Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Svona á að gera þetta!

Svona á að gera þetta!

Í síðasta pistli var ég svartsýn á að Erdogan myndi umbera fjöldafundinn hér í Istanbul síðast liðinn sunnudag, miðað við fyrri viðbrögð hans í Gezi mótmælunum fyrir nokkrum árum. En  raunin varð önnur. 

Margar milljónir manna hópuðustu saman til að standa með leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Kemal Kılıçdaroğlu, þar sem hann endaði göngu sína frá Ankara til Istanbul til stuðnings réttlætis í landinu. Það sem fyllti mælinn og varð kveikjan að göngunni var að einn af fulltrúum flokksins var hnepptur í fangelsi eins og þúsundir annarra fyrrum opinberra starfsmanna, kennara, lögreglufólks, háskólaprófessora, blaðamanna, ristjóra, rithöfunda, dómara og allra þeirra sem Erdogan dæmir óvinveitta sér. Auk þeirra tugi þúsunda sem hafa misst störfin sín að ósekju. 

Fundurinn var haldinn Asíumegin og þar sem ég gekk niður að höfn Evrópumegin klukkutíma áður til að taka ferju yfir sundið, fann ég eftirvæntinguna í loftinu. Á bakkanum var hópur fólks með hvítar derhúfur og þegar ferjan kom til að ferja fólkið yfir til Maltepe, fundarstaðarins, var búið að skreyta hana með risaborðum sem á stóð Adelet, Réttlæti. Farþegar héldu uppi tyrkneska fánanum og kölluðu Adelet og eitthvað meira í kór. Allir með hvítar derhúfur fyrir samstöðu. 

Á leiðinni í ferjunni sáum við fullt af litlum bátum á leið í sömu átt. Allir sem áttu báta, nýttu greinilega tækifæri til að storma yfir og sýna samstöðu. Allir með stóra tyrkneska fána blaktandi í vindinum. Á bátunum voru borðar með hverfinu sem þeir voru frá og orðinu réttlæti, eins og til dæmis: Beşiktaş Adelet.  

Stjórnarandstaðan hafði líka leigt strætisvagna til að ferja fólk frá öllum hverjum borgarinnar til að létta álagið á almenningssamgöngur. Istanbul er stór og víðfeðm borg. Hér búa 20 milljónir manns, að talið er. Samgöngukerfið er mjög gott, sporvagnar, neðanjarðarlestir, strætisvagnar, dolmus sem eru einkareknar minirútur og fljótar í förum, auk fyrrnefndra ferja sem ferja þúsundir farþega daglega yfir sundin tvö.  

Gleðin og samkenndin var áþreifanleg þar sem fólkið streymdi að fundarstaðnum. Allir með hvítar derhúfur og tyrkneska fánann. Fólk vill réttlæti að sjálfsögðu, en fólk vill líka losna við Erdogan. Í síðustu kosningum, þegar ljóst var að Erdogan var að tapa, fundust allt í einu tugir þúsunda atkvæða, óstimpluð sem er ólöglegt, og eins og fyrir einhverja guðlega forsjón fleytti það Erdogan yfir sigurlínuna. 

Allir hugsandi íbúar Istanbul vilja ekki Erdogan og það sem hann stendur fyrir. Því miður eru margir hér, eins og á Íslandi, sem hugsa ekki, heldur kjósa bara það sem blöðin segja þeim að kjósa. Í öðrum bæjum voru líka hópar með kröfuspjöld að krefjast réttlætis í landinu. Myndin hér að ofan sýnir hóp kvenna vekja athygli á málstað háskólakennarans Gülmen sem hefur verið í hungurverkfalli í fjóra mánuði vegna þess að hún var rekin úr starfi að ósekju. 

Á fundinn mættu fjórar  milljónir manna eða eitthvað þar um bil. Það er einn fimmti af íbúum borgarinnar og 5% af íbúum landsins. Fimmtán þúsund lögreglumenn gættu þess að allt færi fram með friði og spekt. Stjórnarandstöðuleiðtoginn hélt ræðu og allt fór friðsamlega fram.

Á heimleiðinni sat ég í fullri ferjunni á móti þreyttum en ánægðum mönnum. Þeir voru ekki ungir, heldur um sextugt eða fimmtugt, sem sýnir að það ekki bara ungt fólk með ferskar hugsjónir sem mætti, heldur allir sem vettlingi gátu valdið. (Kannski pínu óviðeigandi að tala um vettlinga í hitanum, en alla vega allir þeir sem hvítri derhúfu gátu haldið).   

Svona á að standa fyrir umbótum. Á friðsaman hátt þar sem fólkið sjálft krefst breytinga. Ekki að vestræn ríki styðji við uppreisnarmenn með vopnum 'til að koma á lýðræði.' Það leiðir eingöngu til stríðs eins og í Sýrlandi og Líbanon á sínum tíma. Heldur friðsamlega. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni