Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Fjölgun öryrkja, flóknari saga en sú sem er gjarnan sögð

Í dag gaf Öryrkjabandalag Íslands út skýrslu um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega sem ég skrifaði fyrir samtökin. Þar nota ég gögn frá Tryggingastofnun Ríkisins og Hagstofu Íslands til að rýna í þróunina.

Umræðan um fjölgun öryrkja hefur verið viðvarandi á Íslandi um allnokkurt skeið en nýlega benti OECD á að öryrkjum hefði fjölgað umtalsvert frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar auk þess sem skömmu fyrr höfðu íslenskir fjölmiðlar fjallað um fjölgunina frá aldamótum (t.d. hér og hér).

Þetta er í sjálfu sér kunnuglegt stef í umræðunni um örorku á Íslandi og rétt svo langt sem það nær. Sagan er hinsvegar flóknari en svo að það sé hjálplegt að bera saman fjölda öryrkja eða örorkulífeyrisþega á tveimur tímapunktum, hvort sem það eru 20 eða 25 ár á milli þeirra.

Myndin hér að ofan, sem er fengin úr veftöflum Hagstofu Íslands, sýnir af hverju. Fjölgun örorkulífeyrisþega var nokkuð ör flest árin á milli 1994 og 2005. Fyrir því eru ýmsar ástæður, svo sem kerfisbreytingar sem þýddu meðal annars að kerfið náði betur til einstaklinga með örorku, svo sem heimavinnandi kvenna og einstaklinga með geðraskanir. Fjölgun örorkulífeyrisþega á þessu tímabili er því ekki endilega til marks um fjölgun öryrkja, það er fólks með skerta starfsgetu, heldur að örorkulífeyriskerfið hafi náð betur til þeirra sem þurftu á stuðningi að halda.

Eftir 2004 byrjaði svo að hægja á fjölguninni og hún hefur ekki náð sömu hæðum aftur. Ef við ætlum að móta stefnu til að bregðast við fjölgun örorkulífeyrisþega frá 2000 eða frá miðjum níunda áratug síðustu aldar værum við að stórum hluta að bregðast við einhverju sem var að gerast fyrir 15-25 árum.

Fyrsta myndin nær aðeins fram til 2016. Síðan eru liðin þrjú ár. Í mælaborði og staðtölum Tryggingastofnunar má hinsvegar finna tölur um fjölda örorkulífeyrisþega og fólk með örorku- og endurhæfingarmat sem ná fram til janúar 2019. Myndin hér að ofan sýnir þróunina sem hlutfall af mannfjölda á aldrinum 18-66 ára frá 2008 til 2019. Hlutfallið hækkar fram til 2017 en tölurnar benda hinsvegar til þess að það hafi dregið enn frekar úr fjölguninni frá því ári.

Myndin hér að neðan sýnir sömu þróun en með gögnum Hagstofunnar. Appelsínugula línan sýnir viðtækustu skilgreininguna og inniheldur örorkulífyerisþega, örorkustyrkþega, endurhæfingarlífeyrisþega, einstaklinga með ráðstöfunarfé vegna örorku, búsetta innan lands og utan, með réttindi hjá TR og þau sem aðeins eru með réttindi hjá lífeyrissjóðum. Í stuttu máli staðfestir myndin það sem sást í gögnum TR, að það hægir á fjölguninni árið 2017.

Sumsé: Einfalda sagan er að örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað mikið frá aldamótum. Raunverulega sagan er að fjölgunin var umtalsverð frá miðjum níunda áratug síðustu aldar og fram á miðjan fyrsta áratug þessarar aldar. Þessi fjölgun er ekki endilega til marks um að öryrkjum hafi fjölgað heldur að ýmsar breytingar hafi orðið til þess að örorkulífeyriskerfið næði betur til öryrkja. Það hægði verulega á fjölguninni um og eftir 2005 og nýjustu gögn benda til þess að það hafi hægt enn frekar á henni frá og með 2017.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni