Þessi grein birtist fyrir rúmlega 8 mánuðum.

„Afbragðsfallegir“ flækingar fylla garða

Fugla­vin­ir hafa vart und­an við að setja epli og ber út í garða sína til að seðja hópa af góð­um gest­um sem eru komn­ir hing­að í æt­is­leit, lík­lega frá Skandi­nav­íu. Silkitopp­urn­ar fögru hafa und­an­farn­ar vik­ur sést víða um land.

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að setja inn fleiri silkitoppumyndir en hér kemur samt ein til viðbótar, tekin í fyrradag á Fáskrúðsfirði,“ skrifar fuglavinur á vinsæla Facebook-síðu þar sem fólk deilir sögum og myndum af fuglum í íslenskri náttúru.

„Þær eru nú ansi fallegar blessaðar silkitoppurnar,“ skrifar annar og deilir mynd af þeim úr garðinum sínum á Selfossi.

Þær eru líka í Reykjavík. Húsavík. Akureyri. Ólafsfirði. Hafnarfirði. Akranesi. Borgarnesi. „Garðpartí,“ skrifar kona í Kópavogi og birtir myndband af fjölda silkitoppa að narta í epli í garðinum hennar.

Myndirnar sem þessari grein fylgja tók Veronika Bjarnardóttir í Reykjavík.

Þessi litskrúðugi fugl, silkitoppan, hefur því glatt fjölda landsmanna síðustu vikur, með grábleika toppinn sinn á höfði og gulum, svörtum og hvítum vængjum sem oft eru líka með einkennandi skærbleikum lit. Þær eru komnar nokkuð langt að, líklega frá barrskógum Skandinavíu, en þegar vart verður fæðuskorts í heimkynnum þeirra leggjast þær á flakk og sjást þá í vestanverðri Evrópu, meðal annars á Íslandi. Í þeim árum sem þær berast hingað sjást þær vanalega frá miðjum október fram í apríl.

Í trjánumSilkitoppa tyllir sér á grein í garði í Reykjavík.

En svo margar eru þær nú hér á landi að fuglasíðurnar á Facebook eru fullar af myndum af þeim.

„Jú, þetta eru ansi margar silkitoppur,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, dýravistfræðingur hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurlandi, spurður um hvort fjöldinn sé óvenjulegur þennan veturinn.

Silkitoppur eru ein þeirra fuglategunda sem stunda svokallað rásfar (e. irruption), þ.e. stórir hópar leggjast í tilviljanakennt flakk. Tómas segir rétt að hingað til hafi þetta verið tengt við fæðuframboð í heimahögum þeirra. Að þegar stofninn sé stór eftir gott sumar verði samkeppni um fæðuna meiri og flakk þeirra hefjist. „En reyndar var að koma út ný grein um þetta um daginn sem dregur þessar skýringar í efa og bendir á að málið sé mun flóknara,“ segir hann.

Hver sem skýringin er koma þær stundum til Íslands og sjást stundum um nánast allt land en eru fáar þess á milli.

Aðalfæða silkitoppa yfir varptímann eru skordýr en yfir veturinn nærast þær fyrst og fremst á ávöxtum, berjum og brumi. Það er þess vegna sem þær sækja í garða hjá íslenskum fuglavinum sem setja út epli og annað góðgæti fyrir smáfugla að hausti og vetri.

En hvað verður um þær blessaðar, hafa þær veturdvöl á landinu?

Halló!Þær eru komnar langt að og eru svangar eftir flugið.

„Það er spurning,“ segir Tómas. „Yfirleitt fréttum við lítið af afdrifum flækingsfugla sem koma hingað. Líklega drepast sumir og aðrir komast til baka. Eitt eða tvö tilfelli til af flækingsspörfuglum sem hafa verið merktir hér og endurheimtast svo erlendis. Silkitoppa er reyndar harðgerður fugl, heldur störum til dæmis á mottunni á fóðurstöðum og þær gætu vel komist flestar til baka. Fuglar hafa yfirleitt ágætan kompás „heim“,“ útskýrir hann.

Dæmi eru um að silkitoppur hafi orpið á Íslandi. Staðfesting á því fékkst í fyrsta sinn sumarið 2011. Þá setti maður sig í samband við sérfræðing Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit og sagðist hafa séð „einkennilega fugla“ á þeim slóðum. Sérfræðingurinn fór á vettvang og staðfesti að um silkitoppur var að ræða. Sáust foreldrar fæða fjóra unga sína á berjum og flugum. Veturinn á undan höfðu óvenju margar silkitoppur sést á landi og því augljóst að einhverjar þeirra hafi ekki snúið „heim“ til Skandinavíu.

„En þetta er sjaldgæft,“ segir Tómas spurður hvort að þetta gæti endurtekið sig. Ungarnir þurfi mikið prótein og fitu. „Þær gætu eflaust komið upp ungum á skordýrafæðu hér,“ segir hann en veturseta gæti orðið erfiðari því í íslenskri náttúru er ekki mikið af berjarunnum. Það er því fyrst og fremst garðafóðrunin sem gerir þeim kleift að dvelja á landinu nú.

Hann segist skilja vel það flóð af myndum af silkitoppum sem birtast nú á fuglahópunum á Facebook. Silkitoppan er sjaldséður gestur, svona yfirleitt, og „já, afbragðsfalleg“.

Kjósa
24
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu