Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Tekjusagan: Breytileiki tekna á Íslandi

Í vikunni opnaði forsætisráðuneytið nýjan vef, Tekjusagan, sem hefur að geyma ýmsar upplýsingar um tekjur á Íslandi frá 1991-2017. Þetta er ákafleg góð og gagnleg viðbót við upplýsingar um tekjur á Íslandi og gullnáma fyrir þau okkar sem lifa og hrærast í lífskjaratölfræði.

Á meðal þess sem má finna á þessum nýja vef er upplýsingar um breytileika tekna yfir tíma, t.d. hvernig fólk á vissu tekjubili á tímapunkti 1 raðast í tekjubil á tímapunkti 2. Það getur verið dálítið snúið að túlka breytileika tekna. Í aðra röndina er breytileiki tekna merki um opið samfélag þar sem einstaklingar geta unnið sig upp á eigin verðleikum, í hina röndina er getur mikill breytileiki tekna einnig verið vísbending um lítið afkomuöryggi. Þó má leiða líkur að því að lítill breytileiki á botni tekjudreifingarinnar sé ekki af hinu góða fyrir fólk í þeim hluta dreifingarinnar, enda sé slíkt fyrst og fremst til marks um ónóg tækifæri auk þess sem langvarandi lágar tekjur rýra lífskjör jafnvel eftir að fólk hefur bætt hag sinn, þ.e. þeim sem tekst það.

Nördinn sem ég er þá stóðst ég ekki freistinguna að róta aðeins í þessum vef til að sjá hvað tölurnar segðu mér um breytileika tekna. Ég fókusera á hreyfingar inn og út úr efstu og neðstu tekjutíund. Það segir ekki alla söguna, það þarf flóknari greiningar sem best væri að nota einstaklingsupplýsingar í til að fanga heildarmyndina. Fókus á þessi tvö tekjubil er þó um margt upplýsandi, en neðsta tekjbilið kemst nærri því að endurspegla það fólk sem er undir lágtekjumörkum en efsta bilið er ágætis nálgun á hátekjufólk.

Breytileiki tekna yfir 15 ára tímabil

Það fyrsta sem ég skoðaði var breytileiki tekna yfir 15 ára tímabil, þ.e. frá því fólk er á aldrinum 25-29 ára og þar til það er 40-44 ára. Valið á aldursbilum helgast af því að á yngra aldursbilinu er fólk gjarnan að hefja starfsferilinn og hækkar gjarnan hratt í tekju fyrstu 5-10 árin, en á seinna aldursbilinu er fólk yfirleitt komið "á sinn stað", svo að segja. Þar af leiðandi má vænta nokkuð mikils hreyfanleika á milli þessara aldursbila. Ég valdi tvö tímabil, þ.e. breytingar á milli 1991 og 2006 og 2001 og 2016, af því það gefur vísbendingu um hvort að breytileiki tekna hefur aukist, minnkað eða staðið í stað. Breytingarnar yfir tíma endurspegla muninn á tveimur kynslóðum, þ.e. þeim sem voru á aldrinum 25-29 ára árið 1991 og þeim sem voru það árið 2001.

Mynd 1 sýnir hlutfall fólks sem var í mismunandi tekjutíundum á tímapunkti 1 sem lenti í neðstu tekjutíund á tímapunkti 2. Þar sést að líkurnar á að lenda í neðstu tekjutíund lækkuðu því ofar sem fólk var í tekjudreifingunni á fyrri tímapunktinum. Þannig enduðu 3% þeirra sem voru í efstu tekjutíund á fyrri tímapunktinum (2001) í þeirri neðri á þeim seinni (2016) en rúm 15% þeirra sem voru á í neðstu tekkjutíundinni voru þar enn.

Líkurnar á að vera í neðstu tekjutíund á seinni tímapunktinum jukust á milli kynslóða fyrir öll tekjubil á tímapunkti 1. Táknin á myndinni sýna líkindahlutföllin (e. odds ratios) á milli kynslóða, en þau segja okkur að líkindin jukust mest hjá þeim sem voru í efsta tekjubili á fyrri tímapunkti en næst mest á meðal þeirra sem voru í næst-neðsta tekjubili.

Mynd 2 sýnir hlutfall fólks sem var í mismunandi tekjutíundum á tímapunkti 1 sem náði í efstu tekjutíund á tímapunkti 2. Líkurnar á að ná í efstu tekjutíund á seinni tímapunktinum voru mestar á meðal þeirra sem voru þau þegar í efstu tekjutíund á fyrri tímapunktinum og mjög auknar fyrir þau sem voru í næst-efsta tekjubilinu.

Líkurnar á að vera í efsta tekjubili á tímapunkti 2 jukust á milli kynslóða fyrir þá sem voru þar þegar á tímapunkti 1, héldust svo gott sem óbreyttar fyrir þau sem voru í næst-efsta tekjubili en lækkuðu fyrir alla aðra.

Breytileiki tekna eftir kyni

Við vitum að kynbundinn launamunur er til staðar á hverjum tímapunkti en ekki mikið um hvernig munurinn er á tekjuþróun kynjanna yfir tíma. Á tekjusöguvefnum má finna vísbendingar.

Mynd 3 sýnir hvernig karla og konur sem voru í neðstu tekjutíund þegar þau voru á aldrinum 25-29 ára árið 2001 röðuðust í tekjutíundir árið 2016. Það er allnokkur hreyfanleiki upp á við en mynstrin eru ólík á milli kynjanna. Konur voru líklegri en karlar til að lenda í miðtekjubilunum (5 og 6) og bilununum þar fyrir neðan (3 og 4) en karlar voru líklegri en konur til að komast í efstu þrjú tekjubilin og umtalsvert líklegri til að ná á topinn, hátt í 22% karla sem byrjuðu í neðstu tekjutíund þegar þeir voru 25-29 ára voru í þeirri efstu þegar þeir voru 40-44 ára en aðeins 6,3% kvenna.

Mynd 4 sýnir svo muninn á körlum og konum sem voru í efstu tekjutíund þegar þau voru 24-29 ára, þ.e. í hvaða tíund þau voru 15 árum seinna. Karlarnir voru mun líklegri til að vera enn í efstu tekjutíundinni, 62,5% á móti 49,1%. Konurnar sem færðust niður færðust líka yfirleitt lengra niður en karlarnir. Þannig fóru rúm 44% karla sem færðust niður lengra en tvö tekjubil en rúm 76% kvenna.

Breytileiki tekna yfir 5 ára tímabil

Hér að ofan hef ég fjallað um breytileika tekna yfir nokkuð langt tímabil sem markast að nokkru leyti af upphafi starfsferils og miðjum aldri, tímabili þar sem tekjur taka alla jafnan nokkrum breytingum. Breytileiki tekna er hinsvegar mismunandi á ólíkum aldursskeiðum og til að varpa ljósi á það skoðaði ég breytileika tekna yfir skemmri tímabil, þ.e. á milli 2011 og 2016, eftir aldursbilum.

Mynd 5 sýnir hvernig fólk sem var í neðstu tekjutíund árið 2011 raðaðist í tekjutíundir árið 2016 eftir eftir því í hvaða aldursbili það var á fyrra árið. Myndin sýnir skýrt hvernig dregur úr hreyfanleika upp á við með hækkandi aldri. Af þeim sem voru í neðsta tekjubilinu árið 2011 voru tæp 29% þeirra sem voru 25-29 ára á fyrra tímabilinu enn í lægstu tekjutíund, tæp 45% þeirra sem voru 40-44 ára og tæp 65% þeirra sem voru 55-59 ára. Þá lækkaði hlutfall þeirra sem þó voru hreyfanlegir sem fóru upp um meira en tvö tekjubil með aldri, þ.e. tæp 72% þeirra sem voru 25-29 ára á fyrratímabilinu og náðu upp úr neðsta tekjubili fóru upp um tvö eða fleiri bil, tæp 65% þeirra sem voru 40-44 ára og tæp 40% þeirra sem voru 55-59 ára.

Hreyfanleiki niður úr efstu tekjutíund er ögn flóknari saga. Það dregur úr slíkum hreyfanleika með hækkandi aldri fram til aldursbilsins 40-44 ára. Þannig voru 53,5% þeirra sem voru í efstu tekjutíund þegar þau voru 25-29 ára þar enn fimm árum seinna en tæp 71% þeirra sem voru 40-44 ára. Aftur á móti lækkaði hlutfallið í aldursbilunum fyrir ofan og var rúm 65% fyrir fólk sem var 55-59 ára. Það sama mynstur er til staðar hvað varðar hve langt fólk færist til í tekjudreifingunni, en um 45% þeirra sem voru 25-29 ára á fyrri tímapunktinum og færðust niður um tekjubil fóru lengra en tvö tekjubil niður, um 27% þeirra sem voru 40-44 ára og tæp 30% þeirra sem voru 55-59 ára.

Samantekt

Líkurnar á því að lenda í neðsta tekjubili á seinni tímapunktinum á fimmtán ára tímabili eru meiri því lægri tekjur sem fólk hefur á fyrri tímapunktinum. Líkurnar á að ná í efsta tekjubil á seinni tímapunktinum á fimmtán ára tímabili voru umtalsvert hærri á efstu tveimur tekjubilunu en hinum átta.

Hreyfanleiki niður á við, þ.e. í neðsta tekjubil, jókst á milli kynslóða fyrir öll tekjubil en mest fyrir þá sem voru í efsta tekjubili í upphafi tímabilsins. Aftur á móti virðist hafa dregið úr hreyfanleika upp á við, upp í efstu tíund, á milli kynslóða, en aðeins þau sem voru þar á fyrri tímapunktinum buggu við auknar líkur á að vera þar á þeim seinni. Sumsé: Minni hreyfanleiki upp, meiri niður.

Það dregur úr hreyfanleika fólks á milli tekjubila með hækkandi aldri og af þeim sem færast á milli tekjubila fer hlutfallið hækkandi með aldri sem færist stutt, þ.e. upp eða niður eitt til tvö tekjubil.

Karlar eru mun líklegri en konur til að hreyfast upp úr neðsta tekjubili og hreyfast lengra upp á við en konur. Konur eru líklegri til að færast niður úr efsta tekjubili og færast lengra niður en karlar.

Tillögur

Tekjusagan er frábær viðbót við þær tekjuupplýsingar sem eru aðgengilegar á Íslandi. Það er hinsvegar ýmislegt sem má bæta, svo sem að bjóða upp á samanburði á milli fleiri en tveggja hópa í launasumslagssíðunni og þá væri mjög til bóta að geta fært tölur sjálfkrafa yfir í töflureikniforrit. Það er að vísu hægt að hægrismella á myndir til að sjá tölurnar á bakvið myndina en eftir því sem ég kemst næst verður maður að færa þær handvirkt yfir í excel eða samskonar forrit til að vinna með þær.

Þó það tölurnar sem eru birtar á vefnum séu góðar og gagnlegar þá eru fjöldi spurninga um tekjur á Íslandi sem þær svara ekki. Það væri t.d. gagnlegt að geta greint hvernig samspil menntunar og tekna er auk þess sem ýmiskonar viðbótarupplýsingar um dreifingar væru gagnlegar. Þá væri gott að geta handvalið ár til skoðunar í lífshlaupinu fremur en að vera bundinn af þeim fimm ára tímabilum sem eru skilgreind á síðunni. Ég er reyndar með mjög langan óskalista en læt þessar ábendingar duga að sinni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni