Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Skilið sparifé okkar!!

Skilið sparifé okkar!!

Nú hefur komið fram að Alþingi hefur tekið 23 milljarða úr Ofanflóðasjóð og nýtt þá fjármuni í önnur gæluverkefni í stað þess að verja heimili landsmanna. Við samþykktum á sínum tíma að greiða þann aukaskatt í kjölfar mikilla hörmunga, en nú liggur fyrir að það hefur ekki verið gert.

Félagsmálaráðherra hefur nýverið upplýst okkur að ríkisstjórnin tæki til sín árlega um 48 milljarða af skyldusparnaði eldri borgara með því að leggja allt að 80% jaðarskatta á skyldusparnað þeirra. Hann fann reyndar út þessa tölu með miklum ýkjum og skrökvi, og notað 420 þús. viðmið í stað 300 þús. sem er krafa eldri borgara. Svo sem venjubundin vinnubrögð ráðherra okkar.

Fyrir liggur að ríkistjórnin hefur árum saman tekið umtalsverðan hluta af Framkvæmdasjóð aldraðra og nýtt hann til gæluverkefna, en þessi sjóður var stofnaður til þess að styrkja uppbyggingu hjúkrunarheimili og við samþykktum það á þeim forsendum að það blasti að öldruðum myndi fjölga gríðarlega mikið þegar barnasprengjuárgangarnir kæmust á lífeyrisaldur og nú hefur komið að það var ekki staðið við það með skelfilegum afleiðingum. Þannig mætti lengi telja.

Ráðherrar mæta þrátt fyrir framangreint reglulega í fréttatíma og halda því fram að ríkisstjórnin standi sig vel. En hún hefur hins vegar endurtekið verið staðin að því að vera með hendurnar í vösum landsmanna. Stærsti hluti þessa fjármagns hefur verið nýttur til þess að fjármagna lækkun veiðigjalda og skattalækkana tekjuhæstu hópa landsins.

Ráðherrar okkar eru orðnir svo harðsvíraðir að þeir hrifsa hiklaust til sín milljörðum af skyldusparnaði launamanna. Hvað næst? Á að fara inn á sparireikninga landsmanna í íslenskum bönkum? Í framangreindu blasir við hvers vegna margir, þ.á.m. nokkrir núverandi og fyrrverandi ráðherrar, hafa verið staðnir að því að nýta öll möguleg tækifæri til þess að koma sínum sparnaði inná erlenda bankareikninga á aflandseyjum.

Nú hafa eldri borgarar sagt hingað og ekki lengra. Það er ekki eðlileg að ríkisstjórn geti tekið það upp hjá sjálfri sér að ráðstafa úr skyldusparnaði launamanna. Launamenn samþykktu að fresta úttekt af hluta atvinnutekjum sínum á þeim forsendum að eiga þennan skyldusparnað þegar starfsævinni lýkur og starfsorku minnkaði. 

Skyldusparnaður okkar í lífeyrissjóðunum eru sannarlega atvinnutekjur sem við eigum, en stjórnvaldið hefur hins vegar ákveðið að leggja á okkur allt að liðlega 80 prósent jaðarskatt af þessum skyldusparnaði. Öll lönd sem við berum okkur saman við skerða ekki grunnlífeyri með því að gera upptækan skyldusparnað launamanna í gegnum jaðarskatta.

Eldri borgarar telja að brotið sé á eignarrétti með því að skerða ellilífeyri á grundvelli greiðslna úr lífeyrissjóði og ætlar með málið fyrir dóm.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið eru hvattir til að leggja framlög inná reikning málsóknarsjóðsins. Reikningsnúmerið er 515-26-007337 og kennitala 691119-0840.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni