Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Ísland sendir flóttabörn til Grikklands á meðan önnur ríki heita því að taka við fólki þaðan

Grikk­ir hafa þeg­ar tek­ið við 115 þús­und flótta­mönn­um. Flótta­manna­búð­ir eru yf­ir­full­ar og að­stæð­ur fólks­ins hrylli­leg­ar. Portúgal­ir, Frakk­ar og Finn­ar hafa heit­ið því að taka við fólki frá land­inu til þess að létta und­ir með Grikkj­um. Ís­lensk yf­ir­völd hyggj­ast nú senda fimm barna­fjöl­skyld­ur til Grikk­lands. Ástand­ið er eld­fimt, þar sem hægri öfga­menn herja á flótta­fólk og grísk­ar lög­reglu­sveit­ir mæta því með tára­gasi á landa­mær­un­um.

Útlendingastofnun fyrirhugar að vísa að minnsta kosti fimm barnafjölskyldum úr landi og til Grikklands í vikunni. Aðstæður flóttafólks í Grikklandi hafa lengi verið bágbornar og fjöldi alþjóðstofnana og samtaka á borð við UNICEF og Rauða krossinn ítrekað fordæmt brottvísanir á börnum þangað. „Það er ekki með nokkru móti hægt að réttlæta brottvísanir á börnum til Grikklands,“ sagði Rauði krossinn á Íslandi í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér þann 4. mars síðastliðinn til þess að mótmæla umræddum brottvísunum. Grikkir hafa þegar tekið við um 115 þúsund flóttamönnum og önnur evrópuríki hafa heitið því að létta birðinni með því að taka við fólki þaðan, enda hæliskerfið nú þegar löngu orðið yfirfullt.

Mótmæla brottvísunYfir sex þúsund manns hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem brottvísun flóttabarna til Grikklands.

Mál íraskrar fjölskyldu, þeirra Mohammed Al Deewan, Wedyan Al-Shammari og barna þeirra fjögurra hefur vakið hvað mesta athygli. Yfir sex þúsund einstaklingar hafa skráð nöfn sín á undirskriftarlista þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til þess að stöðva brottvísun fjölskyldunnar. Þar er greint frá því að þau hafi verið á flótta frá árinu 2017 þegar þau flúðu pólitískar ofsóknir, ofbeldi, pyntingar og aðrar hörmungar í heimalandinu Írak. Flóttinn hafi leitt þau til Grikklands og þrátt fyrir að það hafi ekki staðið til að sækja þar um vernd vegna aðstæðna fólks á flótta í landinu hafi þau hins vegar neyðst til þess. Þar hafi þau búið við óásættanlegar aðstæður þar sem þau áttu varla fyrir mat, fatnaði eða öðrum nauðsynjum. Þá hafi aðgengi að heilbrigðisþjónustu verið af skornum skammti, lítið sem ekkert húsnæði verið að fá, skólaganga verið takmörkuð og engin atvinna í boði.

„Þar að auki upplifði fjölskyldan mikið óöryggi, hræðslu og vanlíðan þegar þau voru á Grikklandi, meðal annars vegna mikilla kynþáttafordóma, ofbeldis og ítrekaðra árása af höndum grískra öfgahópa á fjölskylduna, en í einni þeirra var móðir barnanna handleggsbrotin.“ Hafi ástandið á Grikklandi verið erfitt árið 2017 þá er það síst betra núna. Grískir lögreglu- og hermenn hafa mætt flóttafólki á landamærum Tyrklands af mikilli hörku eftir að Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, tilkynnti að landið myndi ekki lengur koma í veg fyrir að flóttafólk færi yfir landmærin. 22 ára sýrlenskur flóttmamaður, Ahmed Abu Emad að nafni, lést af skotsárum á landamærum landanna síðastliðinn miðvikudag. Grikkir hafa neitað ásökunum Tyrkja um að öryggissveitir þeirra fyrrnefndu hafi verið að verki.

Þá hafa hópar hægriöfgamanna og nýnasista hópast saman á eyjum á borð við Lesbos og Chios, undanfarna daga, ráðist á flóttafólk, blaðamenn, lækna og sjálboðaliða, auk þess sem kveikt hefur verið í flóttamannamiðstöð sem sinnti 25 þúsund einstaklingum. Sex ára barn drukknaði í Miðjarðarhafinu á síðasta mánudag þegar það féll úr ótryggum bát sem var á leið yfir hafið til Grikklands. Börn þeirra Deewan og al-Shammari, heita Ali, Kayan, Saja og Jadin. Þau eru níu ára, fimm ára, fjögurra ára og eins árs. Ef fram fer sem horfir gætu þau fundið sig á götum Grikklands á næstu dögum.

„Með góðri samvisku“

Þorsteinn Gunnarsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar, hefur sagt að það séu engin áform uppi um að falla frá brottvísun fjölskyldna til Grikklands. „Samkvæmt lögum um útlendinga þá er okkur ekki heimilt að senda neinn til baka sem gæti átt hættu á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Meðan við förum eftir því, já, þá getum við staðið við bak þessara ákvarðana með góðri samvisku,“ sagði Þorsteinn í samtali við fréttastofu RÚV, þegar hann var inntur eftir því hvort ástandið í Grikklandi væri nægilega gott til að Íslendingar gætu vísað barnafjölskyldum þangað.

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs hjá Rauða krossi Íslands, sagði í samtali við Stundina á dögunum að það skjóti skökku við ef stjórnvöld velji að framfylgja úrskurði sínum á þessum tímapunkti, þegar enn meiri óvissa en áður ríkir um ástandið í Grikklandi, sem lengi hafi verið slæmt. „Það eru nýmæli að ákvörðun um úrskurði sé framfylgt með þessum hætti. Mál fjölskyldufólks hafa hingað til fallið á tímafrestum, sem hefur tryggt þeim efnismeðferð hér,“ bendir hann á.

Einstaklingarnir sem um ræðir hafa þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi. Rauði krossinn hefur meðal annars bent á að börn á flótta séu oft í verri stöðu eftir að þau hafa fengið vernd á Grikklandi en áður en þau fengu slíka vernd. Landið hefur tekið á móti gríðarlegu magni flóttafólks á síðastliðnum árum, enda fyrsta stopp margra þeirra sýrlensku flóttamanna sem tóku að streyma til Evrópu frá árinu 2015. Flóttamannabúðir eru margar hverjar yfirfullar, hreinlætis- og húsnæðisaðstæður almennt bágbornar auk þess sem þrengt hefur verið að aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá eru fjölmörg dæmi um að fólk hafist hreinlega við á götunni.

Sá sem gengur um götur höfuðborgarinnar, Aþenu, kemst ekki hjá því að sjá flóttafólk á strjáli hér og þar. Allslaust og að því er virðist algjörlega upp á gæsku annarra komið. Fólk dormar á einhverju götuhorninu, mögulega búið að finna teppi til þess að hvíla sig á, og betlar jafnvel til þess að fá eitthvað sám klink fyrir mat. Ljóst er að fólk í þessari stöðu er svo auðveld bráð fyrir hægri öfgamenn sem eiga það til að storma um göturnar í leit að flóttafólki til þess að vanvirða, berja og hræða. Ýmis hjálparsamtök starfrækja vissulega gistiskýli, súpueldhús eða annað slíkt í þeim tilgangi að létta undir með fólki í neyð. Þeim stöðum þar sem flóttafólk átti skjól hefur hinsvegar farið fækkandi eftir að hægristjórn íhaldssama forsætisráðherrans Kyriakos Mitsotaki tók við völdum síðastliðið sumar. Stjórnin hefur skorið upp herör gegn aðgerðarsinnum sem höfðu meðal annars komið á fót hústökum sem hýstu verkefni til aðstoðar flóttafólks.

Nýnasistar herja á flóttafólk

Sema Erla Serdar, stofnandi hjálparsamtakanna Solaris, hefur barist fyrir því að fjölskyldurnar fái að vera áfram hér í landi. Hún bendir meðal annars á að það skjóti skökku við að íslensk yfirvöld séu að senda börn á flótta til Grikklands á meðan að erlendir nýnasistar séu að koma sér þar fyrir til þess eins og ráðast á fólk í þessari viðkvæmu stöðu. Nýlegar fregnir herma að fimm meðlimir þýskrar nýnasistasellu hafi nýlega komið sér fyrir á eyjunni Lesbos þar sem þeir þóttust vera blaðamenn. Þá hafa hægri öfgamenn tekið sér stöðu við fjöruborðið og meinað flóttafólki inngöngu í landið meðal annars með þeim orðum að Grikkland sé kristið. Blaðamenn hafa verið eltir uppi og lamdir auk þess sem hópur lækna neyddist nýlega til þess að hlaupa á flótta eftir að hópar hægri öfgamanna réðust að þeim og eyðilögðu meðal annars bílaleigubílana þeirra með naglaspýtum. Þeir komust að endingu í skjóla í einum flóttamannabúðunum þar sem flóttamennirnir komu þeim til hjálpar.

„Nýnasistar frá nokkrum ríkjum Evrópu hafa gert sér ferð til Grikklands til þess að styðja félaga sína þar í landi við að taka á móti fólki á flótta sem þangað kemur með andlegu og líkamlegu ofbeldi, til þess að aðstoða þá við að hindra aðgengi flóttafólks að lífanauðsynlegri aðstoð og hjálpa þeim að skemma nauðsynjar eins og mat og vatn sem ætlaðar eru fólki á flótta,“ skrifaði Sema Erla á Facebook þann 6. mars síðastliðinn. „Á sama tíma stefna íslensk yfirvöld á að senda flóttabörn sem sótt hafa um vernd hér á landi í einkaflugi beint til Grikklands. Þau ætla að senda börn í mjög viðkvæmri stöðu á stað þar sem ríkir neyðarástand, þar sem fólk á flótta er beitt ómannúðlegri meðferð og öryggi þeirra og vernd er ekki með nokkru móti tryggt. Það er einungis sjúkt samfélag sem gerir svo. Sjúkt samfélag sem er hluti af sturluðum heimi. Heimi þar sem hatrið er að sigra ástina. Heimi þar sem grimmdin er að sigra kærleikann. Heimi þar sem mennskan er að tapa fyrir illskunni. Illsku sem við héldum að við myndum aldrei verða vitni að aftur.“

Sendum ekki fólk til Grikklands, sagði dómsmálaráðherra

Aðstandendur undirskriftarsöfnunarinnar hafa bent á að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafi nýlega lýst því yfir að stefna íslenskra stjórnvalda væri að brottvísa ekki fólki á flótta til Grikklands. „Þetta eru sérstakar ástæður þar sem hægt er að fá efnismeðferð þannig að það er rangt hjá hæstvirtum þingmanni, sem hann heldur hér fram, að við sendum einstaklinga alveg sjálfkrafa á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til baka. Það eru tvö lönd í dag sem við sendum ekki til baka vegna stöðu þeirra þar og það eru Grikkland og Ungverjaland,“ sagði Áslaug Arna á Alþingi þann 17. febrúar síðastliðinn. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði dómsmálaráðherra að því þann 3. mars síðastliðinn, hvort til stæði að endurskoða umræddar brottvísanir barnafólks til Grikklands. Áslaug Arna sagði þá að hvert mál væri metið fyrir sig en bætti við að ekkert evrópskt ríki hefði hætt endursendingum á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem þegar hefði hlotið vernd í Grikklandi.

Engar endursendingarÁslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði nýlega á Alþingi að flóttafólk væri ekki endursent frá Íslandi til Grikklands.

Rauði krossinn á Íslandi, hefur sem fyrr segir, mótmælt fyrirhuguðum brottvísunum og bent á að fjölmörg alþjóðleg samtök mæli gegn endursendingum þangað. Ástandið í og við landamæri Tyrklands vegna aukins flóttamannastraums til Grikklands bæti svo hreint ekki úr skák. Þannig vísar Rauði krossinn meðal annars til ástandsins við Miðjarðarhaf, þar sem ungur drengur drukknaði nýlega þegar hann og fjölskylda hans fóru yfir hafið frá Tyrklandi á ótryggum bát. „Þá er afar viðkvæmt ástand við landamæri Tyrklands og Grikklands þar sem fréttir herma að um 13.000 flóttamenn bíði inngöngu. Þá berast einnig fregnir af harðræði grísku lögreglunnar og öðrum yfirvöldum og að fólki sé meinað inngöngu. Mikil ólga og andúð fólks í Grikklandi á flóttafólki er einnig áberandi í fjölmiðlum sem ætla má að fari aðeins vaxandi,“ segir í tilkynningu Rauða krossins frá því 4. mars síðastliðinn.

Þá hafa samtökin biðlað til íslenskra stjórnvalda og hvatt eindregið ríkisstjórn Íslands til að endurskoða þá stefnu að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa stöðu sína viðurkennda í Grikklandi, aftur þangað. „Ástandið í Grikklandi hefur um nokkurt skeið verið óboðlegt fyrir flóttafólk og í ljósi frétta af ástandinu í Grikklandi sl. daga er ljóst að stjórnvöldum er enn síður stætt á að senda í fyrsta sinn börn og foreldra þeirra í aðstæður sem þessar. Fólk á flótta á að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk og það er ljóst að endursending þess til Grikklands við þessar aðstæður er til þess fallið að það fái ekki notið þeirra.“

Eldfimt ástand við landamærin

Við getum það,“ sagði Angela Merkel þýskalandskanslari þegar flóttamenn streymdu til Evrópu árið 2015, og átti þar við að evrópubúar væru vel fær til þess að taka á móti fólki á flótti. Þá voru aðrir tímar og síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Evrópusambandið reyndi meðal annars að koma á sérstöku kvótakerfi þar sem flóttafólki væri dreift um ríki álfunnar en mætti mikilli andstöðu frá ýmsum aðildarríkjum sem settu sig harkalega á móti slíkum hugmyndum. Þá gerði Evrópusambandið sérstakan samning við Tyrkland árið 2016 sem fól í sér að tyrknesk yfirvöld myndu taka við flóttafólki gegn tilteknum styrkjum frá Evrópusambandinu. Þetta umdeilda samkomulag hefur haldið síðustu ár þrátt fyrir að Erdoğan hafi oftar en ekki hótað því að „opna hliðið“ eins og hann orðaði það.

Og það gerði hann þann 28. febrúar síðastliðinn. Hann tilkynnti tyrkneska þinginu um þessa ákvörðun sína daginn eftir með þeim orðum að hann hefði nú opnað dyrnar til Evrópu. Tyrkland myndi ekki lengur hefta för flóttafólks til álfunnar eins og umræddur samningur við Evrópusambandið hefði kveðið á um. Hvers vegna, spurði Erdoğan, og svaraði því sjálfur: Vegna þess að Evrópusambandið hefur ekki staðið við loforð sín. Milljónir flóttafólks myndu brátt standa við landamæri Evrópusambandsins. Meðlimir grísku ríkisstjórnarinnar hafa talað um aðgerðir Tyrkja sem árás á Grikkland. Erdogan sé með þessu að beita flóttafólkinu fyrir sig eins og einskonar peðum í skák. Það hafa enda verið sögusagnir af heilu rútuförmunum frá Tyrklandi að landamærum Grikklands, þar sem flóttafólki hefur verið sagt að landamærin séu opin, en þegar þangað er komið er fólkinu einungis mætt með gaddavírsgirðingum og táragasi.

Grísk yfirvöld hafa enda gefið það út að lokað hafi verið á hælisumsóknir í bili. Erdoğan hefur síðustu daga bent á þetta og annað eins til að vekja athygli á því hversu hryllilega evrópuríki koma fram við fólk á flótta. En það eru ekki bara landamæri Grikklands og Tyrklands við Evros ána á meginlandinu sem eru undir, þarna eru líka eyjurnar Lesbos, Chios, Samos, Kos og Leros. Ástandið á eyjunni Lesbos er eldfimt. Þarna eru Moria flóttamannabúðirnar alræmdu en þeim hefur verið lýst sem lifandi helvíti fyrir þá sem þar þurfa að eiga sér lífsviðurværi. Og þrátt fyrir að taka ekki nema um þrjú þúsund manns, þá búa þar í dag rúmlega tuttugu þúsund manneskjur. Þarna hafa nýnasistar komið saman að undanförnu, að því þeir segja í þeim tilgangi að verja landamæri.

Kalla eftir aðstoð annarra ríkja

Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, átti fund með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins síðastliðinn þriðjudag. Hún þakkaði Grikkjum fyrir að verja landamæri sambandsins og lofaði auknum fjárstuðningi við baráttu þeirra. „Þessi landamæri eru ekki bara grísk landamæri, þetta eru líka evrópsk landamæri,“ sagði hún. Þá hefur Evrópusambandið gefið það út að dyrnar til Evrópu séu lokaðar. „Ekki fara að landamærunum. Landamærin eru ekki opin. Ef einhver segir þér að þú getir farið þangað þar sem landamærin séu opin... þá er það ekki rétt,“ sagði Josep Borrell, yfirmaður utanríkismála sambandsins, að loknum fundi með utanríkisráðherrum meðlimaríkja í Zagreb á föstudag.

Grikkir eiga nú þegar í mestu erfiðleikum með að sjá um þá 115 þúsund flóttamenn sem halda til í landinu. Flóttamannabúðir eru yfirfullar og margir eiga varla í sig og á. Flóttamannaráð Noregs, NRC, sendi nýlega frá sér áskorun til annarra ríkja Evrópusambandsins um að deila byrðinni með Grikkjum. Um 30 þúsund flóttamenn voru sendir frá Grikklandi og Ítalíu til annarra evrópuríkja á árunum 2016-2018. Síðan þá hafa ríkin hinsvegar ekki getað komið sér saman um leiðir til þess að framkvæma slíkar aðgerðir. Ríkisstjórnir Póllands og Ungverjalands hafa til að mynda verið algjörlega mótfallnar því að taka við flóttafólki frá Grikklandi á meðan aðrar þjóðir hafa verið opnar fyrir slíku.

Flóttamannaráð Noregs bendir á að Frakkland, Portúgal og Finnland hafi þegar heitið því að taka við flóttafólki frá Grikklandi. Andstaða einstakra ríkja við slíkt fyrirkomulag megi ekki koma í veg fyrir að önnur taki frumkvæði eins og fyrrgreind lönd hafa gert. Atli Viðar Thorstensen hjá Rauða krossinum benti einmitt á þessa staðreynd í samtali við Stundina í síðustu viku, og sagði hana segja sína sögu. „Eins og það horfir við okkur í dag finnst okkur enn minna tilefni en áður að taka upp endursendingar til Grikklands.“ Það hvort íslensk yfirvöld láti nú verða af því að senda börn á flótta til þess evrópuríkis sem á í hvað mestum erfiðleikum með að sjá um það flóttafólk sem fyrir er, verður tíminn að leiða í ljós. Forseti Útlendingastofnunar segir allavega engin áform uppi um annað.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár