Árið 1649 fékk maður að nafni Peter Thorwöste leyfi til að stofna járnsmiðju og smíða málmbræðsluofn í þorpinu Fiskars, fyrir vestan Helsinki. Hann fékk jafnframt leyfi til að vinna járn úr málmgrýti, sem var flutt inn frá Svíþjóð. Í smiðjunni voru framleiddir naglar og ýmislegt fleira en megnið af því járni sem unnið var í Fiskars var sent aftur til Svíþjóðar og selt þar. Finnland tilheyrði á þessum tíma Svíþjóð sem var einn helsti framleiðandi járns í Evrópu.
Starfsemin í Fiskars var að mestu óbreytt í rúmlega eina öld, en á síðari hluta 18. aldar var farið að vinna koparmálm úr námu í Orijärvi, skammt frá Fiskars. Árið 1802 var náman í Orijärvi nánast fullnýtt og slökkt á málmbræðsluofninum. Þar með lauk vinnslu á málmgrýti í Fiskars.
Kaup lyfsalans mörkuðu tímamót
Árið 1822 keypti lyfsalinn Johan Jacob Julin (1787- 1853) smiðjuna og reyndar nánast allar byggingar í þorpinu Fiskars. Julin hafði háleit markmið og undir hans stjórn breyttist margt. Fyrirtækið einbeitti sér nú að framleiðslu margs konar hluta úr járni. Auk hnífa sem lengi höfðu verið framleiddir í Fiskars var nú farið að framleiða gaffla, skeiðar og hnífa.
Árið 1837 var sett á laggirnar vélaverkstæði og þar leit brátt dagsins ljós fyrsta gufuvél sem framleidd var í Finnlandi. Fiskars hafði mikil áhrif á finnskan landbúnað með framleiðslu á ýmsum verkfærum, meðal annars framleiddi fyrirtækið rúma milljón plóga. Fiskars framleiðslan fékk gott orð á sig og allar götur síðan hefur Fiskars verið tákn um gæði. Julin sagði gjarna að gott hráefni, járn, kopar eða hvað annað sem notað væri við framleiðsluna, væri forsenda góðrar vöru.
Skóli, sjúkrahús og líkamsræktaraðstaða
Julin lyfsali, og verksmiðjueigandi, lagði mikla áherslu á vellíðan starfsfólks og fjölskyldna þess. Hann lét reisa skóla og sjúkrahús í þorpinu og lét sömuleiðis koma upp aðstöðu til ýmis konar íþróttaiðkunar (orðið líkamsrækt hafði ekki verið fundið upp) „heilbrigð sál í hraustum líkama“ sagði Julin gjarna.
Eftir lát Julin árið 1853, stýrði framkvæmdastjórn skipuð einstaklingum úr Julin fjölskyldunni fyrirtækinu. 1883 var Fiskars gert að hlutafélagi og árið 1915 var félagið skráð í finnsku kauphöllinni. Heimsstyrjöldin fyrri hafði ekki teljandi áhrif starfsemina. Heimskreppan mikla, sem skall á haustið 1929 hafði mikil áhrif á finnskt efnahagslíf, og áhrifa kreppunnar gætti fram á miðjan fjórða áratuginn. 1939 hófst heimsstyrjöldin síðari og það var ekki fyrr en eftir að henni lauk að stjórn Fiskars gat hrint í framkvæmd áætlunum sínum um stóraukna framleiðslu.
Meira en einn milljarður appelsínugulra
Árið 1967 olli straumhvörfum í sögu Fiskars. Fyrirtækið hafði þá framleitt skæri í meira en hundrað ár en uppfinningin er miklu miklu eldri. En það var þarna, árið 1967, sem skærin með appelsínugula handfanginu litu dagsins ljós. Hönnuðir Fiskars höfðu lagt mikla vinnu í hönnun skæranna sem ku vera þau fyrstu með handfangi úr plasti. Skemmst er frá því að segja að skærin slógu (eða skáru!) algjörlega í gegn. Á þeim 56 árum sem liðin eru frá því að þau gulu komu á markaðinn hefur selst meira en 1 milljarður (þetta er ekki ritvilla) þessa verkfæris.
Af hverju appelsínugul?
Árið 1967 þegar framleiðsla Fiskars skæranna með plasthandfangi var að hefjast hafði hönnuðurinn ákveðið að handfangið yrði svart, rautt eða grænt. Þegar kom að því steypa handföngin ákvað sá sem stjórnaði plaststeypuvélinni að steypa fyrst handföng úr afgangi sem var í vélinni. Sá litur var appelsínugulur. Svo voru steypt svört handföng, því næst rauð og loks græn.
Litirnir voru sem sagt fjórir. Þeim sem viðstaddir voru „litaprufuna“ leist best á svarta litinn og þann appelsínugula, sem vel að merkja var hálfgerð boðflenna. Stjórnendur Fiskars ákváðu þá að allt starfsfólk fyrirtækisins myndi greiða atkvæði um litinn. Þar vann boðflennan, sá appelsínuguli. Þess má geta að liturinn Fiskars appelsínugulur varð skrásett vörumerki í Finnlandi árið 2003 og fjórum árum síðar í Bandaríkjunum en þar hafði Fiskars sett upp skæraverksmiðju árið 1977.
Flutt til Billnäs og Fiskars þorpið fékk nýtt hlutverk
Um 1970 var orðið þröngt um Fiskars á gamla verksmiðjusvæðinu og þá var tekin ákörðun um að flytja starfsemina til Billnäs, skammt frá Fiskars.
Í Billnäs voru gömul verksmiðjuhús, sem Fiskars keypti og sömuleiðis voru byggð ný hús fyrir framleiðsluna. Eftir stóðu tóm hús í Fiskars. Í byrjun tíunda áratugarins tók stjórn Fiskars ákvörðun um að gera þorpið að eins konar listamannabæ. Listafólki bauðst þar húsnæði á hagstæðu verði og þar blómstrar nú margháttuð starfsemi. Í þorpinu eru árlega haldnar tvær hátíðir, Art & Design Biennale og Slowfood festival. Um 200 þúsund manns sækja þessar hátíðir á hverju ári, fyrir utan aðra gesti sem koma til þorpsins. Fiskars styður með myndarlegum hætti við starfsemina.
Mörg handtök
Fyrir skömmu gerði blaðamaður Politiken sér ferð til Fiskars og Billnäs. Hann sagði eftir að hafa fylgst með framleiðslu skæranna appelsínugulu að það væri óskiljanlegt að skærin skuli ekki kosta meira en raun ber vitni. Skærin fara um margar hendur áður en þau eru fullgerð og því framleiðsluferðalagi lýkur í höndum starfsmanna sem yfirfara skærin. Athuga hvort allt sé eins og það á að vera, hvort bitið sé í lagi, handfangið sitji rétt o.s.frv. Að sögn talsmanns Fiskars er mikil áhersla lögð á að allt sem frá fyrirtækinu fer, hvort sem það eru skæri eða annað, sé algjörlega gallalaust.
Þótt þau appelsínugulu séu hryggjarstykkið í skæraframleiðslunni eru ótal önnur „afbrigði“ ef svo má að orði komast, lítil og stór, svört, rauð og græn. Fiskars er í dag með verksmiðjur í fjölmörgum löndum og starfsmenn samtals vel á áttunda þúsund. Framleiðslan er fjölbreytt, fyrir utan skærin eru það hnífar, pottar og pönnur, garðáhöld og fleira og fleira.
Mörg fleiri járn í eldinum
Á undanförnum árum hefur Fiskars fært út kvíarnar og keypt mörg þekkt fyrirtæki. Þar má nefna Royal Copenhagen, breska postulínsframleiðandann Wedgwood og finnsku framleiðendurna Iitala og Arabia. Um miðjan september sl. var tilkynnt að Fiskars hefði keypt danska fyrirtækið Georg Jensen, sem framleiðir einkum silfurmuni og skartgripi. Því má með sanni segja að þetta 374 ára fyrirtæki, sem byrjaði sem eldsmiðja, sé með mörg járn í eldinum.
Athugasemdir