Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Áramótapistill um SALEK og „Skæðustu svikamyllu auðvaldsins.“

Áramótapistill um SALEK og „Skæðustu svikamyllu auðvaldsins.“

Um áramót er hefð að líta tilbaka samhliða spá um væntingar á nýju ári. Nú er uppi sú staða á vinnumarkaði að kjarasamningar allmargra stéttarfélaga hafa verið lausir í nokkra mánuði þ.á.m. aðildarfélaga BHM og framhalds- og grunnskólakennara.

Hvað varðar almenna markaðinn þá virkjast endurskoðunarákvæði gildandi allra aðildarfélaga ASÍ í febrúar og næsta víst að öllum kjarasamningum verði sagt upp og sé litið til yfirlýsinga stefnir í að það verði ekki samflot þannig að launamenn ætli sér að fara sömu leið Alþingi skóp fyrir þingmenn og æðstu embættismenn að hver hópur fyrir sig nýti sýna baráttustöðu til hins ýtrasta.

Í þessu sambandi er ástæða til þess að rifja upp að fyrir rúmu ári náðu aðilar á vinnumarkaði með aðkomu fjármálaráðuneytis samkomulagi um að stöðva svokallað höfrungahlaup, þetta samkomulega hefur verið nefnt SALEK samningur. Samningsforsendan er reyndar gömul tugga sem margir hafa sett fram eða allt frá því að sjálfstæð skráning krónunnar hófst þ. 13. júní 1922.

Fram að þeim tíma hafði íslensk króna jafngilt danskri en í dag er staðan sú hún jafngildir 0,5% af þeirri dönsku. Því var spáð í Verkalýðsblaðinu október 1933 að með sjálfstæðri krónu hefði verið sköpuð „Skæðasta svikamylla auðvaldsins.“

Allt frá lokum seinna stríðsins hefur ferill íslenskra kjarasamninga verið sá að nokkru eftir undirritun hefur gengi krónunnar verið látið síga. Þegar kom að næstu endurnýjun kjarasamninga var höfuðkrafan ávallt sú að kaupmáttur væri endurreistur með nokkurra tuga prósentu launahækkun. Á sama tíma og hinir dönsku félagar okkar sömdu um launahækkanir á bilinu 1.5-2.5% hækkun á ári sömdum við um allt að tífalt meiri hækkun á ári. Þrátt fyrir margfalt hærri launahækkanir hafa Danir ávallt haft vinninginn á okkur þegar litið er tilbaka og þróun kaupmáttar skoðuð.

Þessari stöðu ætluðu aðilar íslenska vinnumarkaðsins sér að ná með SALEK módelinu. Það þýddi vitanlega að þar með væri lokið við að raða öllum hópum vinnumarkaðsins í SALEK kommóðuna. Æðstu embættismenn og þingmenn áttuðu sig á því að þarna væri síðasti sjéns að ná sér í aukasneið og Kjararáð var í snatri falið að leita að nýjum viðmiðunum og það fann viðmiðanir sem engum innan verkalýðshreyfingarinnar hafði haft hugmyndaflug um að hægt væri að nýta til viðmiðunar hvað varðaði launahækkanir.

Í kjölfar úthlutunar Kjararáðs komu fram talsmenn allra stéttarfélagana í landinu og bentu á að almenningur myndi ekki sætta sig við minni hækkanir en Kjararáð hefði úthlutað. En eins og við vitum var æðstu embættismönnum, ráðherrum og þingmönnum úthlutað 45% launahækkun og ekki bara frá þeim degi sem úrskurður féll heldur eitt ár afturvirkt. Nokkuð sem hefur verið algjört bannorð í kjarasamningum launamanna.

Í þessari stöðu sáu ráðherrar og þingmenn tækifæri til þess að læsa öllum SALEK skúffunum. Þarm með væri búið að endurraða og ákveða upphagspunkt SALEK. Allir væru vinir og ætluðu að standa við SALEK loforðin. Þetta vinnulag er í svo óendanlega miklu samræmi við hugarheim íslenskra stjórnmálamanna. „Nú verður sko nýr tónn sleginn“ segir framkv.stj. samtaka fyrirtækjanna og forysturáðherrar nýju ríkisstjórnarinnar lýsa því yfir að þeir séu mjög ánægðir þessa stöðu.

Hvers vegna höfum við dregist 99.5% aftur úr dönsku félögum okkar á 90 árum? Svarið er óöguð efnahagsstjórn íslenskra stjórnvalda þar sem spilað hefur verið með íslensku krónuna. Kostnaður sveiflukennds gjaldmiðils okkar er að íslenskir raunvextir verða alltaf a.m.k. 3% hærri en dönsku krónunnar sem er fastengd við evruna. Þannig kostar íslenska krónan árlega aukalega heimilin 60 milljarða, atvinnulífið 75 milljarða, ríkið um 35 milljarða og sveitarfélögin um 8 milljarða.

Þá er ótalinn margvíslegur annar kostnaður krónunnar sem dregur lífskjör okkar niður. T.d. borgar íslensk fjölskylda amk tvöfalt meira en sú danska vilji hún koma yfir sig þaki. Íslenska fjölskylda greiðir fyrir amk 2 hús á meðan sú danska greiðir fyrir eitt hús.

Það jafngildir 6-12 ára vinnu og sé litið til meðalstarfsævi þá jafngildir kostnaður krónunnar allt að 25% aukasköttum á íslensk heimili launamenn umfram þau dönsku.

Íslensk fjölskylda er að skila allt að 25% lengri vinnuviku en sú danska til ætli hún sér að halda í þann kaupmátt sem við viljum hafa. Þetta kemur ekki fram þegar íslenskir ráðherrar draga fram meðaltölin sín. Þau segja í raun nákvæmlega ekkert um raunstöðu okkar. „Ef þú stendur með annan fótinn í sjóðheitu vatni og hinn í ísfötu þá hefur þú það að meðaltali bara ágætt.“ Segja ráðherrar okkar.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins lagði áherslu á þetta í gærkvöldi hjá Gísla Martein að við ættum ekkert að tala um það fólk sem hefur það slæmt hér á landi, það séu nefnilega svo margir sem hafi það svo gott og hafi ekki undan að skipta um eldhúsinnréttingar og fá sér nýja bíla og versla. Hún er reyndar ekki sú eina sem heldur þesu fram, það gera allir núverandi stjórnarþingmenn.

Hrun krónunnar árið 2008 varð til þess að 65% fyrirtækja landsins urðu gjaldþrota, skuldir tugþúsunda heimila stökkbreyttust og eignir þurrkuðust út. Hrunið var skapað af mistökum íslenskra stjórnmálamanna, eins og rakið er í Rannsóknaskýrslunni sem alþingismenn hafa komið fyrir í gleymskukommóðunni.

Mörg heimili misstu allt og munu aldrei ná sér aftur. Þetta getur gerst aftur á meðan krónan er til staðar. Eins kemur fram hér ofar hefur allt frá seinni stríðslokum reglulega skollið á okkur mikið gengisfall á 5-10 ára fresti. Allt bendir til þess sú þróun haldi áfram.

Það er venja okkar að spá um komandi ár í árslok. Hér er mín spá fyrir árið 2018 : Það stefnir í einhver hörðustu átök á vinnumarkaði sem menn hafa séð um langt skeið. Næstu samningar munu verða til tveggja ára og samið verður um 20% launahækkun á því tímabili. Auk þess fellst ríkistjórnin á að dregnir verði fram samningarnir sem verkalýðshreyfingin gerði við ríkið árið 1965 um stórtækt átak í byggingu félagslegra íbúða (Breiðholtið en þar voru byggðar 7.600 íbúðir).

Þar tókum við okkur loks til og rifum braggakampanna og settum jarðýtur á skúrana. Nú eru það ólögleg herbergi á efri hæði iðnaðarhúsnæðis og saggafulla kjallaraherbergi. Árið 2017 þegar allir hafa það svo gott á Íslandi segja stjórnaþingmenn.

Óska öllum lesendum pistlanna gleðilegs árs.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni