Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Súkkulaði-avókadóterta

Súkkulaði-avókadóterta

Ég er hluti af vinkonuhóp sem kallast Háværurnar. Nafnið er auðskýrt - fimm blaðrandi söngkonur sem eiga það til að tala hvor aðra í kaf. Við höfum verið vinkonur í rúm tíu ár og í dag erum við dreifðar víðs vegar um Evrópu. Þegar við erum allar á Íslandi höldum við lítið ( en hávært) matarboð. Verkaskiptingin er alltaf sú sama: Tvær sjá um matinn, ein um salatið og ég sé um eftirréttinn. Sú fimmta kemur með góða skapið ( og stundum gos). Núna um jólin langaði mig að búa til nýjan eftirrétt og eftir að hafa áður gert nokkrar tilraunir með avókadó og súkkulaði þá datt mér í hug að avókadó-terta gæti verið málið. Hún er með engum hvítum sykri, auðvelt að gera glúteinfría og auðvitað vegan. Svona næstum því hollur eftirréttur.

Háværutertan

Botninn:

2/3 bolli haframjöl*  

2/3 bolli möndlur

2,5 dl döðlur

1 bolli kókosflögur

1/4 tsk salt

2 msk kókosolía

1 msk hlynsýróp

*til að hafa tertuna glútenfría er hægt að skipta höfrunum út fyrir aðrar hnetur, t.d. valhnetur eða kasjúhnetur.

Aðferð:

Ofninn hitaður í 180°C. Haframjöli, kókos og möndlum er blandað saman í matvinnsluvél. Döðlunum bætt út í, einni í einu. Að lokum er saltinu, kókosolíunni og hlynsýrópinu bætt við. Öllu blandað vel saman og fært yfir í lítið kökuform. Blöndunni þrýst þétt niður í botninn og örlítið upp meðfram hliðnum þannig að botninn verði eins og grunn skál. 

Því næst er stungið þvert yfir botninn með gaffli til að tertan blási ekki upp. Bakað í miðjum ofni í 10-15 mínútur eða þar til botninn hefur tekið gullinbrúnan lit. Botninn látinn kólna alveg áður en fyllingunni er smurt ofan á.

Fylling:

2 þroskuð avókadó

200 g suðusúkkulaði

2 msk af stórri kókosmjólk úr dós**

1 tsk hlynsíróp

1 tsk vanilludropar

Saltflögur

** ég nota aðeins þykka partinn af kókosmjólkinni og mér finnst best að geyma dósina í ísskáp yfir nótt eða frysta dósina í styttri tíma. Hægt er að nýta afganginn af þykku kókosmjólkinni til að skreyta tertuna. Kókosmjólkin er létt-þeytt og sprautað ofan á tertuna með sprautupoka og stjörnustút.

Aðferð:

Suðusúkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og leyft að kólna lítillega áður því er bætt við avókadó-blönduna. Avókadóunum, kókosmjólkinni, hlynsýrópinu og vanilludropunum blandað saman í  matvinnsluvél. Súkkulaðinu blandað saman við þar til blandan er slétt og kekkjalaus. Blöndunni hellt yfir kældan botninn. Nokkrum saltflögum stráð yfir og tertan skreytt með kókos-„rjóma“ 

Tertan geymd í kæli þar til hún er borin fram.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu