Kostir Katrínar Jakobsdóttur

Kostir er skemmtilegt orð. Það merkir bæði gæði, mannkostir, og val, valkostir. Fyrirsögn mín á við báðar merkingarnar. Hér fjalla ég um Katrínu Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna.
Mannkostir hennar eru að hún er foringi, leiðtogi sem fer skynsamlega með vald. Hefur stórt pólitískt nef og stór pólitísk eyru. Það er merkilegt þegar leiðtogi flokks hefur mun meira fylgi en flokkurinn sem hann leiðir. Það merkir að slíkur leiðtogi á meira erindi en að leiða einn flokk í pólitísku dægurþrasi.
Þá komum við að hinni merkingunni.
Valkostir Katrínar er í raun tveir.
Sá fyrri að leiða sundraðan hóp félagshyggjufólks gegn skipulagða sveit auðhyggjunnar sem nú ákveður kúrsinn í verkum ríkisstjórnarinnar.
Ljóst er að næstu alþingiskosningar munu að mestu um skiptingu þjóðarkökunnar og velferðarkerfið. Þá mun stjórnarskrármálið bera á góma. Í þessum málum hefur Katrín skýra og einfalda stefnu. Ef félagshyggjufólki ber gæfa til að sameinast í einu framboði yrði það einfaldara ferli að mynda ríkisstjórn með Pírötum. Um leið yrði valkosturinn skýrari.
Hinn valkostur Katrínar er forsetaframboð. Eins og margir hafa nefnt þá er kominn tími á konu í þetta embætti. Ólafur Ragnar Grímsson hefur setið sem forseti í nær þriðjung lýðveldistímans og virðist að margra mati ekki á útleið.
Sé svo er jafnvel þýðingameira að skipta um forseta og það getur vart annar en Katrín Jakobsdóttir. Í raun sögulegt ef fyrrum formaður Alþýðubandalagsins myndi víkja fyrir núverandi formanns flokks sem telst afkvæmi hins fyrrnefnda.
Við þurfum nýtt Ísland. Við þurfum nýja stjórnarskrá en ekki stagbætta flík.
Það er því mín niðurstaða að leiðin að nýju lýðveldi er endurnýjun flokkakerfis og nýjan forseta.
Katrín á Bessastaði!
Athugasemdir