Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Talað um Láru

Sumu fólki finnst gaman að fara út að dansa og aðrir vilja ferðast og drekka framandi drykki og kynnast heiminum og horfa á sólsetrin bráðna og þá er til fólk sem er með öllu húmorlaust og svo eru til smásálir og stórar sálir og fólk sem fer oft á skíði og sumir vilja drekka kínverskt te og keyra austur fyrir fjall og enn aðrir þurfa að vinna — sjáið bara mig. Í útvarpinu dunar tónlist. Talið beinist alltaf að Láru.

Ég bý hérna með þrettán dauðum svörtum köttum og leigusalinn er eldri kona sem datt í hug að koma mér fyrir kattarnef með gólfmoppu. Úr þessu varð heilmikið maus. Hún þjösnaðist lengi vel á höfði mínu með gólfmoppunni, þar sem ég lá bjargar- og varnarlaus á óskúruðu gólfinu, og ef hún hefði haldið lengi áfram og haft úthald hefði ég kannski getað dáið, ólíklegt að sönnu en hugsanlegt, en svo náðum við að slappa svolítið af og við fengum okkur geitaost og þá settluðust  hlutirnir, eins og þeir gera gjarnan. Talið beindist að Láru. Þá var allt í lagi.

Svo eru til snakillir andskotar sem segja manni að ekkert sé hundaskíts virði og, þú veist, skilurðu, það líði aldrei í alvöru yfir konur og að varmenni depli alltaf augunum og eitthvað slíkt og að börn séu þau einu sem roðni og lífið sé ekki til annars en að geispa loks golunni, life is a bitch and then you die, og það er til fólk sem segir manni að samtíminn sé hreint út sagt æðislegur og ekki til í honum vottur af neinu sem sé gagnrýniverður, yeah, right. Svo beinist talið að Láru, alltaf þangað.

Ég var að tala við Edda, hann býr hér úti á horni og sameiginlegur vinur okkar hafði frætt mig á því að hann væri dauður. Svo var ekki. Það er alltaf gaman að hitta fólk sem er ekki alveg steindautt. Það gerist æ sjaldnar. Svo beindist talið að Láru, það beinist alltaf að Láru. Þá hitti ég hana Erlu. Hún kvartaði yfir lífinu í leikhúsinu. Mér skilst að það sé slæmt. Erlu langar til að gubba, ég veit ekki af hverju hún gubbar ekki. Eins gott að ég er að skálda, hitti aldrei neinn og frétti ekki neitt, annars væri ég í vondum málum gagnvart meiðyrðalöggjöfinni. Leikarar lifa á því að fólki líki vel við þá. Þess vegna, sagði Erla, sem er ekki til, nema í popplagi í eyrunum á mér, þess vegna vilja þeir síður að það fréttist að þeim þyki jafn sjálfsagt að skenkja lögg af Rohypnoli í glas og að vera jafnréttissinnaður og og vinstrimenn og drekka diet-kók og éta snakk og skarta rafrænum heiðursmerkjum og skola svo manngæsku sinni niður með ókjörum af kolsýrðu vatni og deila tækifærissinnuðum greinum, snapa læk og fyllast vandlætingu og upphefja sjálfan sig á kostnað náungans. Mér til léttis beindist talið að Láru. Mér var orðið hálf bumbult sjálfum.

Svo töluðum við um kvikmyndir og hvernig lífið gæti svo sem verið verra og svo beindist talið að Láru, talið beinist alltaf að Láru.

Þá kom leigusali minn aftur, eins gott að ég á engan leigusala og er að ljúga, og hún vildi gera úrslitatilraun til að murka úr mér lífið með gólfmoppu. Danni er í jakkanum sínum og Sara er í vestinu sínu, hún vinnur í banka en hann er í þjónusturáðgjafastöðu og sjálfur er ég í rokkhljómsveit, guði sé lof. Stundum sef ég á götum úti, ég bý aleinn og hitti aldrei neinn.

Í bakaríinu í Hveragerði er til brauð sem kallast „karlrembubrauð“. Ég keypti hálft og varð þá hugsað til Lou Reed. Þess vegna er glymur hann í eyrum mér og orð hans og söngtextar standa út úr mér eins og ég sé viðtökutæki, ekki eitt orð er mitt. Margir eru þannig, láta tala í gegnum sig. Mér er samt sagt að allt sem orkar tvímælis á skynsamari sálir, leysist upp í þokunni á Hellisheiðinni og allt sé í meira lagi skynsamlegt þegar hingað er komið og horfi til betri tíðar, tvímælalaust, og þegar komið sé austar fari það enn batnandi og að á Vík í Mýrdal sé allt raunverulega satt og ómengað af tíðarandanum en að talið beinist samt furðu oft að Láru.

_________

Heimildir:

Wild Child

I Can't Stand It

Sweet Jane

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu