Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Árás á Stjórnarskrá Íslands

Árás á Stjórnarskrá Íslands

Það staðfestist í hverri viku að sá sem skrifar Reykjavíkurbréf á í einhverjum  umtalsverðum erfiðleikum með sín mál. Það er svo sem af mörgu að taka en pistillinn í dag einkennist af kostulegri veruleikafirringu. Þar stendur í ramma :

„Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir verður seint talin flott fordæmi um siðlegheit í stjórnsýslu. Hún gaf aldrei aðra skýringu á árás sinni á Stjórnarskrá Íslands en þá „að hér varð hrun“ Það varð bankahrun um allan hinn vestræna heim. Hvers vegna datt engum í hug annarsstaðar að það þýddi að gera ætti árás á stjórnarskrá landsins?“

Lítum yfir þessar fullyrðingar. Jú það varð hrun á Íslandi, en það var langt umfram það sem gerðist annarsstaðar. Hér varð fullkomið kerfishrun. Allir bankar landsins féllu með Seðlabanka Íslands í broddi fylkingar, mig minnir að sá sem stjórnaði þessu öllu hafi einmitt verið sami maður og ritstýrir Morgunblaðinu.

Í hruninu féll gengi íslenska gjaldmiðilsins um 50% sem varð til þess að laun og kaupmáttur allra launamanna í landinu helmingaðist. Öll lán tvöfölduðust sem varð  til þess að liðlega 20 þús. heimili urðu gjaldþrota ásamt þúsundum fyrirtækja. Þar til viðbótar töpuðu mjög margir, þá sérstaklega fullorðnir jafnaldrar ritstjóra Morgunblaðsins, öllum sínum ævisparnaði því hann var geymdur í hlutabréfum bankanna og eignastýringum. Þetta gerðist ekki í öðrum löndum.

Reyndar var það svo að nokkrir innanbúðar menn virtust hafa vitneskju um hvert stefndi því þeir fengu lánaðan allan gjaldeyrisforða Seðlabankans og fluttu þannig allan sparnað sinn til aflandseyja. Og flutti það síðan heim með sérstökum bónus umfram aðra sparisjóðseigendur. Mig minnir endilega að einhverjir hafi minnst á eitthvað símtal í sambandi við þetta.

Það var ekki Jóhanna sem setti stjórnskrármálið á dagskrá. Það voru þeir stjórnmálaflokkar sem voru í ríkisstjórn fyrstu ár þessarar aldar, sem voru með á stefnuskrá sinni í gegnum tvær kosningabaráttur að það gengi ekki lengur að draga endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar. T.d. lét Framsókn gera mjög gott myndband þar sem þessu var lýst ítarlega og niðurstöður Stjórnlagaráðs síðar voru reyndar í ótrúlega miklu samræmi við þær óskir sem voru settar fram í myndbandinu. Í framhaldi af þessu samþykkti Alþingi að kalla sama þjóðfund um hvaða áherslur ætti að hafa í forgrunni hvað varðar breytingar á stjórnarskránni og Alþingi samþykkti síðan að stofna stjórnarskrárnefnd til þess að leggja faglegan grunn að þkomandi vinnu og þingheimur handvaldi síðan mjög góða sérfræðinga í þá vinnu.

Þessi nefnd starfaði í samvinnu við þáverandi ríkistjórn og tók saman 650 bls. skýrslu um hvað þyrfti að lagfæra í íslensku stjórnaskránni. Þar kom fram að gamla danska konungsstjórnarskráin væri úrelt og fjarri því að vera í samræmi við gildandi stjórnarskrár í þeim löndum sem Íslendingar vildu bera sig saman við. Þessar þjóðir höfðu allar á undaförnum áratugum uppfært stjórnarskrár sínar, en Ísland var enn með aldargamla danska stjórnarskrá sem hafði verið þýdd í snarhasti í lok seinni heimstyrjaldar.

Í framhaldi af niðurstöðu stjórnlaganefndar samþykkti Alþingi að gefa þjóðinni kost á því að tilnefna fólk í stjórnlagaráð og liðlega 500 einstaklingar gáfu sig fram. Síðan var kosið  milli þessara einstaklinga í opinni kosningu. Þegar sú niðurstaða lá fyrir fól Alþingi Íslands þeim 25 sem hlutu kosningu að vinna úr gögnum stjórnlaganefndar og áherslum 1.000 manna þjóðufundar drög að nýrri stjórnarskrá fyrir íslenska þjóðríkið. Jú Jóhanna var þá á þingi og hún samþykkti þessar tillögur ásamt yfirgnæfandi meirihluta Alþingis.

70% þeirra draga sem stjórnlagaráð lagði fram var eins og núgildandi stjórnarskrá, utan þess að málfar var lagfært til samræmis við núgildandi íslensku. Stór hluti þjóðarinnar skildi nefnilega ekki almennilega hvernig ætti að túlka það sem stóð í hinni gömlu snöggþýddu dönsku, enda hafði meirihluti Alþingis samþykkt hana á sínum tíma með þeim fyrirvara að stjórnarskráin yrði lagfærð innan mjög skamms tíma.

Hin 30% af tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar var uppfærsla á ákvæðum sem ekki voru í samræmi við þær uppfærslur sem höfðu verið gerðar á stjórnarskrám í þeim löndum sem Ísland vill bera sig saman við. Í þeim hluta var tekið á hvert væri skilgreint hlutverk forseta. Síðustu forsetar Íslands höfðu reyndar kvartað undan því að það væru ekki nægjanlega skýrar reglur um starfssvið þeirra í gömlu stjórnarskránni.

T.d. lenti einn af fyrrverandi forsætisráðherrum í deilum við þjóðina og þáverandi forseta um málfrelsi í landinu. Mig minnir einhvern vegin endilega að það hafi verið núverandi ritstjóri Morgunblaðsins.

Niðurstaða þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu varð sú að nauðsynlegt væri að setja í endurskoðaða stjórnarskrá Íslands ákvæði um heimild til þjóðarinnar um að hún gæti gripið  inn í svona deilur með þjóðaratkvæðagreiðslum. Það ætti ekki að vera á valdi forsetans eins að gera það þegar honum hentaði, eins og gerðist síðar. Tillögur stjórnlagaráðs féllu þannig algjörlega að því sem þjóðin hafði krafist. Stjórnlagaráð lagfærði einnig ákvæði um hlutverk og störf Alþingis og jók þingræði og minnkaði um leið ráðherraræðið, sem margir þingmenn og kjósendur sögðu að væri einfaldlega ekki í lagi.

Síðan var farið að beiðni þjóðarinnar um að það væri algjörlega klárt að það væri þjóðin sem ætti auðlindir landsins. Eins voru sett inn ákvæði um verndun náttúrunnar og auk þess að tekið var á endurteknum deilum um jafnræði atkvæða í kjördæmum landsins. Þessar breytingartillögur voru síðan bornar undir þjóðina og 67% hennar samþykkti tillögur Stjórnlagaráðs. Þær væru í fullu samræmi við áður framkominn vilja þjóðarinnar.

Aukinn meirihluti þjóðarinnar vildi sem sagt að gengið yrði í það breyta stjórnarskrá íslenska ríkisins í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar Alþingis og útfærslur stjórnlagaráðs kjósenda og um leið þeim fjölmörgu sérfræðingum sem höfðu starfað með ráðinu og nefndinni. Auk þess hafði öll þjóðin beinan aðgang að allri vinnu Stjórnlagaráðs og tók virkan þátt í þróun við endurnýjun stjórnarskrárinnar. Það var ekki Jóhanna einhendis sem stóð að þessu.

Þessi vinnubrögð íslensku þjóðarinnar við endurskoðun stjórnarskrár sinnar náðu heimsathygli og hafa verið umræðuefni á hverri ráðstefnunni á fætur annarri í háskólum víða um heim þar sem fjallað er um endurskoðun á stjórnarskrá og var t.d. á ráðstefnum í mjög virtum bandarískum háskólum fyrr á þessu ári.

Reyndar hefur því hins vegar verið komið þannig fyrir í íslenskum háskólum að þar er handvalið í panel þegar fjallað er um íslensku stjórnarskránna og þess gætt að stjórnlagaráðsliðar og samstarfsmenn þeirra fái ekki að taka til máls. Á þeim vettvangi hefur verið fjallað um stjórnaskrármál með sama hætti og gert er í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni