Af hverju er Beyoncé að syngja kántrí? – Af því að hún getur það

Gagn­rýn­end­ur og að­dá­end­ur Beyoncé kepp­ast við að lof­sama nýja kántrí­plötu drottn­ing­ar­inn­ar: Cow­boy Cart­er. En hvaða skila­boð er Beyoncé að senda?

Af hverju er Beyoncé að syngja kántrí? – Af því að hún getur það

„Þetta er ekki kántríplata. Þetta er Beyoncé-plata,“ segir Beyoncé um plötu sína, Cowboy Carter, sem kom út í gær, á föstudaginn langa. Með þessari yfirlýsingu meinar drottningin, Queen-B, kántríbransanum að eigna sér verk hennar á sama tíma og hún gerir tilraun til að gera mörk kántrí og annarra tónlistarstefna óskýrari. Og það virðist vera að takast. Eða hvað? 

Þegar Beyoncé mætti á Grammy-verðlaunahátíðina í byrjun febrúar með kúrekahatt mátti vita að eitthvað stórt væri í uppsiglingu. Viku seinna steig Beyoncé formlega inn í kántríheiminn þegar hún gaf út tvö ný lög, í hálfleik á Ofurskálinni (e. Super Bowl). Annað þeirra, Texas Hold 'Em, er orðinn hennar stærsti smellur í seinni tíð. 

En kántrítónlistarsenan kippti sér lítið upp við þetta útspil Beyoncé. Það kann að breytast nú þegar fyrstu dómar um plötuna eru að detta í hús. Gagnrýnandi Guardian gefur Cowboy Carter fjórar stjörnur af fimm og segir plötuna sýna að Beyoncé er „ótrúlega fær um að gera hvað sem hún vill“. 

Cowboy Carter er áttunda plata Beyoncé. Hún inniheldur 27 lög og millispil (e. interlude). Á plötunni má finna kveðju frá engri annarri en Dolly Parton: „Hey miss Honey B, it's Dolly P. You know that hussy with the good hair you sing about?“ Þar vísar Dolly í textabrot úr lagi Beyoncé, Sorry, frá 2016: „Becky with the good hair“. Að því loknu tekur Beyoncé við og syngur sína útgáfu af Jolene. 

Fleiri tökulög er að finna á plötunni, þar á með Blackbird, einu ástsælasta lagi Bítlanna. Textinn er eftir Paul McCartney og kom út árið 1968 á plötunni The Beatles, eða Hvíta albúminu. Á yfirborðinu virðist það vera ósköp einfalt, fallegt þjóðlag um svartþröst með brotna vængi að syngja í næturkyrrðinni. En lagið er alls ekki um fugl

McCartney samdi lagið á meðan hann fylgdist með réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Brotnu vængirnir eru þráin eftir frelsi og Bítillinn hafði baráttu svartra kvenna sérstaklega í huga þegar hann samdi lagið. Í bók sinni, Many Years From Now, sem kom út árið 1997, segir McCartney um Blackbird: „Þetta var í raun lag frá mér til svartrar konu sem var að ganga í gegnum þessa erfiðleika í Bandaríkjunum: „Leyfðu mér að hvetja þig áfram og halda áfram að reyna, halda í trúna. Það er von“.“ 

Það er því úthugsað hjá Beyoncé að flytja Blackbird á Cowboy Carter. Platan er miklu meira en bara kántrí. Hún er svar Beyoncé við því hvernig kántrísenan hefur jaðarsett aðkomufólk, sérstaklega svartar konur. Og hún vildi sýna hvernig það veikir tónlistarsenuna í heild sinni til lengri tíma. 

Sjálf er Beyoncé frá Texas. Houston er hennar heimaborg. Til að styðja mál sitt enn frekar fær hún góða gesti. Auk Dolly Parton má finna kántrísöngvarann Willy Nelson á plötunni, auk Miley Cyrus og Post Malone, sem hafa dansað á mörkum popp og kántrí.   

Af hverju er Beyoncé að syngja kántrí? Stutta svarið er: Af því að hún getur það. Skilaboð hennar eru að kántrí er fyrir alla, svei þeim sem reyna að hindra það. Eða eins og hún syngur: 

„Them old ideas are buried here. Amen“ 

Eða: 

 „Þessar gömlu hugmyndir eru bornar til grafar hér. Amen“

Kjósa
14
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu