Að vera kúguð kona: Ferðin um Persíu og aftur heim
Ég var tuttugu og tveggja ára gömul, stödd á flugvellinum í Istanbul með Karli vini mínum. Ég var klædd í víðar, sandlitaðar buxur, kvarterma skyrtu sem náði niður á mitt læri og heiðbláa silkislæðu um hálsinn. Ég var ekki viss um hvort ég ætti að setja hana á mig strax, svo ég ákvað að hafa hana bara um hálsinn.
Við stóðum í röðinni fyrir hádegisflugið til Tehran. Fólkið í röðinni leit skringilega á okkur, enda ekki algengt að tveir skjannahvítir Íslendingar legðu leið sína til Íran. Það var ekki fyrr en einhver spurði hvort við værum örugglega í réttri röð, og við svöruðum því játandi, að fólk hrópaði upp yfir sig af hrifingu. Ferðamenn! Að heimsækja Íran!
Miðaldra maður sem bauð okkur velkomin og spurði spurninga: Hver ertu? Hvaðan komið þið? Afhverju eruð þið að koma til Íran? Er hún konan þín? Eigið þið börn? Hvað gerir konan þín? Komið í heimsókn til mín!
Ég stóð bara og þagði, en vinur minn svaraði: "jujú, við erum gift, en nei nei, engin börn... konan mín, hún er að læra sagnfræði". Það sem var skrýtið var að þessum spurningum um mig, var ekki beint til mín, heldur til Karls.
Þegar í flugvélina var komið fann ég fyrir sömu feimni af hálfu semferðamanna okkar; konur eru nefnilega ekki allstaðar menn. Við hliðina á okkur sat peningasafnari sem gaf okkur sinn hvorn ríalinn: Ég fékk þúsund, en Karl fékk hundrað. Spurningum var aldrei beint til mín, en ég var farin að skilja að það var ekki af vanvirðingu við mig, heldur af undarlegri hefð, mögulega eitthvað sem Íranir þurftu að temja sér eftir byltinguna 1979.
Skósalinn í Tehran
Við lentum í Tehran um sólsetur og úr flugvélarmollunni tók við þurrt eyðimerkurloftið og bílamengunin á leiðinni til heimahússins í suður Tehran þar sem við gistum. Okkur var vel tekið af hæglátum, þrítugum Írana. Hann var bersýnilega ekki efnaður, en gat gefið okkur te, sögur, ljoð og húsaskjól og útskýrði að í Kóraninum þá er gesturinn gjöf frá Guði. Við vorum velkomin.
Fyrsta morguninn tókum við neðanjarðarlestina í átt að Grand Bazaar. Ég fór í kvennaklefann í lestinni, Karl, hann fór í karlaklefann. Ég var öðruvísi, en ég var velkomin. Eldri kona stóð strax upp fyrir mér, ég vissi ekki hvernig ég átti að láta. Ég var ung, ég gat staðið, en það er eitt sem maður lærir fljótlega á því að vera í Íran, það er að þiggja einfalda gestrisni með því að afþakka tvisvar og þiggja boðið í þriðja sinn. Konurnar voru undrandi yfir þessari bláeygðu, ljóshærðu, bleiknefju stúlku og spurðu mig hví ég væri þarna.
Á einni stöðinni kom kona inn að selja brjóstahaldara.
Við Karl fórum út á fyrirfram ákveðinni brautarstöð og héldum upp í dagsbirtuna. Okkur hungraði í morgunmat, svo við reyndum að finna einhvern stað þar sem við gætum snætt. Úti á götu hrópaði sem hver verslunareigandinn á fætur öðrum á eftir okkur: "Hello sir!" -- "Welcome!" Það kom hinsvegar fljótt í ljós að enskur orðaforði flestra var takmarkaður, en að lokum kom til okkar skósali nokkur sem kunni einhverja ensku.
"Við erum að leita af veitingastað til að borða morgunmat," sagði Karl.
"Veitingastað?" kváði Skósalinn. "Þú kemst ekki inn með konuna þína inn á veitingastað," útskýrði hann og leit á mig, "komið til mín! Í skóverslunina mína og þið fáið morgunmat þar!"
Við litum á hvort annað - kinkuðum kolli og fylgdum manninum fram á næsta götuhorn þar sem lítil en snyrtileg herraskóverslun stóð. Skósalinn kallaði á táningsdreng sem skottaðist út og kom til baka með tebakka. Ég var beðin um að vinsamlegast setjast í "fínni" stólinn en Karl fékk koll. Við sátum þarna agndofa, þetta var eins og að vera í póstmódernískri smásögu. Við drukkum te, Karl spjallaði við skósalann sem vildi endilega bjóða okkur í kvöldmat og var við það að hringja í eiginkonu sína þegar Karl sagði að við hefðum því miður önnur plön. En hvað með hádegisverð? Hjálpardrengurinn kom aftur með nýlagað naan, hunang og paneer. Við borðuðum morgunmat í skóverslun í Tehran.
Frelsun hársins
Ferð okkar hélt áfram, hvert sem við komum var fólk gestrisið, vingjarnlegt og gerði allt fyrir okkur. Bauð okkur velkomin, kallaði á eftir Karli "Welcome sir!" á meðan það í mesta lagi brosti vingjarnlega til mín. Við flökkuðum frá Tehran til Esfahan, sem er ein fallegasta borg veraldar, í gegnum þurra eyðimörk til Yazd þar sem ég stalst til að leyfa eyðimerkursólina skína á bert hárið á hádegi þegar enginn var úti.
Í Yazd kynntumst við ungri konu sem ég held enn sambandi við. Hún bauð okkur út að borða og sagði okkur frá lífinu og tilverunni, sem var furðulega venjulegt. Þegar heim var komið skoðuðum við stjörnurnar. Ég læddist út á stuttbuxum og í hlýrabol, við litla hrifningu drengjanna þegar þeir áttuðu sig á hættunni.
Frá Yazd ferðuðumst við á puttanum til Shiraz þar sem gamall trukkabílstjóri tók okkur upp í; Benz trukkur sem komst ekki hraðar en 10 km/klst upp brekkur. Í Shiraz kynntumst við systkinahópi sem bauð sófadýr velkomin til þess að æfa sig í ensku. Frá Shiraz héldum við til Orumieh, borgar sem liggur við saltvatn á borð við Dauðahafið. Þar tók á móti okkur lítil fjölskylda sem hafði áður búið í Ástralíu.
Móðirin talaði fallega ensku og við spjölluðum lengi um hvernig það var að lifa sem kona í Ástralíu og svo í Íran, fyrir byltinguna og eftir. Hún var frjálslynd, en hún var líka trúuð. Hún setti upp hijab þegar Karl var í kringum okkur, en tók hijabið niður þegar það var bara ég og sonurinn. Þegar hún bjó í Ástralíu þá hætti hún að ganga með hijab, henni fannst það ekki rétt. Henni fannst hún heldur ekki vera kúguð, þótt vissulega væru stjórnvöld óþarflega íhaldsöm.
Frá Orumieh héldum við til Tabriz þar sem ung kona tók á móti okkur, en hun hafði bjargað okkur frá hungri i Tehran með því að panta pizzu handa okkur. Hún hafði lært ensku í háskólanum og var ljósmyndari, falleg kona sem hafði alist upp í Íran og aldrei fengið tækifæri til þess að fara þaðan. Hún sagði okkur fra því að þegar þau hjónakornin voru að byrja saman fyrir nokkrum árum höfðu þau lent í siðgæðislögreglunni. Þau voru meðvituð um að landið var ekki fullkomið, en þetta var heima -- þetta var þeirra.
Frelsi og kúgun
Frá Tabriz héldum við til Tyrklands. Tvær vikur voru liðnar af póstmódernísku ævintýri þar sem við kynntumst landi og þjóð á einstakan hátt. Ég varð ástfangin af landinu, en að sama skapi reif ég af mér hijabið um leið og ég fékk játandi svar frá tyrkneska landamæraverðinum við spurningunni: "Er ég komin til Tyrklands? Má ég taka af mér hijabið núna?"
Hann hló þegar ég tók hárið úr taglinu og leyfði vindinum að leika um það.
Var ég orðin frjáls? Var ég ekki lengur kúguð kona? Ég hafði farið til Íran í þeim yfirlýsta tilgangi að fá að vita það hvernig það væri að vera opinberlega kúguð vegna kyns míns. Í stað kúgunar upplifði ég kurteisi og virðingu. Ég lærði margt, t.d. ef múslimi hefur farið til Mekka má hann ekki snerta konur utan vébanda, og það frá einum lífverði Khomeinis (hann sýndi okkur myndir, ég trúi honum). Þannig, ég lærði að það er öruggara að setja hægri hönd á hjartastað og hneigja örlítið sem heilsu. Það þarf ekki að vera kúgun, það er öðruvísi virðing.
Ég lærði hvernig það er að ganga með hijab, hversu þægilegt það er til þess að vernda hárið frá mengun og eyðurmerkursólinni, en að sama skapi nothæft á köldum og stormasömum vetrarnóttum á Íslandi.
Var ég kúguð? Ég var kúguð, en ég fann ekki fyrir kúguninni. Ekki fyrr en ég sneri aftur til Íslands. Þegar ég sagði eitthvað og karlmenn litu frekar á karlmanninn næst mér þegar næstu spurningu bar að. Eða til þess að fá viðurkenningu frá honum að ég væri að segja satt og rétt frá. Ég fór að taka eftir hliðstæðri birtingarmynd feðraveldisins, sem er jú löglega formfest í Íran, á Íslandi.
Ég varð ekki kúguð fyrr en ég fór að taka eftir múslímaótta á Íslandi; fyrr en tveir rasistar komust í borgarstjórn vegna andúðar á moskum.
Ég upplifði í rauninni ekki kúgun fyrr en ég sá hvernig heimili mitt gat ekki boðið fólk velkomið. Hvernig ofsafenginn ótti gagnvart útlendingum virtist lifa í töturlegri þjóðarsál Íslands. Við komum ekki fallega fram við fólkið okkar, fólkið sem kemur sem gestir.
En, gesturinn, er gjöf frá Guði.
Athugasemdir