Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Formannsraunir í flestum flokkum

Formannsraunir í flestum flokkum

Eitt af því sem einkennir ólgu í íslenskum stjórnmálum er forystuvandi flokkanna. Eins og ég hef bent á þá var mikil undiralda á miðstjórnarfundi Sjálfstæðisflokksins. Nánari fregnir eru þær að farin er albaníuleiðin að formanni flokksins, gagnrýnin beint að varaformanninum. Kvennaarmur flokksins vill að konur komist til meiri áhrifa á aldarafmæli kosningarétti kvenna, Hanna Birna verið eins og þyrnir í þófa flokksins og margir telja áhrif  flokksins í ríkisstjórn rýr.

Augu allra beinast að ólgunni í Bjartri framtíð og þeim "nauðsynlegum hreinsunum" sem þar gerast. Skjálftinn svo mikill að flokksheitið verður öfugmæli. Næstu leikur fráfarandi forystu er að styðja Brynhildi Pétursdóttur til formanns svo ólguhafinn Kristín Heiða setjist ekki í formannsstól. 

Þeir sem vilja vita og afneita ekki, sjá að Samfylkingin býr við innanmein. Fyrrverandi utanríkisráðherra flokksins er fjarrænn og farinn að líta til Bessastaða, farið að tala um flýtingu landsfundar og innkomu borgarstjórans í  formannssætið. Ráðning framkvæmdastjóra flokksins virðist ganga illa hvað sem veldur og ágreiningur er um áherslu á málefni á haustþingi meðal þingmanna. 

Píratar virðast sigla lygnan sjó hvað forystu varðar en samt er kurr meðal flokksmanna um þrásetu þingmanna á þingi. "Menn eiga að standa við stóru orðin", sagði mér einn Pírati. 

Jafnvel er komið kurr innan Framsóknarflokksins sem hafa vaxandi áhyggjur af hrynjandi fylgi flokksins. Stórmæli Vigdísar Hauksdóttur fara í vaxandi mæli í taugarnar á flokksmönnum og ljóst er að vinsældir félagsmálaráðherra fer vaxandi. Menn tala um nýtt formannsefni.

Vinstri græn virðist einn flokka sigla utan skerja án ágjafar. Formaður flokksins er vinsæll, jafnvel utan flokks og varaformaðurinn, utan þings þykir röggsamur í bloggi.

Við siglum því inn í kraumandi stjórnmálahaust.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni