Þessi grein birtist fyrir rúmlega 5 mánuðum.

Stolt af barnabörnunum, bókmenntaarfinum og því að hafa stutt hag kvenna

Hjón­in Ólaf­ur H. Ragn­ars­son og María Jó­hanna Lár­us­dótt­ir hafa tek­ið virk­an þátt í ís­lensku sam­fé­lagi í gegn­um ár­in. Í dag horfa þau til baka með bros á vör og fara yf­ir það sem hef­ur veitt þeim gleði í gegn­um ár­in. Þeim er það hjart­ans mál að halda í hlát­ur­inn, hvort ann­að og menn­ing­una.

Stolt af barnabörnunum, bókmenntaarfinum og því að hafa stutt hag kvenna
María Jóhanna Lárusdóttir og Ólafur H. Ragnarsson Hjónin Hanna og Ólafur halda fast í húmorinn, gleðina og hvort annað. Mynd: Eik Arnþórsdóttir

Það eru til ýmsar leiðir til að fara í gegnum lífið með bros á vör. Fyrir hjónin Ólaf H. Ragnarsson, 82 ára, og Maríu Jóhönnu Lárusdóttur, 77 ára, skiptir máli að halda í húmorinn, hlúa vel að hvort öðru og sinna áhugamálum. Þau búa í Mörkinni á Suðurlandsbraut og líður vel þar. 

Áður en þau fluttu í Mörkina bjuggu hjónin í einbýlishúsi í Árbænum. Ólafur er lögfræðimenntaður og sérhæfði sig í hugverkarétti á sviði atvinnulífs. Hann rak lögfræðistofu í 38 ár og naut sín vel í starfi. Á síðasta ári ákvað Ólafur þó að tími væri kominn til að selja lögmannsstofuna og njóta persónulegra áhugamála í meira mæli. „Ég er orðinn 82 ára. Það er kominn tími til að reyna að vinna úr ævinni og njóta þessara ára sem eru eftir,“ segir Ólafur og brosir blítt. 

María, eða Hanna eins og hún er kölluð af fjölskyldu og vinum, menntaði sig í íslensku og sagnfræði í Háskóla Íslands. Hún starfaði við móðurmálskennslu í Verzlunarskóla Íslands í tæp 40 ár og þótti afar vænt um starf sitt. Hanna var líka aðgerðasinni. Hún er einn af stofnendum Kvennalistans, var varaþingmaður árið 1986 og mótmælti notkun kjarnorkuvopna í Evrópu með mánaðarlangri mótmælagöngu. 

Sterkar skoðanir

„Ég var alveg ekta kennari,“ svarar Hanna glöð, aðspurð hvort hana hafi alltaf langað að stunda kennslu. „Það var alltaf svo gaman.“ Hún segir kennsluna eitt af því sem hafi veitt henni mesta gleði í lífinu. „Og Óli. Hann var alltaf með mér, við hliðina á mér. Við vorum bara alltaf saman.“

María Jóhanna LárusdóttirHanna á landsfundi Kvennalistans árið 1993.

Þau rifja upp gamla tíma. „Ég ólst upp í Vesturbænum. Það er alveg yndislegur staður,“ segir Hanna. Þau Ólafur kynntust fyrst á bernskuárum og urðu síðar ástfangin. „Við giftumst og bjuggum alltaf úti í sveitinni,“ segir Hanna og vísar þá í Árbæinn en þau hjónin byggðu þar einbýlishús í Klapparási eftir stutt stopp í Hraunbænum. 

„Og Óli. Hann var alltaf með mér, við hliðina á mér. Við vorum bara alltaf saman.“
María Jóhanna Lárusdóttir

Í dag býr Ólafur einn í íbúð á Mörkinni en Hanna er á hjúkrunarheimilinu þar sem hún fær aðhlynningu. Það skiptir hjónin máli að hlúa að hvort öðru og verja tíma saman á hverjum degi. „Við hittumst tvisvar á dag. Svo förum við í leikhús og á Sinfóníuna,“ segir Ólafur. „Okkur þykir gaman að fara niður í bæ, taka þátt í mannlífinu og skoða Reykjanes og höfuðborgarsvæðið.“ Hanna jánkar því. „Við höfum alltaf fylgt því eftir.“

Hanna segir sterkar skoðanir vera eitt af því sem geti hjálpað fólki að lifa góðu lífi. Sjálf hefur hún ekki veigrað sér við að fylkja sér á bak við málefni sem standa henni nærri. Ólafur horfir stoltur á eiginkonu sína þegar hann lýsir réttlætiskennd hennar. Á níunda áratugnum var Hanna ein 200 kvenna frá Norðurlöndunum sem gengu frá New York-ríki í Bandaríkjunum alla leið til Washington. Gangan tók heilan mánuð. „Hún er mikill friðarsinni og gekk með vinkonu sinni, Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni og alþingismanni,“ segir Ólafur. „Friðargangan var gegn kjarnorkuvæðingu í Vestur-Evrópu.“

Svo er hún einn af stofnendum Kvennalistans og hún hefur mjög sterkar skoðanir í feminískum málum.“ Hanna tekur undir með Ólafi og brosir.

Grein eftir HönnuBrot úr grein sem birtist í Morgunblaðinu árið 1986 þar sem Hanna ritar um framboð Kvennalistans.

Áhugamálin vega þungt

Til þess að halda líkamanum hraustum leggur Ólafur áherslu á að stunda líkamsrækt og gerir það af miklu kappi. „Ég fer tvisvar í viku í sundleikfimi, svo fer ég í kínverska leikfimi á miðvikudögum og svo reyni ég að ganga þrjá til fimm kílómetra minnst fjóra daga í viku.“ Auk þess hjólar hann tvisvar í viku í tuttugu mínútur. „Ég hef nú alltaf verið mikill „action“ maður þannig lagað. Þetta hentar mér ágætlega,“ segir Ólafur og hlær þegar blaðakona segir hann vera eins og atvinnumann að æfa svona mikið. Hann útskýrir að það sé sitt markmið að reyna að nýta tímann á jákvæðan hátt í það sem er uppbyggilegt, því að það skipti máli. 

Ólafur hefur einnig mikið dálæti á tónlist og segir nóg að gera í félagslífinu á Mörkinni ef fólk sækist eftir því. Þau Hanna fara til dæmis reglulega á kaffihús á svæðinu. „Það er sótt af mörgum þannig að það er ekki langt að sækja ef þú vilt hitta fólk. Þá geturðu einfaldlega bara farið niður og sest hjá einhverjum. Það er tekið vel á móti þér. Við förum oft þangað.“

Það er ljóst að jákvætt hugarfar, félagslíf og sterkar skoðanir hafa hjálpað Ólafi og Hönnu að eiga gott líf. En lífið er sveiflukennt og erfiðir tímar óhjákvæmilegir.

Lífið er sveiflukennt, hvernig er best að takast á við krefjandi tíma að ykkar mati?

„Það er til dæmis með því að hafa áhugamál,“ svarar Hanna. „Já,“ segir Ólafur og bætir við: „Og ákveðið æðruleysi og þolinmæði til að umbera mótlæti. Það fylgir aldrinum að maður getur ekki gert nærri því það sama og áður og þarf að sætta sig við breytinguna. Það er alltaf eitthvað sem lífið hefur upp á að bjóða.“ Hann telur það skipta lykilmáli að taka þátt í að lifa. „Lífið stoppar ekki, það heldur alltaf áfram.“

Það getur hins vegar verið of varasamt að lifa of hratt að mati Ólafs. „Ég held að Íslendingar lifi of hratt fyrir stundina. Það er of mikil spenna og ásókn í vind. Það þarf að læra að hægja á og njóta augnabliksins, ég held að það vanti í íslenska menningu.“ 

„Það þarf að læra að hægja á og njóta augnabliksins, ég held að það vanti í íslenska menningu“
Ólafur H. Ragnarsson

Húmorinn hjálpar

Ólafur H. RagnarssonEr stoltur af fjölskyldunni sinni og barnabörnunum.

Eitt af því sem Ólafur og Hanna hafa nýtt sér til þess að finna gleðina í lífinu er að sjá spaugilegar hliðar lífsins. Það er þeim hjónum hjartans mál að halda í hláturinn. Þess vegna segjast þau hafa gaman af því að fara á leikrit sem eru í léttari kantinum.

Ólafur segir nóg af svartnætti til staðar og því hjálpi að halda í kómísku hliðar lífsins. Hann lýsir Hönnu sem sérstaklega brosmildri manneskju. „Hún gefur mikið af sér. Þess vegna á hún svona margar vinkonur. Hún hefur tilhneigingu til að sjá þessar kómísku hliðar í lífinu.“ Hanna svarar að réttilega sé hún jú alltaf brosandi. 

Aðspurð hverju þau eru stolt af í lífinu svarar Hanna: „Ég er til dæmis stolt af því að hafa viljað hag kvenna sem mestan og ég hef bara stutt það af alefli, fullum fetum.“ 

Ólafur segir: „Ég er stoltur af fjölskyldunni minni, sonum okkar þremur og barnabörnum. Stoltur að hafa verið farsæll í starfi sem lögfræðingur. Það veitir mér gleði að hafa lokið starfi mínu farsællega. Svo er það náttúrlega gleðiefni að tala íslensku svona í ljósi þess að íslenski menningararfurinn liggur í tungumálinu og sögunni okkar. Það þarf að varðveita vel bókmenntaarfinn okkar. Ég er stoltur af því sem Íslendingur að við eigum þennan bókmenntaarf.“ 

„Ég er stoltur af því sem Íslendingur að við eigum þennan bókmenntaarf“
Ólafur H. Ragnarsson

Hvað er það besta við að eldast?

Þau svara bæði því að það sé gaman að hafa meiri tíma til að sinna persónulegum áhugamálum. „Og að fylgjast með barnabörnunum,“ bætir Ólafur við með hlýjan svip en þau hjónin eiga sex barnabörn. „Já,“ svarar Hanna. „Alveg æðislega gaman.“

Kjósa
10
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár