Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

Í fyrsta sinn vantreysta fleiri landsmenn Katrínu en treysta

Sitj­andi for­sæt­is­ráð­herra, Katrín Jak­obs­dótt­ir, hef­ur lengi not­ið vin­sælda og trausts um­fram það fylgi sem flokk­ur henn­ar mæl­ist með og stuðn­ings við rík­is­stjórn henn­ar. Alla henn­ar for­sæt­is­ráð­herra­tíð hafa fleiri lands­menn bor­ið mik­ið traust til henn­ar en þeir sem hafa treyst henni illa. Á því hef­ur orð­ið breyt­ing. Í nýj­ustu könn­un Maskínu segj­ast fleiri vantreysta Katrínu en treysta henni.

Í fyrsta sinn vantreysta fleiri landsmenn Katrínu en treysta
Hugsi Flokkur Katrínar Jakobsdóttur mælist með rétt um sex prósent fylgi í nýjustu skoðanakönnun Maskínu, ríkisstjórnarflokkarnir mælast með rétt rúmlega þriðjungsfylgi og nú liggur fyrir að fleiri landsmenn bera lítið traust til hennar en treysta henni vel. Mynd: Golli

Katrín Jakobsdóttir tók við sem forsætisráðherra haustið 2017. Yfirlýst markmið þeirrar óvenjulega samsettu ríkisstjórnar sem hún setti saman og hefur leitt síðan, skipuð frá vinstri yfir miðjuna og til hægri, átti að vera að ná stöðugleika til lengri tíma eftir mikinn pólitískan óróa sem birtist meðal annars í því að ríkisstjórn hafði ekki setið með meirihluta á þingi út heilt kjörtímabil í áratug. Í stjórnarsáttmálanum sagði enn fremur að ríkisstjórnin myndi beita „sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu“.

Mælingar sýndu að þetta hafði tekist, umfram það sem áður hafði gerst frá bankahruni. Eftir að fylgi ríkisstjórnarflokkanna dalaði þá jókst það aftur í kórónuveirufaraldrinum, þegar starf hennar breyttist í nokkurs konar hamfarastjórn, og skilaði því að Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengu samanlagt meira fylgi 2021 en flokkarnir fengu árið 2017. Í samantekt Maskínu fyrir Heimildina kemur líka í ljós að Katrín náði árangri sem var einstakur á meðal forsætisráðherra eftir bankahrun. Frá því að hún tók við starfinu og þangað til í nóvember í fyrra, í alls fimm ár, treystu mun fleiri Katrínu en vantreystu henni sem forsætisráðherra. Aðrir sem gegnt höfðu þessu æðsta embætti íslenskra stjórnmála frá árinu 2009 höfðu misst það innan nokkurra mánaða. 

En nú hefur orðið breyting á. Í fyrsta sinn síðan Katrín tók við sem forsætisráðherra treysta umtalsvert fleiri henni lítið en þeir sem segjast treysta henni vel. 

Traustið sem hvarf í hruninu

Traust á stjórnmál hrundi við bankahrunið. Í byrjun árs 2008 treystu um 42 prósent Alþingi. Ári síðar mældist traust á þjóðþinginu einungis 13 prósent. Afar illa gekk að endurheimta þetta traust og þeim stjórnmálamönnum sem tókst það tímabundið, voru oftast nær ansi fljótir að glata því aftur. 

Þetta er mjög sýnilegt þegar skoðaðar eru kannanir Maskínu og fyrirrennara fyrirtækisins á því hversu mikið eða lítið traust landsmenn báru til forsætisráðherra þjóðarinnar hverju sinni. Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra frá vorinu 2007 og þangað til snemma árs 2009, tapaði strax miklu trausti eftir bankahrunið. Í byrjun desember það ár sögðust 32 prósent treysta honum vel en rúmlega helmingur báru lítið traust til hans. Einum og hálfum mánuði síðar var vantraustið komið í 64 prósent og einungis rúmur fimmtungur treysti honum. 

Við tók vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Í febrúar 2009, þegar Jóhanna Sigurðardóttir, þá formaður Samfylkingarinnar, tók við sem forsætisráðherra mældist traust til hennar gríðarlegt. Alls sögðust 61 prósent treysta henni mikið en fimmtungur bar lítið traust til Jóhönnu. Sjö mánuðum síðar, í september 2009, hafði staðan snúist við og fleiri vantreystu henni en treystu. Það sem eftir lifði af forsætisráðherratíð Jóhönnu versnaði sú staða umtalsvert. Frá 2011 og fram að kosningum 2013 mældist vantraustið á hana í kringum 64 prósent en um 18 prósent aðspurðra sögðust treysta henni vel.

Metið hans Sigmundar Davíðs

Framsóknarflokkurinn, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, vann mikinn kosningasigur í apríl 2013. Hann myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og þjóðin virtist ánægð með að Sigmundur Davíð tæki við lyklunum að forsætisráðuneytinu. Í fyrstu mælingu sögðust um helmingur landsmanna treysta honum mikið en 29 prósent vantreystu Sigmundi Davíð. Hveitibrauðsdagarnir voru þó stuttir og níu mánuðum síðar var staðan orðin mjög sambærileg þeirri sem Jóhanna glímdi við þorra síns tíma sem forsætisráðherra. Í byrjun apríl 2016, eftir opinberun Panamaskjalanna, neyddist Sigmundur Davíð til að segja af sér embætti. Í könnun sem birt var daginn eftir afsögnina kom í ljós að 82 prósent þjóðarinnar treystu honum lítið. Einungis tíu prósent báru mikið traust til hans. Hvorki fyrr né síðar hefur jafn mikið vantraust mælst gagnvart stjórnmálamanni í könnunum Maskínu eða fyrirrennara þess fyrirtækis. 

Eftir kosningarnar 2016 var stjórnarkreppa sem endaði með því að skammlíf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forsæti Bjarna Benediktssonar tók við stjórnartaumunum snemma árs 2017. Hún sprakk í september sama ár, vegna uppreist æru-málsins, og var með eindæmum óvinsæl á meðan hún sat að völdum. 

Við þær aðstæður komst Katrín Jakobsdóttir til æðstu pólitísku metorða. 

Endurheimti traust en glataði því aftur

Þrátt fyrir að það fjaraði fljótt undan stuðningi við ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir að hún tók við, og fram að kórónuveirufaraldri, þá naut Katrín alltaf vinsælda og trausts langt umfram stjórnina sjálfa. Í apríl 2019, um einu og hálfu árið eftir að stjórnin tók við, sagðist rúmur helmingur landsmanna treysta henni vel en um 30 prósent báru litið traust til hennar. 

Það sem er líka merkilegt við forsætisráðherratíð Katrínar er að henni tókst að endurheimta traust eftir að það tók að dala. Frá lokum árs 2020 og til loka árs 2021 fór hlutfall þeirra sem sögðust treysta henni mikið úr 49  í 61 prósent. Síðan hefur leiðin þó legið hratt niður á við. Í nóvember í fyrra mældist traust til hennar 43 prósent og vantraustið var komið í 37 prósent. Í nýjustu könnun Maskínu, sem gerð var í nýliðnum mánuði, þá gerðist það svo í fyrsta sinn að fleiri segjast bera lítið traust til Katrínar sem forsætisráðherra en þeir sem segjast treysta henni vel. Vantraustið mælist 45 prósent á meðan að rétt rúmur þriðjungur, 34 prósent, segist treysta henni vel. 

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár