Yfir til Palestínu
Um daginn fórum við nokkur yfir landamærin til Palestínu. Okkur var ráðlagt að nefna ekki að við ætluðum til Palestínu, heldur til Ísraels og að við ætluðum bara að heimsækja Jerúsalem og Tel Aviv. Jafnframt var okkur bent á að loka Facebook reikningunum, því landamæraverðirnir skoða allt slíkt ef þeim líst ekki á þá sem vilja komast yfir. Ísraelar eru nefnilega hræddir við að ungt fólk taki upp málstað Palestínumanna og stofni til vandræða.
Förinni var alls ekki heitið til Ísraels heldur var upphafleg áætlun að heimsækja vinkonu okkar, fornleifafræðing sem hafði verið að tína ólívur með okkur og hugðist nú vinna í safni í Betlehem í mánuð. Þegar á reyndi komst hún ekki yfir landamærin. Eftir fjögurra tíma yfirheyrslu var henni meinaður aðgangur að fyrirheitna landinu, því hún er frökk, ung, stutthærð og gæti alveg verið baráttukona. Samt er mamma hennar gyðingur af brasilískum ættum.
Við ákváðum samt að fara og reyndum að líta út eins sakleysislega og unnt var. Það var kostur að hafa mig svona gamla með unga fólkinu. Maðurinn í eftirlitinu reyndi allt hvað hann gat að taka okkur á taugum eða reita okkur til reiði, en allt kom fyrir ekki. Við vorum áfram kurteis og saklaus.
Fyrsti áfangastaður var Jerúsalem. Einstaklega falleg borg séð frá Ólívufjallinu.
Við komum seint inn í borg og þegar við höfðum tékkað okkur inn og fengið okkur að borða var búið að loka gamla bænum. Einn félagi okkar gisti þar og þar með gátum við ekki hitt hann meira það kvöldið. Mér skilst að það séu margir sem búa inni í gamla bænum en tilhugsunin um að vera lokaður inni eftir kl. 6 á kvöldin finnst mér ekki heillandi. Hvað ef maður ætlar í leikhús eða afmæli? Eða í kvikmyndahús?
Næsta dag byrjuðum við á að skoða moskuna í gamla bænum. Við fengum bara að skoða svæðið í kring, því útlendingar mega ekki fara inn. Meira að segja er útlendingum haldið aðskildum frá múslimum með ákveðnum heimsóknartímum. Moskan er þriðji heilagasti staður múslima því þar er talið að Múhammeð hafi risið til himna.
Þrátt fyrir það mega múslimar sem búa á Vesturbakkanum (annars staðar en Jerúsalem) ekki heimsækja hana, því þeim er meinaður aðgangur að Jerúsalem. Þeir geta sótt um leyfi, en ísraelsk yfirvöld eru ekkert á þeim buxunum að láta það eftir. Alls staðar á ferðum okkar um Vesturbakkann hittum við menn sem voru sorgmæddir yfir því að hafa ekki getað heimsótt Jerúsalem og moskuna allt frá því að veggurinn var byggður árið 2002. Sumir höfðu sótt um mörgum sinnum og ekki fengið. Einn hafði fengið leyfi og grét allt kvöldið þegar hann kom til baka.
Umræddur veggur skilur að hinar nýju byggðir ísraelskra landnema á Vesturbakkanum og borgir og bæi múslima sem voru þar fyrir. Landnemabyggðir þessar voru dæmdar ólöglegar af hæstarétti Ísraels, yfirvöldum til mikilla skaprauna. Í Betlehem myndar veggurinn fáránlegan fleig inn í borgina þar sem vegurinn til Jerúsalem hefst.
En sennilega er aðskilnaðurinn hvergi jafn átakanlegur og í Hebron þar sem gamla borgin var girt af til að varna íbúum aðgang. Leiðsögumaðurinn og baráttumaðurinn Badee Dweik sýndi okkur hvernig stór hluti gömlu Hebron þar sem áður var blómlegt markaðssvæði er nú einungis draugahverfi. Ísraelar hlóðu upp í hurðir og glugga, ruddu leið fyrir breiðari götur með því að brjóta niður ævaforn hús, sum hver mörg hundruð ára og enn má sjá rústir af fallega skreyttum innveggjum og loftum þar sem húsin standa eins og gömul leikmynd með aðeins helminginn uppistandandi. Á milli húsanna eru steypuklumpar eða veggir til að varna því að fólk komist þar á milli.
Til að tryggja að múslimar starfræktu ekki áfram verslanir sínar og markaði voru hurðir að hverju einasta rými lóðaðar fastar og innsiglaðar. Fyrir vikið er gamla borgin nú yfirgefin. Draugaborg.
Framhald næst
Athugasemdir