Ólívur í Jórdaníu
Þessa dagana er ég stödd uppi í fjöllunum í norðurhluta Jórdaníu, alveg við Dibbeen þjóðgarðinn, ekki svo langt frá sýrlensku landamærunum. Hér er friðsælt og ljúft. Mikið af trjám.
Við búum á litlum frístundabóndabæ sem leitast við að vinna á umhverfisvænan máta og er að innleiða aðferðir permaculture. Hér eru 40 kindur, endur, kalkúnar, hvít hænsni fyrir egg, önnur tegund fyrir kjötið og litrík hænsni fyrir sportið (býst ég við). Einnig eru nokkrar kisur, þar af ein með kettlinga. Á efri hæðinni er gisting fyrir 15-20 manns í u.þ.b. sjö herbergjum, öll með sérbaðherbergi.
Á landareigninni eru 500 ólívutré. Mestöll uppskeran er notuð í ólívuolíu, því ólívurnar eru litlar, en þó eru þær stærstu súrsaðar. Við erum búin að tína ólívur af u.þ.b. 50 trjám og erum nú þegar byrjuð að nota olíuna með matnum. Olían er seld, sem og kjúklingar, kalkúnar og lambakjöt. Allt beint frá býli.
Hér er engu sóað. Hænsnin borða matarafgangana, kalkúnarnir fá stilkana af spínatinu og kindurnar elska greinarnar sem brotna af við tínsluna. Sum okkar borða meira að segja matinn af brauði í stað diska, eins og hér áður fyrr, í viðleitni til að minnka uppvaskið og þar með vatn. Annars er vatnið sem rennur í gegnum vaska og sturtur hreinsað og notað til að vökva plöntur. Það kallast grátt vatn samkvæmt permaculture. Svart er það vatn sem fer í gegnum klósettin og er ekki notað aftur.
Bærinn er ekki sjálfbær ennþá heldur er starfræktur með aðstoð sjálfboðaliða. Þegar við komum var verið að skipuleggja matjurtabeð og byggja upp náttúrulegan hreinsibúnað fyrir gráa vatnið, svokallað „reedbed“. Það er enn ekki alveg tilbúið.
Við kaupum ljúffenga geitamjólk af bedúíanum sem býr í tjaldi hér rétt hjá og hann býður okkur alltaf upp á te. Hann er með margar geitur, nokkra asna, of marga geltandi hunda, fimm ofursæta hvolpa og afasyni sem hjálpa honum að reka geiturnar um holtið. Einn son hef ég séð og bedúíninn spyr okkur allar, kvenkyns sjálfboðaliða, hvort við viljum ekki giftast syninum. Engin okkar hefur þegið boðið. Konan þess gamla er dáin og ég hef aldrei séð neina kvenkyns afkomendur. Sá gamli fer allra sinna ferða á asna, en vegalengdirnar eru ekki langar, bara rétt svo hér í kring um holtið.
Eitt okkar hefur það verkefni að hleypa kindunum út í dagrenningu og rölta með þeim örstutta leið inn í næsta hólf. Þremur tímum síðar eru þær sóttar og fara inn í stíuna til að borða. Seinni partinn, eftir hádegislúrinn, fara þær aftur í hólfið. Einu sinni í viku fara þær í lengri göngutúr, alveg út fyrir hlið, því eigandinn segir að kjötið verði betra þegar þær fá hreyfingu. Þá þarf að sitja yfir þeim svo þær styggist ekki og hlaupi um víðan völl.
Ég kom hingað um miðjan október og þá hefði tínslan átt að vera löngu byrjuð. En rigningin lét bíða eftir sér og þegar ekkert hefur ringt eru trén rykug og ólívurnar fastari á trjánum. Við byrjuðum samt að tína af nokkrum trjám og það var mjög skemmtilegt enda tínum við ekki nema í 2-3 klukkutíma í senn með góðri pásu á milli. Nú er byrjað að rigna, þótt það teljist varla rigning samkvæmt íslenskum stöðlum. Eiginlega bara dropar.
Athugasemdir