skoðun Amnesty á þessum úrskurðum og samtöl þeirra við dómara, rannsakendur og lögmenn sýna að sjaldan eða aldrei séu önnur og vægari úrræði skoðuð áður en einangrun er samþykkt. Lög kveða á um að hægt sé að beita vægari úrræðum eins og til dæmis síma- og heimsóknarbanni, án þess þó að viðkomandi sé einangraður einn inni í klefa sínum allan sólarhringinn.

78%
Hlutfall gæsluvarðhaldsfanga sem vistaður var í einangrun árið 2018

Skýrsluhöfundar vekja sérstaka athygli á því að í samtölum við ónefndan fulltrúa ríkissaksóknara hér á landi, hafi komið fram að oft sé krafist einangrunar yfir grunuðum, eingöngu til að halda viðkomandi frá símasamskiptum. Yfirvöld treysti því ekki að símabanni einu og sér verði framfylgt. Samkvæmt þessu er því augljóslega farið fram á margfalt meira íþyngjandi aðgerðir gegn viðkomandi en þörf er á. 

Hlutfall útlendinga „sláandi“

Skýrsluhöfundar segja „sláandi tölfræði“ hafa birst þeim þegar í ljós kom hve hátt hlutfall þeirra sem sæta einangrun séu útlendingar. Á undanförnum tíu árum hefur hlutfall erlendra ríkisborgara ítrekað verið um og yfir helmingur þeirra sem taka út gæsluvarðhald sitt í einangrun. Á sama tíma hefur hlutfall erlendra ríkisborgara sem taka út refsingar í fangelsum landsins, verið mun lægra eða á bilinu 19-23 prósent á ári. 

57%
Hlutfall erlendra ríkisborgara af þeim sem sættu einangrun árið 2018

Fólk með fatlanir og geðsjúkdóma virðist ekki undanþegið því að sæta einangrun hér á landi, enda skorti á að heilbrigðisástand fólks sé metið með fullnægjandi hætti áður og á meðan á einangrun stendur, að mati Amnesty.

Ráðuneytið tæpt ár að svara

Amnesty leitaði fyrst svara og upplýsinga frá ráðuneyti dómsmála með bréfi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þáverandi ráðherra, í júlí 2021. Þremur mánuðum síðar sendi Amnesty ítrekun og óskaði viðbragða við nýútkominni skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um bann gegn pyndingum, sem ítrekað hafði fyrri gagnrýni á óhóflega beitingu einangrunarvistar hér á landi.

56 dagar
Sá tími sem gæsluvarðhaldsfangi dvaldi lengst í einangrun árið 2015

Það var ekki fyrr en hálfu ári síðar, níu mánuðum eftir að fyrst var óskað upplýsinga úr ráðuneytinu, sem svar barst til Amnesty International, án þess þó að því fylgdi nema hluti þeirra upplýsinga sem óskað var eftir.

„Því miður reyndist ekki mögulegt að afla upplýsinga um úrskurði síðustu fimm ára, þar sem þá hefði verið nauðsynlegt að fara handvirkt yfir alla úrskurði, allra héraðsdómstóla landsins,“ sagði í bréfi dómsmálaráðuneytisins við beiðni Amnesty International um að fá yfirlit yfir hversu oft lögregla hefði óskað eftir því að grunaðir menn sættu einangrun í gæsluvarðhaldi síðastliðin fimm ár.

Eina tiltæka tölfræðin sem ráðuneytið gat boðið Amnesty var fyrir tveggja ára tímabil, frá október 2016 til október 2018. Þar sést að alls óskaði lögregla eftir því að dómari samþykkti að vista einstaklinga í einangrun í 325 skipti og í einungis fjórum tilvikum hafnaði dómari kröfu lögreglu en samþykkti í 321 skipti. Það þýðir að dómari féllst á kröfu lögreglu í 98,7 prósent tilvika.

Bréf ráðuneytisins verður ekki skilið öðruvísi en svo að stjórnvöld telji að heimildinni sé ekki misbeitt hér landi, heldur eingöngu beitt af ítrustu nauðsyn. Dómari tæki alltaf ákvörðun um hvort henni skuli beitt. Einangrunarvist heimili dómari einungis að uppfylltum ströngum lagaskilyrðum og eftir að hafa gengið úr skugga um að önnur vægari úrræði dugi ekki.

Þrátt fyrir þessar fullyrðingar kvaðst dómsmálaráðuneytið ekki geta veitt upplýsingar um hvernig dómstólar stæðu að því að vega og meta kröfur lögreglu um einangrun grunaðra manna. Dómsmálaráðuneytið vísaði sem fyrr segir, margsinnis til þess í svörum sínum til Amnesty að upplýsingar væru ekki tiltækar. Þetta átti til að mynda við um tölur yfir fjölda fólks með geðsjúkdóma sem vistaður hefði verið í einangrun á síðastliðnum fimm árum. Þær reyndust ekki til.  

Í fararbroddi Evrópuráðsins

„Stjórnvöld verða að horfast í augu við staðreyndir,“ er haft eftir Simon Crowther lögfræðingur Amnesty International í fréttatilkynningu vegna útgáfu skýrslunnar. Simon gagnrýnir að íslensk stjórnvöld hafi þverskallast við að fara að alþjóðasamningum og ábendingum alþjóðastofnana, á sama tíma og Ísland taki að sér að stýra stofnunum sem eiga að sjá til þess að aðrar þjóðir fari að þeim sömu reglum og Íslendingar brjóta. 

„Íslensk stjórnvöld brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum sínum á sama tíma og Ísland gegnir formennsku stofnunar sem ber ábyrgð á að koma í veg fyrir og útrýma pyndingum í Evrópu. Ísland verður að gera marktækar breytingar til að sporna gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Anna Á. skrifaði
    Þetta er núverandi ríkisstjórn og alþingi til háborinnar skammar.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár