Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Átján ára afmæli ríkisarfans

Átján ára af­mæl­is­dag­ur­inn mark­ar tíma­mót í lífi hvers ein­stak­lings. Sjald­gæft er þó að uppá hann sé hald­ið með jafn fjöl­menn­um og íburð­ar­mikl­um hætti og gert var í Kaup­manna­höfn síð­ast­lið­inn sunnu­dag.

Dönsk ungmenni eru, upp til hópa, ekki sérlega upptekin af átján ára afmælisdeginum. Danska útvarpið, DR, gerði fyrir skömmu könnun meðal hóps ungmenna, sem voru á átjánda ári, hvað þau teldu merkilegast við að ná átján ára aldri og þar með orðin sjálfráða. Flest nefndu þrennt; þá gætu þau keypt áfengi (sterkara en 16.5% sem er heimilt frá 16 ára aldri), full ökuréttindi (takmörkuð fást við 17 ára aldur) og kosningarétt. 

Ungur maður sem með fjölmennri veislu fagnaði átján ára afmælinu sl. sunnudag 15. október, og öðlaðist þar með áðurnefnd réttindi, er í senn venjulegur og óvenjulegur unglingur. Venjulegur að því leyti að áhugamál hans eru mörg þau sömu og margra jafnaldra hans en það óvenjulega er að í fyllingu tímans verður hann, að öllu óbreyttu, konungur Danmerkur. 

Christian Valdemar Henri John 

Þessi ungi maður sem um ræðir og fékk síðar nafnið Christian Valdemar Henri John fæddist á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Fréttir um að fjölgunar væri von í fjölskyldu Margrétar Þórhildar höfðu birst í dönskum fjölmiðlum mánuðum saman og nýr og tilvonandi ríkisarfi væri á leiðinni. Þegar þær fregnir bárust rétt eftir miðnætti aðfaranótt 15. október  að „nú væri allt að gerast“ flykktust fréttamenn og ljósmyndarar að inngangi Ríkisspítalans. Eftir langa bið kom faðirinn, Friðrik krónprins, brosandi út um dyr fæðingardeildarinnar. Hann sagði að fæddur væri hraustur strákur og honum og móðurinni Mary heilsaðist vel.

Þegar fréttamenn spurðu um stærð sonarins sýndi faðirinn með höndum að hann væri „sirka svona“ og þetta svar vakti kátínu viðstaddra. Miðað við „sirka svona“ væri drengurinn að minnsta kosti 65- 70 sentimetra langur. Hinn stolti faðir hafði ofmetið lengdina, drengurinn mældist við fæðingu 51 sentimetri. Klukkan 12 á hádegi fæðingardagsins var hleypt af 21 púðurskoti í bækistöðvum flotans í Kaupmannahöfn og samtímis var flaggað á öllum opinberum byggingum, og strætisvagnar um allt land óku um skreyttir veifum í dönsku fánalitunum.  Allar götur síðan hefur þessi frumburður krónprinshjónanna, eins og foreldrarnir, af og til verið umfjöllunarefni danskra fjölmiðla, einkum glanstímaritanna. Það gildir líka, í minna mæli þó, um yngri börn þeirra Friðriks og Mary, Isabellu, Vincent og Josephine

Hefð fyrir mörgum nöfnum  

Eins og fram kom hér að framan ber hinn tilvonandi ríkisarfi fjögur nöfn, Christian Valdemar Henri John. Tvö þau fyrstu eru gömul konungsnöfn en hin tvö eru nöfn feðra þeirra Friðriks og Mary. Hér á landi er löng hefð fyrir því að íslenska nöfn danskra þjóðhöfðingja, drottningin er Margrét Þórhildur, krónprinsinn Friðrik og nær öruggt má telja að Christian Valdemar Henri John verði kallaður Kristján. Þess má geta að hefð er fyrir því að börn í konungsfjölskyldunni beri ekki færri en fjögur skírnarnöfn, Friðrik IX, faðir Margrétar Þórhildar bar sjö nöfn.

Síðan á 17. öld hafa elstu synir danska þjóðhöfðingjans til skiptis fengið nöfnin Frederik og Christian, Margrét Þórhildur var vitaskuld undantekning frá þessari venju. Afi Margrétar Þórhildar var Kristján X, faðir Margrétar Þórhildar var Friðrik IX og Friðrik krónprins verður samkvæmt reglunni Friðrik X. Sonurinn verður, þegar þar að kemur, Kristján XI.  Að númera kóngana með rómverskum hækkandi tölum er gert til að koma í veg fyrir rugling.  

Engin sérréttindi

Af ástæðum sem ekki þarf að fjölyrða um hefur æska og uppvöxtur Kristjáns prins að ýmsu leyti verið með öðrum hætti en gengur og gerist. Foreldarnir hafa alla tíð lagt á það áherslu að sonurinn myndi umgangast jafnaldra sína og ekki njóta sérréttinda þegar að skólagöngu kæmi.

Kristján var á leikskóla í Fredensborg norðan við Kaupmannahöfn um fjögurra ára skeið en í ágúst 2011 hóf hann nám við Tranegårdskólann í Gentofte. Sá skóli er almennur grunnskóli og Kristján prins er sá fyrsti í sögu dönsku konungsfjölskyldunnar sem sækir almennan grunnskóla. Fram að því höfðu börnin í konungsfjölskyldunni að mestu leyti fengið einkakennslu heima á Amalienborg og lítt umgengist jafnaldra á grunnskólaárunum.  

Herlufsholm og heimildamyndin

Í ágúst 2021 hóf Kristján prins nám við Herlufsholmskólann á Suður- Sjálandi. Sá skóli á sér langa sögu, stofnaður 1565, og hefur verið mjög eftirsóttur. Skólinn er bæði grunn- og framhaldsskóli, nemendur að jafnaði um 600, stúlkur og piltar. Tæplega helmingur nemenda býr á heimavist en aðrir búa heima eða hjá ættingjum.

Í maí 2022 sýndi danska sjónvarpsstöðin TV 2 heimildamynd um Herlufsholmskólann, Herlufsholms hemmeligheder. Í myndinni var hulunni svipt af ýmsu sem ekki hafði áður komið fram í dagsljósið. Margir fyrrverandi nemendur greindu frá ofbeldi, einelti, kynferðislegri áreitni sem þeir höfðu orðið fyrir eða vitni að. Í myndinni kom fram að skólinn var í hópi þeirra lökustu varðandi einelti og álag á nemendur samkvæmt könnun í öllum skólum landsins. 

Myndin vakti gríðarlega athygli, að ekki sé meira sagt. Afleiðingarnar voru meðal annars þær að skólastjórinn var rekinn sem og yfirstjórn skólans. 

Herlufsholmskandalen, eins og danskir fjölmiðlar komust að orði, var dögum saman til umfjöllunar í útvarpi, sjónvarpi, net- og prentmiðlum. Strax vaknaði sú spurning hvort framtíðarríkisarfinn Kristján yrði áfram í skólanum þar sem hann hafði verið einn vetur við nám og bjó á heimavist skólans. 26. júní 2022 kom tilkynning frá Amalienborg þess efnis að prinsinn myndi ekki halda áfram námi við Herlufsholmsskólann og að Isabella systir hans, sem áformað var að myndi setjast í 9. bekk skólans þetta sama ár, myndi ekki hefja þar nám. 

Þess má geta að aðsókn að Herlufsholmskólanum hefur snarminnkað og verulega hefur fallið á glansmyndina, svo notað sé orðalag danskra fjölmiðla. 

Kristján prins innritaðist sumarið 2022 í Ordrup Gymnasium og er þar við nám, þegar þetta er skrifað.  Systirin Isabella lauk grunnskólanáminu frá Ingrid Jespersens Gymnasieskole  sl. vor og hóf nú í haust nám við Øregård Gymnasium, þar lauk Friðrik faðir hennar stúdentsprófi og sömuleiðis Jóakim bróðir hans.  

Gallup könnunin

Danska konungsfjölskyldan er eilíft umræðuefni meðal Dana. Þótt raddir heyrist sem telja réttast að leggja konungdæmið af sýna kannanir að mikill meirihluti dönsku þjóðarinnar má ekki heyra minnst á neitt slíkt. Margrét Þórhildur hefur notið mikillar hylli þegna sinna og á árum áður komu oft fram efasemdir um að Friðrik krónprins myndi valda embættinu, þegar þar að kæmi. Hann hefur hinsvegar vaxið mikið í áliti meðal dönsku þjóðarinnar á undanförnum árum og ekki spillir fyrir að krónprinsessan Mary nýtur mikillar virðingar og vinsælda.

Í nýlegri Gallup könnun um konungsfjölskylduna var spurt hver úr fjölskyldunni væri í mestu uppáhaldi hjá viðkomandi. 41 prósent svarenda nefndu Friðrik krónprins, 22 prósent nefndu drottninguna og 15 prósent krónprinsessuna Mary. Enginn í könnuninni nefndi Kristján prins. Sérfróðir, sem dagblaðið Berlingske ræddi við, um málefni fjölskyldunnar á Amalienborg sögðu að Kristján prins væri „óþekkt stærð“ kannski væri það skýringin á að enginn nefndi hann sem sitt uppáhald. Bentu líka á að þegar Friðrik krónprins var 18 ára naut hann takmarkaðs álits hjá almenningi. Það hefði gjörbreyst.

Afmælisveislan

Áðurnefnd Gallup könnun sýndi að áhugi fyrir konungsfjölskyldunni er minni meðal ungs fólks og færri úr þeim aldurshópi telja að viðhalda beri konungsríkinu. Það kann að vera ein ástæða þess að krónprinshjónin og Kristján prins hafa lagt mikla áherslu á að ná til ungs fólks eins og berlega kom í ljós í átján ára afmælisveislunni sem fram fór í Kristjánsborgarhöll. Af þeim 360 gestum sem sátu veisluna voru 200 jafnaldrar prinsins, tveir frá hverju sveitarfélagi í Danmörku, ásamt Grænlandi og Færeyjum. Auk þess norrænt kóngafólk, ættingjar og vinir. Hápunktur veislunnar var ræða afmælisbarnsins, sem þótti takast vel upp. Danskir fjölmiðlamenn voru sannfærðir um að prinsinn hefði sjálfur skrifað ræðuna, enginn fjölmiðlafulltrúi hefði komið þar nærri. 

Ungmenni, sem sátu veisluna og fjölmiðlar ræddu við, voru sammála um að það hefði verið einstök upplifun og heiður að fá að fagna með prinsinum. Sjálfur sagði prinsinn að þegar allt þetta afmælistilstand, sem hefði verið mjög skemmtilegt, yrði að baki færi hann aftur í skólann. 

Var Öskubuska meðal gestanna?

Eftir að veislunni lauk og farið var að taka til í veislusalnum kom í ljós gylltur skór sem einn gestanna hafði skilið eftir. Í tilkynningu frá Amalienborg sem birtist á Instagram undir fyrirsögninni „Er det mon Askepot, der glemte sin sko i aftes“ (er það kannski Öskubuska sem gleymdi skó sínum í gær). Mynd af skónum birtist jafnframt á síðunni. Eigandanum var jafnframt boðið að hafa samband til að endurheimta skóinn. 

Ekki voru liðnir margir klukkutímar þegar vikuritið SE & HØR hafði haft uppi á „Öskubusku“.  Það var Anne-Sofie frá Stenløse sem skildi skóinn eftir og sagði í viðtali við tímaritið að þetta hefði verið hugsað sem „skemmtilegur endir, eins og í ævintýrinu um Öskubusku. Hún sagði jafnframt að hún hefði verið búin að ræða þetta við fjölskyldu sína sem hefði verið sammála henni. Í viðtalinu sagðist hún ekki hafa ákveðið hvort hún myndi sækja skóinn. „ Ef þau (í höllinni) ætla að henda honum vil ég gjarna fá hann til baka.“

Kjósa
11
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár