Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

„Alltaf gleðilegt að hafa kött til að klappa“

Katta­eig­end­ur deila því hvaða hlut­verki kett­ir sinna í fjöl­skyld­um þeirra og hvaða áhrif það hef­ur á heim­il­is­líf­ið að eiga kött. Kett­irn­ir eru mis­jafn­lega uppá­tækja­sam­ir en Hulda G. Geirs­dótt­ir rifjar upp harm­sögu lif­andi and­ar­unga sem kött­ur­inn Númi kom með inn á heim­il­ið.

„Alltaf gleðilegt að hafa kött til að klappa“
Jólaköttur Klíó skoðar jólatré áður en hún reynir að narta í birkið. Mynd: Arnþór Gunnarsson

Klíó er loðinn norskur skógarköttur sem býr á efstu hæð í fjölbýlishúsi í Kópavogi. Hún er inniköttur en hefur gott útsýni yfir nágrennið, eyðir miklum tíma úti á svölum og nýtur þess að leggja sig um alla íbúð. Klíó fæddist árið 2015 og fluttist inn á heimili nýju fjölskyldunnar sinnar sama ár. Strax sem lítill kettlingur veitti Klíó mikla gleði enda var hún fjörug, uppátækjasöm og forvitin. 

KlíóBragðar á blómum.

Núna, átta árum síðar, hefur hlutverk Klíóar í fjölskyldunni ekki breyst, hún er sami gleðigjafi og áður nema bara á annan hátt. Viðveran er hlý og veitir foreldrum hennar tilgang, sérstaklega þar sem aðrir fjölskyldumeðlimir eru flognir úr hreiðrinu. 

Klíó á í tíðum samskiptum við  fjölskyldumeðlimi með miklu mjálmi og snertingu. Henni er gjarnan lýst sem „prinsessu“ enda með ákveðinn persónuleika og sýnir þeim sem ekki mæta hennar kröfum litla athygli.

Þó að Klíó sé blíðasta skinn getur fokið í hana. Til dæmis ef henni er klappað of mikið eða ef hún borðar eitthvað ætlað tvífætlingum, eða blóm, og verður illt í maganum. Þá eru klærnar úti og best að halda sig í hæfilegri fjarlægð. Höfundur þekkir það vel af eigin reynslu að vera klóruð af Klíó og það er hvorki gaman né gott.

MorgunteygjurKlíó finnst gott að teygja úr sér í sófanum og láta fara vel um sig.

Í hnotskurn er Klíó myndbirting nútíma kattarins sem er álitinn hluti af fjölskyldunni og spilar stórt hlutverk í heimilislífinu.

Á heimilum á víð og dreif um landið er að finna ketti eins og Klíó sem auðga líf mannfólks á einn eða annan hátt. Heimildin náði tali af nokkrum þeirra.

Númi breytti andrúmsloftinu

Í heimsfaraldrinum Covid-19 stakk Hulda G. Geirsdóttir, dagskrárritstjóri Ríkisútvarpsins, upp á því við eiginmann sinn að þau fengju sér kött. Á heimili Huldu eru tvö ungmenni sem, líkt og svo mörg önnur, höfðu lítið gaman af því að vera mikið föst heima fyrir. 

„Við vorum að velta því fyrir okkur hvað við gætum gert til að létta stemninguna. Ég impra á því við manninn minn hvort við ættum að skoða það að fá okkur kött núna. Hann tekur vel í það og sér fyrir sér að það geti alveg gert góða hluti,“ greinir Hulda frá. 

NúmiHefur verið hluti af fjölskyldu Huldu í þrjú ár núna. Þau geta ekki ímyndað sér lífið án hans.

Á svipuðum tíma sá hún að köttur kunningjakonu hennar hafði eignast kettlinga. Hulda hafði samband og stuttu seinna var svartur loðinn kettlingur mættur á heimilið og fékk nafnið Númi. 

„Hann er eins og lítið ljón og er, til að toppa þetta, algjörlega frábær köttur. Hann er vandræðalaus og fer ekki einu sinni úr hárum.“

Eftir að Númi varð hluti af fjölskyldunni tók Hulda eftir mikilli breytingu á heimilislífinu. 

„Það var algjör breyting á andrúmsloftinu. Núna erum við búin að eiga hann í þrjú ár og það er enn þá þannig að þegar einhver kemur heim og opnar dyrnar þá er spurt: Hvar er Númi? 

Það kemur jákvæð stemning og eftirvænting upp í staðinn fyrir að koma heim á þessum erfiða og þunga tíma sem Covid var og byrja strax að kvarta.“

Hulda lýsir Núma sem blíðum og góðum ketti sem gefur mikið af sér og hefur smollið inn í fjölskylduna. „Hann hefur einhvern veginn bætt líf okkar af því að það er svo gefandi að vera með gæludýr. Þau láta manni líða vel og hann er skemmtilegur, sætur og fyndinn köttur, eins og flestir kettir. Við eiginlega skiljum ekki hvernig við fórum að áður en hann kom til sögunnar, hvernig við gátum beðið svona lengi eftir honum.“

„Við eiginlega skiljum ekki hvernig við fórum að áður en hann kom til sögunnar, hvernig við gátum beðið svona lengi eftir honum“
Hulda G. Geirsdóttir

Úti er ævintýri

Aðspurð hvort eitthvert uppátæki Núma standi upp úr frá síðustu þremur árum rifjar Hulda upp einn eftirminnilegan morgun. Á þeim tíma hafði Númi tekið upp á því að færa fjölskyldunni gjafir á borð við mýs og fugla. 

Sonur Huldu var einn heima að undirbúa sig fyrir vinnuna þegar hann varð var við trítl fyrir utan baðherbergið. 

Hulda og NúmiSaman á góðum sumardegi.

„Hann kíkir fram og þá er þar lifandi andarungi á hlaupum. Sonur minn hringir í mig og ég get náttúrlega ekki svarað því ég er í beinni útsendingu í útvarpinu.“

Þá var pabbi kallaður út. Maður Huldu brunaði hið snarasta af vinnustað sínum í Hafnarfirði heim í Fossvoginn og hóf björgunaraðgerðir. 

Hann hringdi í Húsdýragarðinn til að ráðfæra sig um hvað væri best að gera fyrir ungann þar sem engar endur voru í nágrenni við húsið og því óljóst hvaðan Númi hafði náð honum. 

„Þau segja við hann að það sé langbest að fara með ungann þangað sem eru endur og sleppa honum í áttina að hóp af ungum. Mömmurnar taka ungana yfirleitt að sér og þeir fá að fljóta með.“

Með ungann í skúringafötu í bílnum keyrði eiginmaður Huldu að Kópavogslæk. Þar var hópur af leikskólabörnum sem fylgdust með björgunaraðgerðinni. Í læknum var andamamma með hóp af ungum með sér. „Hann setur ungann út í sem fer í halarófuna og þetta lítur vel út,“ segir Hulda og stoppar andartak í frásögn sinni.

„En þá kemur mávur svífandi, fer beint niður, grípur ungann og étur hann í heilu lagi.“

Örlög ungans voru því ráðin. Númi hefur ekki komið heim með neitt dýr síðan, hvorki lifandi né dautt. Hulda setti líka á hann tvær bjöllur til að reyna að koma í veg fyrir fleiri uppákomur af þessum toga. „Númi er eins og lítill jólasleði þegar hann er á ferðinni og fer ekki framhjá manni.“ 

Fjórir kettir

„Mér finnst alveg rosalega notalegt að hafa kött í kringum mig og þau gefa mér helling,“ segir Áslaug Sigvaldadóttir en á hennar heimili á Snæfellsnesi eru fjórir kettir, tvær læður og tveir fressar. 

„Það er svo skemmtilegt við þetta að það er enginn eins og þeir hafa allir sína hentisemi,“ segir Áslaug. „Það er ekki sofið á sama stað og ekki talað við mann á sama máta.“

„Það er svo skemmtilegt við þetta að það er enginn eins og þeir hafa allir sína hentisemi“
Áslaug Sigvaldadóttir

Elstur er Gosi, grábrúnn og bröndóttur. „Gosi er mikill höfðingi og mjög klár,“ útskýrir Áslaug og rifjar upp skemmtilega minningu. „Á haustin færði hann mér eina mús hvern seinnipart. Það heyrðist alltaf ákveðið mjálm fyrir utan þegar hann var að láta mig vita að hann væri kominn með mús handa mér. En svo núna er hann svo til hættur að fara út. Fer bara á tyllidögum þegar það er gott veður.“

Næstelst í aldursröðinni er Hel, skjannahvítur 10 ára gamall köttur, nefnd í höfuðið á lagi Skálmaldar. „Hún er ofboðslega falleg en uppáþrengjandi og vill helst vera ofan á tölvunni hjá manni.“

Þriðja er skógarkötturinn Gæfa. Hún hefur afar gaman af því að klifra í trjám á sumrin en á erfitt með feldinn í snjónum því í honum myndast snjóboltar á veturna. 

Kettirnir fjórirGæða sér á blautmat.

Yngstur er hinn appelsínuguli fjögurra ára gamli Yoda, nefndur í höfuðið á græna lærimeistaranum úr ævintýrakvikmyndunum Stjörnustríð. Áslaug tók hann að sér þegar hún sá að hann vantaði heimili eftir að hafa fundist með brunasár á öðrum fæti í Keflavík. Hann er neðstur í goggunarröð heimilisins en þykir gaman að æsa hina kettina upp með leik og hoppum.  

Ég byrja hvern einasta morgun á því að klappa öllum köttum. Ég geng á röðina og það fá allir klapp og að teygja úr sér og mjálma á mann.“ Áslaug bætir því við að kettir geti einnig veitt gleði þegar þungt er yfir fólki. 

„Ég hugsa það að á meðan manni líður ekkert rosalega vel þá er alltaf gleðilegt að hafa kött til þess að klappa.“

„Ég hugsa það að á meðan manni líður ekkert rosalega vel þá er alltaf gleðilegt að hafa kött til þess að klappa“
Áslaug Sigvaldadóttir

Dýragrafreitur

Áslaug á ekki langt að sækja áhuga sinn á köttum. „Amma var svona kisukelling. Gaf villiköttunum í Vesturbænum. Þeir komu í garðinn hjá henni og fengu að borða þrátt fyrir að hún væri með kött sjálf. Þetta er eiginlega í blóðinu að vera fyrir ketti, meira en fyrir hunda.“

Áslaug ólst því upp í kringum ketti en það var hennar fyrsti köttur á fullorðinsárum, Keli, sem skildi eftir sig langvarandi loppufar í hjarta hennar. „Hann lifði í 18 ár, var orðinn vel gamall og var hjartað mitt.“

Sorgin sem fylgdi því að kveðja Kela var mikil en Áslaug jarðaði hann í trjálundi rétt hjá húsi sínu. Hún segist vera komin með hálfgerðan dýragrafreit, bæði með sínum eigin dýrum og dýrum annarra. „Þarna eru þrír kettir frá mér, tveir frá dóttur minnir og einir þrír, fjórir hundar líka, naggrísir, páfagaukar og alls konar.“

Áslaug lýsir Kela sem stórum og miklum ketti með skemmtilegan karakter. Hann hafði sérstakt dálæti á pönnukökum og kleinum. „Einhvern tímann hafði ég lagt disk ofan á pönnukökudiskinn. Svo sá ég hann ýta efri disknum ofan af til að ná sér í pönnuköku,“ segir Áslaug og hlær léttilega. 

Með átta kettlinga

Um þessar mundir er Kristín Bjarnadóttir með átta Burmilla-kettlinga á sínu heimili sem og þrjá fullvaxta ketti. „Þetta er dásamlegt og svo gott í hjartað. Það er svo mikil gleði og hamingja,“ segir Kristín aðspurð hvernig það sé að vera með kettlingana átta á heimilinu. „Þetta eru svo góð dýr. Þeir eru ungir og lífsgleðin er svo rosaleg.“

Kettlingarnir áttaKristín segir það yndislegt að vera með kettlingana á heimilinu þangað til að þeir fara til nýrra eigenda.

Kettlingarnir þurfa þó mikinn svefn og sofa í kringum 20 tíma á dag. „Það er rosa gaman í svona 33 mínútur og svo er bara sofið,“ segir Kristín glöð í bragði. 

Móðir kettlinganna er kisan Tuv sem kom með Kristínu frá Noregi þar sem hún bjó þegar hún kynntist tegundinni fyrst. Kristín hefur átt ketti allt sitt líf og þekkir því ekki annað en að vera með kött á heimilinu. Hún segir Brumilla-tegundina hins vegar bestu gæludýr sem hún hefur kynnst og er eftirspurnin eftir slíkum kettlingum mikil. Fimm af kettlingunum átta eru þegar komnir með heimili. 

Kristín tekur strax eftir því að kettlingarnir eru með ólíka karaktera. „Þeir eru allir ofboðslega blíðir, góðir og mannelskir. Svo er einn sem er aðeins meiri gaur, einn sem er matargat og einn sem þarf alltaf að liggja á bakinu.“

Tuv var innan við þrjá tíma að gjóta kettlingunum átta. Kristín var henni til halds og trausts í gegnum fæðinguna.

„Ég hef eignast börn sjálf þannig að þetta er ósköp svipað ferli. Maður upplifir að þetta sé þeim auðveldara en ég sá að læðan þurfti rosa mikið á mér að halda í fæðingunni. Alveg eins og ég þurfti á manninum mínum og mömmu minni að halda í fæðingu þá vorum við saman í þessu. Þetta var svolítið fallegt. Það voru falleg tengsl.“

Sjálfboðavinna í þágu katta

Ekki eru allir kettir sem finna sér framtíðarheimili strax við fæðingu. Kattavinafélag Íslands var stofnað árið 1976 eftir að Svanlaug Löve hafði í tvö ár bjargað kisum af götunni. „Þá var grunnurinn að þessu húsi gerður,“ útskýrir Hanna Evensen, rekstrarstjóri Kattholts. 

Hanna EvensenRekstrarstjóri Kattholts segir það fallegt að sjá ketti velja sér eigendur.

Hún segir alla vinnu hússins hafa farið fram í gegnum sjálfboðavinnu og tekur sem dæmi störf húsvarðarins sem er kominn yfir áttrætt.

„Hann er svo mikil hetja og hógvær. Hann þiggur aldrei laun fyrir vinnuna sína en kemur allavega einu sinni í viku til að taka pappa og fara með á haugana. Svo lagar hann ljósin, ofnana og allt saman í húsinu.“ 

Kattaathvarfið og hótelið var á sínum tíma byggt í smáum skrefum. Hugmyndin var sú að húsinu væri skipt niður í nokkur mismunandi rými. Þá eru til dæmis ógeldir fressar í öðru rými en læður.

„Ef við finnum kött úti á götu að þá er hann settur í eitt rými þangað til að við erum búin að ormahreinsa hann. Þá getum við séð atferlið hans og eftir það sett köttinn í rými sem hentar honum.“

Auk þess að taka á móti týndum kisum og finna þeim nýtt heimili þjónustar Kattholt kattaeigendur sem þurfa pössun fyrir kisurnar sínar. „Við fáum bara inn kisur sem eru bólusettar, ormahreinsaðar og geldar. Þá geta þær verið saman í rými. Þetta er allt útpælt og reynslan hefur kennt okkur hvernig á að gera þetta,“ segir Hanna. 

Mikið er lagt upp úr því í Kattholti að þjónustan sé persónuleg. Við höfum verið að einbeita okkur svolítið að því að hafa vinnuna gegnsæja fyrir eiganda sem skilur kisuna sína eftir og er í mörgum tilvikum barnið fyrir hann.

Eigendur geta nálgast myndir og myndbönd af köttum sínum til að sjá hvernig þeim líður. Einnig byrja allar kisur á þriggja til fimm daga pössun til þess að hægt sé að fylgjast með líðan og matarlyst. Ef allt gengur vel getur kisa komið aftur í lengri tíma. Einnig eru gerðar kröfur um að kettir séu bólusettir árlega og ormahreinsaðir. 

Leit að nýju heimili

Strangt til tekið er týndur köttur sem dvalist hefur í Kattholti í 48 klukkutíma orðinn þeirra. Hanna segir starfsfólk þó setja sig í spor fólks sem lendir á spítala, var með köttinn í pössun, er erlendis eða slíkt.

Kettlingur í KattholtiÞessi kettlingur er kominn með framtíðarheimili en er á Kattholti þangað til hann fer til nýrra eigenda.

„Við erum að gefa fólki séns í alveg sjö til fjórtán daga. Á þessu tímabili erum við að ormahreinsa og kynnast kettinum. Ef það ber sig enginn eftir kettinum og hann er ekki örmerktur að þá auglýsum við hann eftir 14 daga. Þá fer í gang heilsufarsferli.“

Sú ákvörðun að taka að sér kött á ekki að vera léttvæg enda getur það verið skuldbinding til 18 eða 20 ára. Þau sem ættleiða kött koma einu sinni eða oftar í Kattholt í skoðun að heimsækja köttinn. Hanna segir það koma fyrir að kötturinn velji sér sjálfur eiganda. 

„Það er eitt það fallegasta sem maður verður vitni að. Þá kannski kemur sá sem vill ættleiða kött inn í rýmið og það er köttur sem kemur til hans, leggst eða hoppar í fangið. Maður sér að kötturinn vill bara vera hjá þessum aðila.“

Hún segir það fallegt augnablik þegar fólk áttar sig á því að kötturinn sé að velja það og að tenging sé til staðar. 

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár