Gæslumaður alþingis
Ekki er ætlunin að skrifa hér ritdóm um fræðigrein Bjargar Thoroddsen og Stefaníu Óskarsdóttur um valdsvið forsetans.
Lengi hafa fræðimenn deilt um valdsvið forsetans og sögulegar ástæður. Þegar gluggað er í ýmis gögn sem varða aðdraganda samningu stjórnarskrárinnar 1944 vekur athygli að menn voru að flýta sér. Styrjöldin flýtti fyrir því að menn fóru að huga að lýðveldisstofnun. Menn skiptust í hóp lögskilnaðarmanna og hóp hraðskilnaðarmanna. Lögskilnaðarmenn vildu bíða eftir stríðslokum sem voru fyrirsjáanleg en hraðskilnaðarmenn vildu rifta samningnum 1918 vegna vanefnda. Á þessum tíma var upplausn á alþingi, utanþingsstjórn þar sem alþingismenn komu sér ekki saman um myndun ríkisstjórnar. Utanþingsstjórnin var skipuð af ríkisstjóranum Sveini Björnssyni síðar forseta, sérlega í óþökk sjálfstæðismanna og formannsins Ólafs Thors. Sveinn ríkisstjóri hafði á þessum tíma í raun meiri völd heldur en forveri hans konungurinn. Íslenska embættismannakerfið var mun háðara framkvæmdavaldinu en það danska. Það má því fullyrða að ríkisstjórinn fór með framkvæmdavald með þeirri ríkisstjórn sem hann skipaði. Jafnframt er ljóst af dagbókum og öðrum gögnum að Sveinn ríkisstjóri hafði áhrif á samningu stjórnarskrá lýðveldisins. En menn vildu hraða sér og gögn sýna að ætlunin í byrjun var að breyta nánast engu "nema skipta út orðinu konungur í forseta". Þetta staðfestist í nýársávarpi Sveins forseta 1949;
"Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. Er lýðveldið var stofnað var þess gætt að breyta engu öðru í stjórnarskránni en því sem óumflýjanlegt þótti vegna breytingarinnar úr konungsríki í lýðveldi. Mikil þróun hefir orðið á síðustu öldinni með mjög breyttum viðhorfum um margt. Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá. "-
En vegna áhrifa Sveins Björnssonar hafði einu mikilvægu atriði verið breytt í meðförum alþingis. Breytingin fólst í því að forsetinn yrði þjóðkjörinn en ekki þingkjörinn. Með þessu eru völd löggjafans tempruð ásamt ákvæðinu í 26. grein um vísun laga til þjóðar. Eitt og sér eru ákvæðin lítils virði, þingkjörinn forseti á all sitt undir þingi, og þjóðkjörinn forseti án synjunarréttar frekar máttlítill. Það er við þessar aðstæður þar sem myndast aðstæður fyrir forsetann að verða gæslumaður alþingis, hvort það sé æskilegt eða óhæft.
Núverandi forseti hefur svo holað þetta rými sem byrjaði með virkjun 26.greinarinnar 2004. Þá hafði framkvæmda-eða löggjafarvaldið tækifæri á því að spyrna við lögfót. Með athafnaleysi sínu gaf það forsetann enn fleiri færi á afskiptum á þjóðmálum sem náði hámarki með Icesavesamningum síðar. Sú ríkisstjórn eða meirihluti alþingis átti engar viðspyrnur sem enn festi gæslumannshlutverk forsetans í sessi. Það staðfesti þjóðin endurtekið í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í framhaldi af því fór forsetinn að koma fram á alþjóðavettvangi sem málsvari þjóðar. Í framhaldi kom forsetinn sér upp sérstaka utanríkisstefnu óháða stefnu ríkisstjórnar.
Í yfirlýsingu sem forsetinn sendi frá sér segir (2011);
Þegar meta skal hvort forseti staðfesti sem lög hið nýja frumvarp um Icesave er grundvallaratriði að horfa til þess að Alþingi og þjóðin hafa saman farið með löggjafarvaldið í þessu máli. Það Alþingi sem 16. febrúar afgreiddi málið er eins skipað og áður; þjóðin hefur ekki endurnýjað umboð þess í almennum kosningum.-
Hér lítur forsetinn á að þjóðin og alþingi fari saman með löggjafarvald. Um leið mætti staðhæfa að löggjafinn hefði einungis frestandi löggjafarvald. Forsetinn væri svo brúin milli þings og þjóðar sem ákveddi hvenær og hvort yrði sent til þjóðar.
Forsetinn núverandi hefur komið sér upp viðmið eða reglur hvort eigi að beita synjunarvaldinu. Fram kemur að hann hafi kannað þetta meðal hundrað ráðgjafa, metið fjölda undirskrifta eða umfang umræðu á alþingi.
Allt eru þetta samhengislausar reglur og viðmið einungis til að þjóna dyntum forsetans að mínu mati.
Af þessu sést að vald forseta hefur mótast gegnum tíðina. Prófessor í stjórnmálafræðum sem sest í forsetastól á tiltölulega létt með að möndla með vald. Ekki verður séð að núverandi forseti sé kominn að valdarenda og sitji áfram í fjögur ár.
Hann verður því áfram gæslumaður alþingis,...nema þjóð hafi þá gæfu að semja sér nýja stjórnarskrá.
Athugasemdir