Skrokkalda Trójuhestur Landsvirkjunar og banamein Bjartrar framtíðar
Í morgun var birt skoðanakönnun sem staðfestir það sem hefur komið fram í umræðunni undanfarna daga að að þeir flokkar sem komu Sjálfstæðisflokknum til valda séu rúnir trausti. Það er t.d. ákaflega sorglegt að okkur sé gert að horfa upp á Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra leggja fram þingsályktun um rammaáætlun þar sem Skrokkalda í hjarta miðhálendisins verði færð úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk svo unnt verði að ráðast þar í virkjanaframkvæmdir á næstu árum.
Björt Ólafsdóttir ásamt öðrum talsmönnum Bjartrar framtíðar í kosningabaráttu síðustu þingkosninga lofuðu að standa vörð um miðhálendið og beita sér gegn því að þar yrði ráðist í virkjanaframkvæmdir. Við höfum heyrt rökin hjá virkjanasinnum og öðrum talsmönnum Landsvirkjunar að Skrokkölduvirkjun sé tiltölulega lítil virkjun og henni fylgi ekki mikið umhverfisrask. Þessi rök eru hinsvegar einmitt helstu rök unnendum hálendisins því svona lítil virkjun skiptir engu í rekstrar módeli Landsvirkjunar.
En málið er ekki svona einfalt því framkvæmdir þarna munu hafa vondar afleiðingar fyrir ásýnd hálendisins ef tillagan nær í gegn. Skrokkölduvirkjun er nefnilega aðgöngumiði Landsvirkjunar inn í miðju ósnortinna víðerna Íslands. Trójuhestur virkjanasinna. Hún er órjúfanlega tengd Sprengisandslínu og uppbyggðri hraðbraut þvert yfir landið með sjoppum og hótelum. Skrokkölduvirkjun og Sprengisandslína þurfa á hvor annarri að halda.
Að virkja uppi á miðjum Sprengisandi þar sem allra veðra er von, kallar líka á heilsársveg. Skrokkölduvirkjun er því ekki það smotterí sem látið er í veðri vaka, heldur mun gjörbreyta landslaginu með háspennulínum og uppbyggðum heilsársvegum. Í vinnu Rammaáætlunar er notast við matskerfi þar sem ósnortin svæði skora hátt. Það er því eitt af þeim atriðum sem stjórnmálamenn og Landsvirkjun byrja ætíð að ráðast á í þeim tilgangi að ná sínu fram.
Takist þeim að koma Skrokkölduvirkjun í gegn fellur matið á náttúruverðmætum í miðju landsins og eftirleikurinn virkjanasinna verður auðveldur við Þjórsárver, Hágönguvirkjun, háspennulínu yfir landið og upphleyptum þjóðvegi þvert yfir landið. Þær framkvæmdir mun valda ómetanlegum skaða á stærstu ósnortnum víðernum Íslands, reynda einnig Evrópu. Það mun koma í veg fyrir að við getum skilað þessum verðmætum til barna okkar og barnabarna.
Skrokkalda er á vinsælasta hluta Sprengisandsleiðar þar sem öræfakyrrðin er alger í heimi sands og jökla. Þetta útspil er árás að hjarta Íslands. Allir unnendur íslenskrar náttúru mótmæla og munu halda áfram að mótmæla þessum áformum. En þarna eru ekki bara hagsmunir náttúrunnar í húfi heldur ekki síður hagsmunir ferðaþjónustunnar og tekjuöflun þjóðarinnar. Ferðaþjónustan er orðin að öflugustu stoðinni í tekjuöflun þjóðarinnar.
Athugasemdir