Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Sjálfsskaparvíti stjórnenda álversins í Straumsvík

Sjálfsskaparvíti stjórnenda álversins í Straumsvík

Enn eina ferðina teflir stjóriðjan fram heimasmíðuðum fjölmiðlaspuna. Rifjum aðeins upp aðdraganda raforkusamnings álversins í Straumsvík.

Árið 2006 stóðu yfir viðræður við Hafnarfjarðarbæ um að Alcan fengi stærri lóð. Fyrirtækið vildi bæta við kerskálum svo ná mætti meiri hagkvæmni í rekstrinum. Bæjarstjórn tók málinu með jákvæðni og setti málið í lögformlegan farveg sem endar með atkvæðagreiðslu meðal allra íbúa Hafnafjarðar. Bæjarbúar virtust ætla að taka vel í málið. Skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna, eða 5. október 2006, ákvað forstjórinn að segja upp 3 starfsmönnum sem höfðu skilað öllu sínum bestu starfsárum hjá álverinu og áttu stutt í að ná eftirlaunaréttindum.

Nokkru áður, eða 19. júní, höfðu þessir starfsmenn staðið einna fremstir vegna reynslu sinnar í því að bjarga álverinu frá tapi upp á nokkra milljarða þegar 120 ker duttu út vegna bilunar á aðveitustöð, með því að koma kerunum inn á einungis þriðjung þess tíma sem talið var að það myndi taka. Þessar fáránlegu uppsagnirnar sem vöktu mikla reiði meðal starfsmanna álkversins og þeirra sem til þekktu. Umræddir einstaklingar höfðu ávallt búið í Hafnarfirði og áttu þar stórar fjölskyldur og vinahópa. Reiðin skilaði sér inn í viðhorf bæjarbúa Hafnarfjarðar í atkvæðagreiðslunni og varð til þess að stækkun álversins var hafnað í íbúaatkvæðagreiðslunni.

Í kjölfar þessarar herfilegu útkomu fyrirtækisins úr atkvæðagreiðslunni var ákveðið að auka framleiðslugetu álversins með því að gera breytingar á þáverandi kerskálum og forstjóri álversins mætti í fjölmiðla og tilkynnti að þannig myndi fyrirtækið lágmarka þann skaða sem íbúar Hafnarfjarðar væru að valda í rekstri álversins. Margir urðu til þess að benda forstjóranum á hún ætti nú að líta sér nær í leit að sökudólgum. En eins og komið hefur fram í fjölmiðlum gengu þessar fyrirætlanir um framleiðsluaukningu ekki upp.

Stjórn álversins hafði nokkru fyrir atkvæðagreiðslu bæjarbúa gert hagstæðan samning við Landsvirkjun um raforkukaup fyrir nýju kerskálana og framleiðsluaukningu gömlu skálanna. Stjórn álversins sá hins vegar sæng sína útbreidda þegar stækkuninni var hafnað og staðfesti þar af leiðandi ekki nýja samninginn og lét gamla raforkusamninginn renna út árið 2010.

Allir þessir fingurbrjótar stjórnar álversins komu fyrirtækinu í mjög erfiða stöðu við samningaborðið og þau urðu að sætta sig við umtalsvert hærra raforkuverð en var í samningnum sem lá óstaðfestur inn í geymsluhillunum, þar voru einnig ákvæði um aukna raforkuþörf vegna væntanlegrar aukningu í framleiðslunni. Þeirri áætlun hafði stjórn álversins klúðrað og varð að endurnýja raforkusamninginn árið 2014 auk þess að semja sig frá kaupum á aukinni orku og varð að greiða Landsvirkjun þann gríðarlega kostnað sem Landsvirkjun hafði þurft að leggja út þar sem flýta þurfti byggingu Búðarhálsvirkjunar svo unnt væri að skila aukinni orku til álversins í Straumsvík. Þessi raforkusamningur skuldbatt áverið til lágmarkskaupa á raforku til ársins 2036.

Talsmenn álversins snéru þessum staðreyndum á haus í kjaraviðræðum árið 2015 og hótuðu að loka álverinu ef komið yrði í veg fyrir að fyrirtækið gæti ráðið verktaka inn á svæðið og fækkað þannig fastráðnu starfsfólki. Þessar hótanir stóðust enga skoðun. Stjórn fyrirtækisins var þarna greinilega í leit að undankomuleið frá eigin mistökum með áætlun um að koma Landsvirkjun og ríkisstjórn í þá stöðu að verða að endursemja um raforkuverðið og losa álverið undan orkukaupaskuldbindingunni til ársins 2036.

Samningamenn verkalýðshreyfingarinnar þeirra þekktu vel til kjarasamninganna og töldu að þessi fyrirsláttur stjórnenda álversins væri einungis partur af venjubundinni leikjafræði. Endurnýjun kjarasamninga væri lítið dæmi hvað varðar rekstrarkostnað álvers. Þar spilaði stærstu hlutverkin endurnýjun búnaðar, rafmagnsverð, kaup á hráefni og verðlag framleiðslunnar. Þekkt er að dótturfélagið hér á landi greiðir móðurfélaginu milljarða á hverju ári í formi tæknilegrar aðstoðar og margskonar þjónustu í kringum súrálið og rafskautin og vexti á lánum, Nýr kjarasamningur var undirritaður í apríl og álverinu var ekki lokað.

Við höfum kynnst því margendurtekið af hálfu þeirra fyrirtækja sem vinna úr auðlindum íslensku þjóðarinnar hvernig þau beita fyrir sig hótunum um að ef við förum ekki að þeirra kröfum muni það kosta atvinnumissi hundruð launamanna. Þessir aðilar hafa búið við mjög lágt orkuverð og tekið sér með beinum og óbeinum hætti stóran hlut ágóðans. Nú er þess krafist að íslensk þjóð taki á sig allan skellinn.

Álverin þrjú hér á landi skiluðu aðeins 1 prósenti af þjóðartekjum þrátt fyrir að ál stæði fyrir 38 prósentum af útflutningnum. Söluverðmæti áls mun vera nokkuð yfir 200 milljörðum króna. Þegar greiddur hefur verið hráefnakostnaður og annar rekstrarkostnaður en laun og fjármagnskostnaður standa eftir um 60 milljarðar króna. Um 17 milljarðar fara í laun og launatengd gjöld. Afgangurinn fer í fjármagnskostnað og hagnað eigenda sem laumað er óskattlögðum úr landi. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni